Ísland Þjóðin bíður spennt eftir að fá að kjósa um hvaða lag, af þeim sex sem keppa á laugardaginn kemur, verður framlag Íslands í Eurovision 2025 í Sviss í maí.
Ísland Þjóðin bíður spennt eftir að fá að kjósa um hvaða lag, af þeim sex sem keppa á laugardaginn kemur, verður framlag Íslands í Eurovision 2025 í Sviss í maí. — Ljósmynd/Mummi Lú
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keppendur sem komust áfram í Söngvakeppninni eru þessa dagana í óvenjulegum undirbúningi fyrir lokakvöldið, sem fer fram í beinni útsendingu á RÚV á laugardag, 22. febrúar. Í þessari viku hafa þau Ágúst, Bjarni Ara, Dísa og Júlí, VÆB, Tinna og…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Keppendur sem komust áfram í Söngvakeppninni eru þessa dagana í óvenjulegum undirbúningi fyrir lokakvöldið, sem fer fram í beinni útsendingu á RÚV á laugardag, 22. febrúar. Í þessari viku hafa þau Ágúst, Bjarni Ara, Dísa og Júlí, VÆB, Tinna og Stebbi JAK, hitað upp fyrir stóru stundina í útvarpsþættinum Skemmtilegri leiðinni heim á K100 með Regínu Ósk, Ásgeiri Páli og Jóni Axel. Þar hafa keppendur keppt sín á milli í spurningakeppni í fimm liðum til að prófa þekkingu sína á Eurovision og Söngvakeppninni.

Á þriðjudag mættust dúettarnir í æsispennandi keppni þar sem Júlí Heiðar og Dísa öttu kappi við VÆB.

Á miðvikudag tókust Ágúst og Tinna á í stórskemmtilegu einvígi, og í kvöld, fimmtudag, eigast Bjarni Ara og Stebbi JAK við í lokaumferð kvisskeppninnar. Kvissið er skemmtileg upphitun fyrir keppendur, en það er ljóst að þeir eru staðráðnir í að standa sig þegar kemur að lokakvöldinu sjálfu.

Fluttu gömul lög úr Söngvakeppninni

Í síðustu viku fengu keppendur það verkefni að velja sér lag úr fyrri Söngvakeppnum og flytja það í Skemmtilegri leiðinni heim.

Ágúst Þór gerði Með hækkandi sól að sínu með fallegum flutningi sem vakti mikla hrifningu. Tinna valdi lagið Ég lifi í draumi og flutti það ásamt gítarleikaranum Svenna Þór, en hún sagði að bróðir sinn, sem er mikill áhugamaður um íslenska tónlist, hefði hjálpað sér að velja lagið. „Við erum smá svona lúðar miðað við aldur …“ bætti hún við, létt í bragði.

Stebbi JAK fór aftur í tímann með því að velja Lífið er lag frá 1987 með Model og flutti það af miklum krafti í hljóðverinu. Atriði og lag Stebba í Söngvakeppninni, Frelsið mitt, hefur vakið mikla lukku, að því er virðist hjá öllum aldurshópum, hvort sem áhorfendur eru á leikskólaaldri eða komnir á eftirlaun.

„Ég held að ég hafi aldrei lagt eins mikið á mig fyrir eins fáar mínútur,“ sagði Stebbi meðal annars í samtali við þáttarstjórnendur nýverið.

Bjarni Ara rifjaði upp Karen frá 1992, lagið sem hann flutti sjálfur í Söngvakeppninni það ár og hafnaði í öðru sæti.

Júlí Heiðar og Dísa tóku hins vegar þátt í leiknum Svaraðu rangt til að vinna og skemmtu sér konunglega í stúdíóinu.

Keppendur voru því þegar komnir í góða Söngvakeppnisstemningu þegar undankeppnirnar fóru fram, en Júlí Heiðar og Dísa tóku undirbúninginn skrefinu lengra með heldur óhefðbundinni aðferð. Í stað þess að einbeita sér eingöngu að æfingum, ákvað Júlí að koma eiginkonu sinni á óvart með eldvarnarnámskeiði – í fullkomnu samræmi við keppnislagið þeirra, Eldur.

„Ég plataði Dísu!“ sagði hann hlæjandi í útvarpsþættinum og bætti við að sér hefði fundist viðeigandi að heimsækja slökkviliðsstöðina og fá smá þjálfun í tilefni lagsins – þótt enginn raunverulegur eldur verði á sviðinu.

Spenna fyrir úrslitakvöldinu

Það er ljóst að keppendur eru klárir í slaginn og leggja sig fram í undirbúningnum – hvort sem það er í gegnum kviss, flutning á eldri Söngvakeppnislögum eða jafnvel eldvarnarnámskeið! Nú er aðeins lokaundirbúningurinn eftir, og á laugardag verður ljóst hvaða keppendur fá að fara fyrir Íslands hönd til Sviss.

Hægt er að hlusta á allan flutninginn, kvisskeppnina og viðtölin við keppendurna í Skemmtilegri leiðinni heim á K100.is og á Instagram-síðu K100.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir