Ný íbúðabyggð Mengaða jarðveginn er að finna á svæðinu upp af Skerjafirði sem er fyrir miðju á þessari mynd.
Ný íbúðabyggð Mengaða jarðveginn er að finna á svæðinu upp af Skerjafirði sem er fyrir miðju á þessari mynd. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jarðvegur á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri, þar sem hverfið Nýi Skerjafjörður á að rísa, er að stórum hluta mengaður. Þetta sýna rannsóknir sem verkfræðistofan Efla framkvæmdi. Magn og mengandi innihald mengaðasta jarðvegsins er með þeim hætti að…

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Jarðvegur á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri, þar sem hverfið Nýi Skerjafjörður á að rísa, er að stórum hluta mengaður. Þetta sýna rannsóknir sem verkfræðistofan Efla framkvæmdi.

Magn og mengandi innihald mengaðasta jarðvegsins er með þeim hætti að gríðarlega mikilvægt er að átta sig vel á umfanginu svo gera megi aðgerðaáætlun er snýr að uppgreftri, flutningum, móttöku og meðhöndlun, segir Efla.

Áætla sérfræðingar að þessi mengaðasti hluti jarvegarins geti verið allt að 45 þúsund rúmmetrar.

Gera megi ráð fyrir að sérútbúnir flutningabílar þurfi að fara 3.000 ferðir með þetta efni til förgunar.

Morgunblaðið leitaði til Reykjavíkurborgar og spurði hvernig brugðist hefði verið við þessum ábendingum Eflu. Svohljóðandi skriflegt svar barst:

„Reykjavíkurborg hefur framkvæmt rannsóknir til að átta sig á umfangi og tegund mengunar á svæðinu. Hugsanlega þarf borgin að fara í frekari sýnatökur til að þétta netið enn frekar (sbr. frekari sýnatökur á Ártúnshöfða) þegar landið hefur verið afhent.

Borgin er í samtali við þar til bæra aðila um móttöku, meðhöndlun og förgun (Sorpa, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, HER). Í deiliskipulagi hefur verið afmarkað svæði þar sem sótt yrði um starfsleyfi frá HER þegar landið er afhent og vinna hefst.“

Skýrslu Eflu um mælingarnar er að finna á vef Reykjavíkurborgar. Skýrslan heitir Jarðkönnun í Skerjafirði, framhaldsrannsókn og magntaka og kom út 7. september 2021.

Fjallað er um jarðkönnun og mengunarrannsóknir sem gerðar voru í júní og júlí 2021 á því svæði Nýja Skerjafjarðar sem er í dag innan flugvallargirðingar Reykjavíkurflugvallar.

Einnig er fjallað um jarðkönnun frá 2018 og niðurstöður úr báðum rannsóknum notaðar til að magntaka þann jarðveg sem þarf að flytja til á staðnum til að undirbúa svæðið fyrir uppbyggingu samkvæmt deiliskipulagi.

Svæðið afmarkast nokkurn veginn af götunni Skeljanesi í vestri, öryggissvæði A/V-flugbrautar (13/31) í norðri og öryggissvæði N/S-flugbrautar (01/19) í austri. Til suðurs afmarkast svæðið af strandlínu Fossvogs. Svæðið er oftast nefnt Skerjafjörður eða Vatnsmýri en samkvæmt skýrslunni sé réttnefni Seljamýri, sem stóð sunnan við Skildinganesmela. Innan flugvallarsvæðisins hefur verið fjölbreytt starfsemi frá því á stríðsárunum.

Einnig var birgðastöð eldsneytis um árabil á svokallaðri Skeljungslóð (Shell), næst Skerjafirði.

„Beðið verður með að skoða Skeljungssvæðið, en þar er ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir varðandi mengaðan jarðveg,“ segir í skýrslu Eflu.

Eins og fram hefur komið í fréttum keypti Reykjavíkurborg af ríkinu það land innan girðingar, þar sem byggðin Nýi Skerjafjörður á að rísa. Þessi samningur var gerður í mars árið 2013. Færa átti girðinguna þegar svokölluð neyðarbraut hefði verið tekin úr notkun. Enn er ekki búið að færa girðinguna og því hefur borgin ekki ennþá fengið landið til umráða og notkunar.

Á umræddu svæði stendur til að byggja 1. áfanga hverfisins, 685 íbúðir auk leikskóla, grunnskóla, bílageymsluhúss, verslunar og þjónustu. Seinni áfanginn á að rísa á Skeljungssvæðinu, að hluta til á landfyllingum.

Fram kemur í skýrslu Eflu að í júní 2021 voru tekin 54 sýni á svæðinu með sérstökum bor. Þau voru síðan send til Noregs til greiningar. Er greinargóð lýsing á öllum sýnunum í skýrslunni.

„Rauður“ jarðvegur

Við rannsóknina 2021 var stuðst við reglugerð um mengaðan jarðveg. Gefin eru upp viðmiðunarmörk fyrir þungmálma, lífræn efnasambönd og sjúkdómsvalda í jarðvegi. Í reglugerðinni eru mengunarviðmið greind í þrjá flokka:

Landnotkun íbúðarsvæðis (grænn litur), landnotkun atvinnusvæðis (gulur) og yfir viðmiðunarmörkum (rauður).

„Til einföldunar í þessari umfjöllun er jarðvegur sem hentar fyrir landnotkun íbúðarsvæðis hér einnig kallaður grænn jarðvegur, sá sem lendir í notkunarflokki atvinnusvæðis gulur jarðvegur og sá sem ekki hentar til landnotkunar íbúðar- eða atvinnusvæðis þannig kallaður rauður jarðvegur,“ segir í skýrslunni.

Bent er á að þessi nafngift og skipting jarðvegsins til hægðarauka í grænan, gulan og rauðan jarðveg er óháð því hvort jarðvegurinn sé lífrænn eða ekki og því hvort hann sé óburðarhæfur eða burðarhæfur.

Samkvæmt umhverfissjónarmiðum og eðli málsins verði leitast við að nýta eins mikið af uppgröfnum jarðvegi og hægt er á staðnum, þ.e. ekki aka honum á brott.

Grænan jarðveg má nýta í landmótun og á opnum svæðum, í inngörðum eða skólalóð.

Færa megi rök fyrir því að allur gulur jarðvegur sem í dag er á skipulagssvæði Nýja Skerjafjarðar skuli grafinn upp og færður til, enda er hann skv. reglugerðinni ekki leyfður til notkunar á íbúðarsvæði, en verði þess í stað nýttur í nágrenninu þar sem er landnotkun atvinnusvæðis.

Tafla er birt í skýrslunni sem sýnir áætlað heildarmagn jarðvegs og hlutdeild burðarhæfs jarðvegs í landnotkunarflokkum íbúðarsvæðis (grænn) og atvinnusvæðis (gult), auk jarðvegs sem sýnir mengun ofan viðmiðunarmarka fyrir báða flokka (rautt). Hana má sjá hér til hliðar.

Heildarmagn er áætlað 267.462 rúmmetrar, þar af grænn jarðvegur 33.151, gulur 189.522 og rauður 44.789. Útreikningar bendi til þess að færa þurfi til á bilinu 150-190 þúsund rúmmetra af gulum jarðvegi, sem jafngildir um 10-13 þúsund flutningabílum með tengivagni.

Því er lagt til að öllum gulum jarðvegi verði komið fyrir á svæðinu milli Einarsness og austur/vestur-flugbrautarinnar (13/31), en þar má skv. mælingum og útreikningum í þessari rannsókn koma fyrir um rúmlega 170 þúsund rúmmetrum án þess að það rýri notkunarmöguleika flugvallarins eða sé í ósamræmi við reglur, kröfur og viðmið í þeim öryggis- og hönnunarforsendum sem um flugbrautina gilda.

Borgin hafi forystu

Reykjavíkurborg þarf að mati skýrsluhöfunda að vera í forystu við að tryggja að móttaka, meðhöndlun og förgun mengaðasta jarðvegsins (rauða) sé í höndum þar til bærra aðila og á svæðum sem henta, enda er slík starfsemi starfsleyfisskyld og svæðin þurfa að hafa slíkar afmarkanir í skipulagi.

Uppgröftur og flutningur ætti hins vegar líklega best heima í höndum einkaaðila og fyrirtækja sem sérhæfa sig í slíku, en þar væri einnig um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða og öll tæki, tól og verkferlar samkvæmt regluverkinu.

Hér þurfi að hefja án tafar samtal við umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld, ekki síður en skipulagsyfirvöld, til að koma þessari meðhöndlun og notkun mengaðs jarðvegs í fastar og lögformlegar skorður.

Svo komi þessu til viðbótar um 4.500 rúmmetrar af steypu og 1.250 rúmmetrar af malbiki sem þarf að rífa, en þar er um að ræða gamla flugbrautarendann og gamlar akbrautir sem eru á skipulagssvæði Nýja Skerjafjarðar. Steypuna mætti vel nýta í undirfyllingar hvort sem væri á flugvallarsvæðinu eða jafnvel við gatnagerð í Nýja Skerjafirði, en malbikinu þyrfti að farga.

Alla þessa meðhöndlun og flutninga þarf að skilgreina og skipuleggja í samráði við Umhverfisstofnun (UST) og Heilbrigðiseftirlitið (HER). Öll vinna, meðhöndlun og færsla jarðvegs innan nýs skipulagssvæðis flugvallarins þurfi að vera í samráði við Isavia

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson