Helga Gunnarsdóttir fæddist á Húsavík 16. október 1935. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HSN) á Húsavík 9. febrúar 2025.
Foreldrar Helgu voru Gunnar Maríusson, fæddur 17. október 1906 á Húsavík, látinn 9. ágúst 1998 og Elín Málfríður Jónsdóttir, fædd 11. september 1911, látin 15. desember 1990.
Helga var þriðja barn þeirra hjóna en systkini hennar í aldursröð voru sem hér segir: 1. Sigurhanna, f. 21. desember 1932, 2. Jón Bergmann, f. 31. ágúst 1934, 3. Helga, f. 16. október 1935, d. 9. febrúar 2025, 4. Hlaðgerður, f. 27. október 1936, 5. Björg, f. 11. janúar 1939, d. 13. júlí 1999, 6. Maríus, f. 13. desember 1939, 7. Guðrún Matthildur, f. 1. febrúar 1941, 8. Sigurlaug, f. 1. október 1943, 9. Vigdís, f. 21. desember 1944, 10. Inga Kristín, f. 8. september 1946, 11. Benedikt, f. 4. janúar 1948, 12. Hákon, f. 23. maí 1949.
Helga giftist 31. ágúst 1957 Bjarna Siguróla Jakobssyni, f. 29. ágúst 1930 á Húsavík. Foreldrar hans voru Jakob Helgason, f. 1904 í Svarfaðardal, d. 1970 og Svanfríður Bjarnadóttir, f. 1905 í Fjörðum, d. 1984.
Börn Helgu og Bjarna Siguróla: 1. Bára, f. 10. desember 1956, gift Sturlu Sigtryggssyni, f. 1952, d. 2018. Bára er ferðaþjónsustuaðili og er búsett í Keldunesi í Kelduhverfi. Börn Báru og Sturlu eru Helga, Rakel og Dagný. 2. Jakob Svanur mjólkurfræðingur, f. 2. janúar 1959, giftur Láru Stephensen hársnyrtimeistara, f. 1960. Búsett í Kópavogi. Börn Jakobs og fyrrverandi eiginkonu hans, Þórveigar Kristínar Árnadóttur kerfisfræðings, f. 1960, eru Elsa María, Erna Jóna, Bjarni Siguróli og Eyrún Björk. 3. Brynja, f. 11. apríl 1962, gift Grétari Þór Eyþórssyni stjórnmálafræðingi, f. 1959, búsett á Akureyri. Börn Brynju eru Ríkharður Óli og Hrafn. Börn Brynju og fyrrverandi eiginmanns hennar, Sigurðar Heiðdal læknir, f. 1953, eru Jóhann Helgi og Ingibjörg Heiðdal. 4. Vignir, dýralæknir og hrossaræktandi, f. 2. september 1963. Börn Vignis og fyrrverandi eiginkonu hans, Margrétar Maríu Sigurðardóttur lögfræðings, f. 1964, eru Egill og Snorri. Börn Vignis og fyrrverandi sambýliskonu hans, Berglindar Ragnarsdóttur hjúkrunarfræðings, f. 1980, eru Bjartur og Viðja Karen. 5. Björk, f. 27. apríl 1966, gift Gunnari Birgi Gunnlaugssyni vélstjóra, f. 1957. Börn þeirra eru Rafnar Orri og Helga.
Barnabörn Helgu og Bjarna Siguróla eru sautján og barnabarnabörnin eru tuttugu og sjö og því eru afkomendur þeirra saman fjörutíu og níu talsins og tvö barnabarnabörn á leiðinni.
Einnig átti Helga stjúpdóttur, Guðrúnu Siguróladóttur, en Bjarni Siguróli átti hana með Andreu Pálmadóttur frá Akureyri. Guðrún, f. 24. ágúst 1955, er tanntæknir, var gift Jóhanni Halldórssyni, f. 1951, d. 6. febrúar 2022, búsett í Reykjavík. Börn Guðrúnar og Jóhanns eru Kristrún og Pálmi Rúnar. Fyrir átti Guðrún soninn Andra Má Hermannsson.
Útför Helgu fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 20. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 14. Streymt verður frá facebook-síðu Húsavíkurkirkju.
Þegar ég hugsa til baka um lífshlaup mömmu minnar Helgu þá kemur þetta helst upp í hugann:
Mamma ólst upp hjá foreldrum sínum og með systkinum að Árgötu 8 (Marahúsi) á Húsavík, en samtals voru systkinin tólf, átta systur og fjórir bræður. Mamma bjó alla sína lífstíð á Húsavík fyrir utan nokkrar vertíðir í Sandgerði og síðan bjó hún einn vetur í Reykjavík þar sem hún starfaði í Sjómannaskólanum og við barnapössun. Eins og önnur börn á Húsavík þá gekk mamma í Barnaskóla Húsavíkur og útskrifaðist þaðan. Leið hennar lá síðan í Húsmæðraskólann á Laugalandi og útskrifaðist hún þaðan árið 1954. Á Laugalandi lærði mamma ýmsar hannyrðir og bar heimili hennar glöggt merki þess. Mamma lærði einnig að prjóna, hekla, sauma og var dugleg að prjóna og sauma á okkur systkinin og barnabörnin. Mamma hafði mjög gaman af því að prjóna lopapeysur og svo var það hennar metnaður að prjóna heimferðarfötin af fæðingardeildinni á öll barnabörnin og barnabarnabörnin.
Á Laugalandi var nemendunum líka kennt að elda mat og var ekki vanþörf á því þar sem mamma eignaðist fimm börn og þar að auki dvöldu yngri systur hennar hjá þeim mömmu og pabba um nokkurn tíma og þá helst Vigga og Inga Stína. Mamma hafði líka lært af móður sinni og ömmu Helgu Þorgrímsdóttur að í Marahúsi var fjölmennt og þar þurfti að setja soðningu snemma á hellurnar.
Eftir að pabbi flutti til Húsavíkur hófu þau búskap sinn í einu herbergi að Hringbraut 8, nú Laugarbrekku 8 (Sallahúsi), þar sem hún hafði það hlutverk að gæta móðurafa síns en hann hét Jón Bergmann Gunnarsson, kenndur við Móberg. Frá Laugarbrekkunni fluttu Helga og Óli með Báru þá kornunga í Geirahús þar sem þau bjuggu í nokkur ár. Þaðan lá leiðin í Hornbjarg þar sem þau keyptu sína fyrstu íbúð á Húsavík. Í Hornbjargi bjuggu mamma og pabbi í mörg ár eða þangað til þau keyptu efri hæðina að Baldursbrekku 1 á Húsavík. Í Baldursbrekku 1 áttu þau hjón sitt heimili og þaðan minnast börnin, barnabörnin og þeirra vinir þeirra hjóna. Það var mjög gestkvæmt í Baldursbrekkunni og þar voru allir velkomnir til að koma og gista ef þannig bar undir.
Mamma flutti síðan 2021 í Útgarð 6 þar sem hún bjó þar til í haust þegar hún flutti sig yfir á elliheimilið Hvamm á Húsavík. Mamma starfaði lengst af hjá Fiskiðjusamalgi Húsavíkur sem fiskverkakona við snyrtingu á fiskflökum, hún var afkastamikil, nýtin og vandvirk. Þetta gaf henni hámarksbónus en í þá daga var unnið eftir bónuskerfi í fiskvinnslu.
Mamma hafði gaman af að ferðast bæði innanlands og einnig erlendis, ég minnist ferðar þegar foreldrar mínir ásamt Erlu og Mara heimsóttu okkur Þórveigu árið 1981 til Danmerkur. Ég fór með pabba og Mara á hestasýningu en Þórveig fór með mömmu og Erlu á búðaráp, líklega útsölur. Mamma og pabbi fóru líka í nokkrar ferðir til Spánar og þá sérstaklega til Kanarí. Svo má ekki gleyma ferðinni árið 2019 sem mamma fór með Láru, Björk, Helgu Gunn og Helgu Guðrúnu til Spánar (Punta Prima) en þar eigum við fjölskyldan íbúð. Eftir að mamma var búin að dvelja þar þá skildi hún vel af hverju fólk sækir í hitann og góða veðrið.
Mamma lét sig verkalýðsmál og hagsmunamál launafólks varða en hún sat í aðalstjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur (nú Framsýn) frá 1983-1990 en þar gegndi hún hlutverki gjaldkera.
Jakob Svanur Bjarnason.
Elsku amma Helga. Ég elskaði hvað þú varst laus við alla tilgerð alla tíð. Varst þú sjálf, hreinskilin og einlæg í þinni nálgun á lífið. Nægjusöm, að mínu mati oft á tíðum alltof nægjusöm en það kenndi manni að una við sitt og sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Kunna sér hóf og vera þakklátur fyrir það sem er.
Þú tókst alltaf á móti okkur barnabörnum þínum með opinn faðminn og Baldursbrekkan var mitt annað heimili. Staður þar sem mér leið alltaf vel og upplifði mig öruggan. Takk fyrir stuðninginn þegar á reyndi og fyrir að láta mig vita að þú fylgdist alltaf með. Það var ómetanlegt. Þakkir fyrir samtölin og samveruna síðustu vikur, það voru dýrmætar stundir. Þú elskaðir fólkið þitt og varst stolt af okkur öllum, það leyndi sér ekki. Ég lofa því að standa við það sem við ræddum síðasta spölinn er ég gekk með þér fram í matsal í hinsta sinn. Faðmaðu afa frá mér og segðu við hann frá mér: „Við sjáum til.“ Sakna þess að heyra hann segja þetta. Ég mun halda minningu þinni stoltur á lofti og ykkar beggja en líkt og segir í lokin á textanum í þínu uppáhaldslagi
Eitt er það sem aldrei
gleymist,
aldrei það er minning þín.
Sjáumst seinna, elsku amma mín.
Rafnar Orri Gunnarsson.
Mágkona mín, Helga Gunnarsdóttir, er látin. Hún var hátt á níræðisaldri þegar kallið kom, lést á Sjúkrahúsinu á Húsavík 9. febrúar sl. eftir skamma dvöl en bjó á Dvalarheimilinu Hvammi í nokkra mánuði þar á undan. Áður hélt hún sitt heimili og annaðist vel með manni sínum, Bjarna Siguróla Jakobssyni, eða Óla Jak. eins og hann var jafnan kallaður, ásamt börnunum þeirra fimm. Óli lést 27. ágúst 2012 eftir harðvítuga baráttu við erfiðan sjúkdóm. Þá voru börnin öll flutt að heiman en Helga hélt áfram að búa í húsinu að Baldursbrekku 1 sem þau hjón byggðu sér og fluttu inn í um 1970.
Helga var fædd og uppalin á Húsvík og þar bjuggu þau hjón alla tíð. Heimili þeirra var stórt, þó húsakynnin væru ekki alltaf rúm. En þar var samt alltaf nóg pláss fyrir aukafólk, móðurafi Helgu, Jón Gunnarsson, var um tíma hjá þeim til heimilis og sumar systur Helgu dvöldu tímabundið á heimili þeirra Óla. Og þannig var það þegar leiðir okkar Viggu lágu fyrst saman. Þá bjó hún í Hornbjargi hjá þeim Helgu og Óla, í einu svefnherberginu en þeim hjónum með sinn barnahóp hefði svo sannarlega ekki veitt af öllu plássinu í íbúðinni. En aldrei varð ég var við annað en að það þætti sjálfsagt þó ég gerði mig þar heimakominn. Hjá Helgu fékk ég rjúpur sem hátíðamat á jólum í fyrsta sinn, sem veiðimaðurinn Óli hafði að sjálfsögðu aflað. Upp úr þessu urðu kynni mín af þessum heiðurshjónum meiri og ég fylgdist með því hve vel þau önnuðust sína nánustu. Helga hafði alla tíð, allt frá unglingsárum, verið stoð og stytta foreldra sinna og aðstoðað móður sína með sinn stóra barnahóp. Og áfram héldu systkinin að leita til Helgu ef óskað var aðstoðar af einhverju tagi. Helga varð góð vinkona mín sem mér þótti vænt um. Fyrir traust og vináttu þeirra hjóna í minn garð alla tíð vil ég þakka sérstaklega.
Helga var dugnaðarforkur. Eins og önnur ungmenni á þessum árum vann hún við það sem til féll, beitti og stokkaði línu, saltaði síld, vann í fiski og síðar vann hún eina vertíð sem kokkur á síldarbát. Hún fór í vist hjá fjölskyldu í Reykjavík, vann einn vetur í Sjómannaskólanum og var ráðskona á vertíð hjá útgerð í Sandgerði. Þar hitti hún Óla sinn. Einn vetur var hún á húsmæðraskólanum að Laugalandi í Eyjafirði. Hún var myndarleg í sér og átti það ekki síst við um alla matargerð. Síðar vann hún hin ýmsu störf heima á Húsavík, lengst af hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur eftir að börnin voru upp komin og flutt að heiman.
Í mörg ár sat Helga í stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur og gegndi þar einnig öðrum ábyrgðarstörfum, sat í trúnaðarráði félagsins og í stjórn Sjúkrasjóðs VH, en þar valdist til setu fólk sem naut sérstaks trausts enda þurfti oft að meðhöndla þar viðkvæmar og persónulegar upplýsingar.
Síðustu misserin glímdi Helga við heilsuleysi og hún kvaddi þessa jarðvist eftir farsæla ævi í viðurvist sinna nánustu, barna, tengda- og barnabarna. Við Vigga vottum þeim öllum svo og öðrum aðstandendum innilega samúð og biðjum guð að blessa þau öll. Minning Helgu mun lifa með okkur öllum.
Guðmundur Bjarnason.
hinsta kveðja
Elsku hjartans amma mín. Þú varst alltaf svo montin með að við værum alnöfnur, mér þykir óendanlega vænt um það. Hversdagsleikinn verður öðruvísi án þín, ég hlýja mér við minningarnar. Takk fyrir allt, ég elska þig og sakna þín.
Þín
Helga Gunnarsdóttir.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Góður guð geymi þig, ég elska þig alltaf og takk fyrir allt.
Þín dóttir,
Björk.