Magnús Tómasson (1943) Herinn sigursæli, 1969 Stál, plast og málning, 113 x 204 x 204 cm
Magnús Tómasson (1943) Herinn sigursæli, 1969 Stál, plast og málning, 113 x 204 x 204 cm
Magnús Tómasson sýndi skúlptúrverkið Herinn sigursæli á einkasýningu árið 1969 í Galleríi SÚM sem var til húsa við Vatnsstíg í Reykjavík. Á sýningunni voru þrívíð verk unnin úr iðnaðar­efnum, málmum, járni og plasti

Magnús Tómasson sýndi skúlptúrverkið Herinn sigursæli á einkasýningu árið 1969 í Galleríi SÚM sem var til húsa við Vatnsstíg í Reykjavík. Á sýningunni voru þrívíð verk unnin úr iðnaðar­efnum, málmum, járni og plasti. Magnús var einn af frumkvöðlum SÚM-hópsins sem var félagsskapur framsækinna listamanna á sjöunda áratugnum sem vildu víkka út listhugtakið og leiða íslenska myndlist inn á nýjar brautir. Herinn sigursæli er skipaður 12 risastórum húsflugum úr plasti sem mynda herfylkingu með fánabera í fararbroddi. Herinn skálmar fram vígreifur og að því er virðist reiðubúinn til átaka og jafnvel sigurviss. Súrrealísk stærð flugnanna vekur óhug þar sem þær standa á palli með stálplötu.

Verkið má túlka á ýmsa vegu en titillinn bendir til þess að það hafi pólitíska skírskotun til þess hernaðarbrölts sem tengdist kalda stríðinu og þá sérstaklega Víetnamstríðinu og vaxandi andúð á hvers kyns stríðsrekstri á sjöunda áratugnum. Grannir flugufætur og gegnsæir og fínlegir vængir mynda þó andstæðu við harðneskjulega hugmyndina um hernað og stríð. Þannig má greina vissa kaldhæðni í verkinu þar sem hæðst er að múgsefjun og valdabaráttu og hugtakið „að gera ekki flugu mein“ fær hér nýja merkingu þegar flugurnar hafa verið stækkaðar og settar í samhengi hernaðar. Magnús stækkaði síðar eina fluguna enn frekar og sýndi sem sjálfstæðan skúlptúr.

Magnús fæddist árið 1943. Hann hélt sína fyrstu myndlistar­sýningu aðeins 19 ára gamall í Bogasal Þjóðminjasafnsins og var henni vel tekið. Hann fékkst í fyrstu við málverk en var leitandi og þreifaði fyrir sér með ýmsa miðla. Hann fékk inngöngu í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árið 1963 og stundaði þar nám til 1970.

Verk Magnúsar einkennast gjarnan af súrrealísku myndmáli og tæknilega vandaðri útfærslu og viðfangsefni hans eru afar fjölbreytt. Verk hans er víða að finna, bæði í almannarými og á söfnum, má þar nefna Minnisvarða um óþekkta embættismanninn, sem er við Tjörnina í Reykjavík, Amlóða, sem stendur á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, og Þotuhreiðrið við Keflavíkurflugvöll.