Kænugarður Selenskí ræddi við blaðamenn í gær um ummæli Trumps.
Kænugarður Selenskí ræddi við blaðamenn í gær um ummæli Trumps. — AFP/Tetiana Dzhafarova
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti gagnrýndi í gær Trump Bandaríkjaforseta og sagði hann búa í heimi rangupplýsinga. Féllu ummæli Selenskís á blaðamannafundi í Kænugarði eftir að Trump gaf í skyn í fyrrakvöld að Úkraínumenn og Selenskí bæru ábyrgð á…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti gagnrýndi í gær Trump Bandaríkjaforseta og sagði hann búa í heimi rangupplýsinga. Féllu ummæli Selenskís á blaðamannafundi í Kænugarði eftir að Trump gaf í skyn í fyrrakvöld að Úkraínumenn og Selenskí bæru ábyrgð á innrás Rússa og jafnframt að Selenskí sjálfur nyti einungis trausts um 4% úkraínsku þjóðarinnar.

Selenskí vísaði m.a. í nýlega skoðanakönnun sem sýndi að 57% Úkraínumanna treystu honum til þess að leiða Úkraínu áfram og sagði að Úkraínustjórn hefði sönnunargögn um að 4%-talan sem Trump nefndi væri runnin undan rótum Rússa eins og fjöldi annarra svonefndra „rangupplýsinga“ (e. disinformation) sem nú væri dreift um Úkraínu.

„Með fullri virðingu fyrir Donald Trump forseta sem leiðtoga bandarísku þjóðarinnar, þá býr hann í þessum heimi rangupplýsinga,“ sagði Selenskí í gær. Hann ræddi einnig samningsdrög, sem Bandaríkjastjórn sendi Úkraínu um sjaldgæfa jarðmálma og steinefni, sem Selenskí hafnaði.

Sagði Selenskí að samkomulagið hefði kveðið á um að Úkraína yrði að gefa Bandaríkjunum 50% eignarhald á auðlindum sínum, án þess að Bandaríkin þyrftu að gera nokkuð á móti eða tryggja öryggi Úkraínu.

„Ég er að verja Úkraínu. Ég get ekki selt hana í burtu, ég get ekki selt ríki okkar,“ sagði Selenskí og áréttaði að hann væri reiðubúinn að semja við Bandaríkin um nýtingu auðlinda landsins, ef þau tryggðu á móti öryggi landsins gegn Rússum.

Selenskí vísaði jafnframt til ummæla Trumps um að Bandaríkin hefðu varið 500 milljörðum bandaríkjadala í Úkraínu og þyrftu nú að fá það endurgreitt, og sagði það algjörlega úr lausu lofti gripið. Hið rétta væri að Bandaríkin hefðu sent um hundrað milljarða dala, og þar af hefðu um 67 milljarðar verið í hernaðaraðstoð. Þá væri það heldur ekki rétt, sem Bandaríkjastjórn héldi nú fram, að 90% þess stuðnings sem Úkraína hefði fengið hefðu komið frá Bandaríkjunum.

Trump fór með rangt mál

Trump svaraði með eigin yfirlýsingu og sagði að Selenskí, sem kjörinn var í embætti forseta árið 2019, væri einræðisherra. Forsetakosningar voru ekki haldnar á síðasta ári vegna gildandi herlaga, sökum innrásarstríðs Rússa. Þá gaf Trump í skyn að forsetinn vildi halda stríðinu áfram í hagnaðarskyni, land hans væri í molum og að milljónir hefðu dáið að óþörfu. Ekki er þó talið að milljón manns hafi látist í stríðinu, hvað þá milljónir. Sagði hann einnig að Bandaríkin og Rússland væru að ná góðum árangri í að semja um lok stríðsins í Úkraínu.

Rússar hrósa Trump

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hrósaði hins vegar Trump í hástert í gær, þá sérstaklega fyrir að halda því fram að möguleg aðild Úkraínumanna að Atlantshafsbandalaginu væri höfuðástæða þess að stríðið hefði hafist.

Sagði Lavrov jafnframt að Trump væri „algjörlega sjálfstæður stjórnmálamaður“ sem talaði beint út, og að slíkir menn færu venjulega ekki í felur með skoðanir sínar á „aumkunarverðum einstaklingum eins og herra Selenskí“.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði svo í gær að hann væri mjög ánægður með niðurstöðurnar af fundi Bandaríkjamanna og Rússa í Ríad, sem Lavrov sótti fyrir Rússlands hönd.

„Að mínu mati stigum við fyrsta skrefið til þess að hefja aftur vinnu við ýmis atriði þar sem við eigum sameiginlega hagsmuni,“ sagði Pútín, en tilkynnt var í gær að Xi Jinping myndi heimsækja Rússland í maí í tilefni þess að 80 ár verða liðin á þessu ári frá endalokum síðari heimsstyrjaldar. Mun Pútín svo heimsækja Kína í ágúst af sama tilefni.

Aftur fundað í París

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hélt í gær annan fund Evrópuríkja til þess að reyna að kalla fram sameiginlegt viðbragð álfunnar gegn ógninni frá Rússlandi eftir nýjustu vendingar í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. Voru leiðtogar um 15 ríkja, þar á meðal Íslands, boðaðir til fundarins, en fundurinn fór að mestu leyti fram í gegnum fjarfundarbúnað. Macron sagði í viðtali í fyrradag að Rússland ógnaði tilveru Evrópu, og að ekki mætti halda að „hið óhugsanlega gæti ekki gerst, þar á meðal hið versta“.

Boðað var til fundarins í París sama dag og Evrópusambandið samþykkti að herða enn refsiaðgerðir sínar gegn Rússlandi. Er þetta 16. aðgerðapakki sambandsins, og beinist hann meðal annars að „skuggaflota“ Rússlands, auk þess sem bann er sett á innflutning á rússnesku áli. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði sambandið ætla sér að halda áfram að þrýsta á Kremlverja.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson