Elísabet M. Brand fæddist 30. desember 1945. Hún lést 7. febrúar 2025.
Útför fór fram 17. febrúar 2025.
Við Elísabet kynntumst fyrst sem litlar stelpur í skóla Jósefssystra í Hafnarfirði. Við vorum eins ólíkar og dagur og nótt. Ég hávær og fyrirferðarmikil en hún talaði lágt og lét lítið fyrir sér fara. Seinna lágu leiðir okkar saman í Kvennaskólanum í Reykjavík þar sem við vorum bekkjarsystur. Elísabet var alla tíð mikil íþrótta- og útivistarmanneskja. Hún hafði gaman af flestum íþróttum og stundaði þær af kappi eftir því sem kringumstæður leyfðu. Það kom því ekki á óvart að hún skyldi setjast í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og fljótlega kom í ljós að kennslan og íþróttaþjálfun lágu einstaklega vel fyrir henni.
En Elísabetu var fleira til lista lagt. Hún var mjög fróðleiksfús og hafði mikinn áhuga á náttúru og menningu Íslands. Eftir að hafa stundað kennslu og íþróttaþjálfun um árabil venti hún sínu kvæði í kross og fór í leiðsögunám og má segja að allar götur síðan hafi hún notið þess að ferðast um landið og kynna ferðamönnum náttúru og sögu landsins.
Elísabet eignaðist fimm syni og oft var mikið um að vera í kringum þennan stóra hóp. Við skólasystur úr Kvennaskólanum hittumst reglulega á kaffihúsum. Mér er einn slíkur fundur sérstaklega minnisstæður. Við Elísabet sátum hlið við hlið og áttum gott spjalla um lífið og tilveruna. Hún talaði þá um ýmislegt sem hún hafði gengið í gegnum – ljós og skugga. Mestum tíma varði hún hins vegar í að segja mér hvað hún væri þakklát fyrir syni sína. Þeir hefðu allir komist vel til manns og hún ætti stóran hóp barnabarna sem hún væri afar stolt af.
En nú er Elísabet mín horfin yfir móðuna miklu. Ég mun sakna góðu samtalanna okkar og fundir okkar skólasystra verða ekki samir án hennar. Elísabet sagði mér að forsvarsmönnum Íþróttakennaraskólans hefði þótt hún heldur lágvaxin til þess að verða íþróttakennari. Sögunni fylgdi dillandi hlátur og glettni. En Elísabet var stór og sterkur persónuleiki og setti sinn svip á umhverfið þar sem hún var hverju sinni. Blessuð sé minning minnar góðu skólaystur.
Gullveig Sæmundsdóttir.