Brennidepill
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Forsætisráðherra Bretlands segist reiðubúinn til að senda breskt herlið til Úkraínu í þeim tilgangi að taka þar þátt í fjölþjóðlegri friðargæslu. Ákvörðun þessi var ekki tekin af léttúð, að sögn ráðherrans. Hann gerir sér vel grein fyrir þeirri miklu hættu sem breskir hermenn munu standa frammi fyrir við víglínuna. Engin ákvörðun hefur þó enn verið tekin um hvort senda eigi fjölþjóðlegt herlið inn fyrir landamæri Úkraínu né heldur hvaða ríki gætu tekið þátt í slíkri aðgerð.
Peter Wall, fv. hershöfðingi og yfirmaður breska hersins árin 2010 til 2014, segir Bretland vart fært um að senda fleiri en fimm þúsund vel þjálfaða hermenn í friðargæslu til lengri tíma. Verkefni sem þetta sé mjög flókið í útfærslu, afar kostnaðarsamt og hættulegt fyrir þá hermenn sem þátt taka. Eins eru markmið gæslunnar óljós með öllu, hlutverk herliðsins óútskýrt og erfitt að setja skýrar leikreglur, þ.e. hvenær og hvort hugsanlegar friðargæslusveitir hafi heimild til að beita herafli innan Úkraínu. Þá sé fimm þúsund manna herlið dropi í hafið. Að líkindum sé þörf á um eða yfir eitt hundrað þúsund manna herliði.
Óljóst hlutverk og markmið
„Þetta er mjög djörf tilkynning. Á þessari stundu vitum við lítið sem ekkert um hugsanlegt hlutverk friðargæsluliðsins. Áður en hægt sé að líta á þetta sem raunhæfa hugmynd, þá þarf að leysa ótal atriði. Þess utan, þá er vopnabúr Bretlands ekki til fyrirmyndar og það yrði mjög erfitt að halda úti stóru herliði til lengri tíma á þessu svæði, en flest friðargæsluverkefni taka einmitt afar langan tíma í framkvæmd. Verði af þessu, þá verður þetta erfitt, svo ekki sé meira sagt,“ segir Wall í samtali við Times Radio.
Þá bendir hershöfðinginn fyrrverandi á að friðargæsla í Úkraínu myndi kalla á fjölþjóðlegt bandalag og að nú sé engin samstaða um myndun þess. Það sé hins vegar óráð að senda einungis hermenn frá Vesturlöndum til gæslu.
„Það þarf að gæta að aukinni blöndun hermanna, en þannig má auka líkur á því að Rússland viðurkenni hlutleysi þeirra og vilja til að halda friðinn. Það er mjög ólíklegt að Rússar samþykki hlutleysi herliðs frá Vestur-Evrópu eingöngu.“
Fari svo að samstaða náist um hvaða þjóðir skuli taka þátt í gæsluverkefninu tekur við ný áskorun: Að smala saman nægjanlega fjölmennu herliði til að vakta víglínu sem telur um eitt þúsund kílómetra. Til þess þarf tugi þúsunda, ef ekki eitt hundrað þúsund manna herlið. Þá sé ekki nóg að vakta víglínuna eingöngu. Nauðsynlegt sé einnig að hafa yfirsýn yfir þau vopnakerfi, s.s. langdrægar eldflaugar, sem unnt er að beita fjarri víglínunni og gegn skotmörkum innan landamæra Rússlands. Hugsanlegt verkefni sé því afar umfangsmikið, flókið og frekt á mannafla.
Wall segir ekki útilokað að senda fámennara lið og léttbúnara til friðargæslu í Úkraínu en til að svo megi verða, þurfa allir aðilar, þ.e. fulltrúar Úkraínu, Rússlands, Bandaríkjanna og Evrópu, að vera sammála um hvernig sveitirnar eru byggðar upp, hlutverk þeirra, hlutleysi og starfsreglur svo fátt eitt sé nefnt. Óljósari verkefni kalla hins vegar á mjög vel þjálfaðar sveitir hermanna og þeim er ekki svo glatt til að dreifa í Bretlandi eða annars staðar á Vesturlöndum.
Þá telur hershöfðinginn æskilegt að Bandaríkin ábyrgist lofthelgi Úkraínu á meðan gæslan stendur yfir og deili njósnaneti sínu.
Aukin framleiðsla
Mikil þörf
á vopnum
Þýski vopnaframleiðandinn Rheinmetall hefur nú tilkynnt um stóraukna framleiðslu á stórskotaliðskúlum af gerðinni 155 mm en skotfæri þessi eru m.a. notuð í hábyssur Vesturlanda sem beitt er óspart á vígvöllum Úkraínu. Um tíma hélt vopnaframleiðsla ekki í við notkun skotfæranna í stríðinu. Mun Rheinmetall nú framleiða 750 þúsund stórskotaliðskúlur árlega og verður framleiðslan að líkindum aukin enn frekar á næstu árum og þá að líkindum upp í eina milljón kúlna.
Er þessi framleiðsluaukning liður í aukinni vopnavæðingu og uppbyggingu herja Evrópu.