Ríkisstjórn Logi Einarsson menningarmálaráðherra skundar af ríkisstjórnarfundi, en Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra að baki.
Ríkisstjórn Logi Einarsson menningarmálaráðherra skundar af ríkisstjórnarfundi, en Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra að baki. — Morgunblaðið/Eyþór
Logi Einarsson menningarmálaráðherra hyggst fara yfir þátt Ríkisútvarpsins í byrlunarmálinu, en vill ekkert segja um hvort það leiði til frekari aðgerða. Í umfjöllun Morgunblaðsins um byrlunarmálið hefur verið varpað ljósi á óvenjuleg vinnubrögð…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Logi Einarsson menningarmálaráðherra hyggst fara yfir þátt Ríkisútvarpsins í byrlunarmálinu, en vill ekkert segja um hvort það leiði til frekari aðgerða.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um byrlunarmálið hefur verið varpað ljósi á óvenjuleg vinnubrögð Ríkisútvarpsins (Rúv.) og starfsmanna þess, sem lögregla og saksóknari telja saknæm. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vill hins vegar ekki svara neinum spurningum um það eða hlut sinn í málinu, en stjórnarformaður Ríkisútvarpsins ohf. ekki heldur og vísar aftur á útvarpsstjóra.

Logi Einarsson menningarmálaráðherra var spurður hvort það væru líðandi vinnubrögð hjá opinberu fyrirtæki að enginn væri til fyrirsvars um jafnalvarlegar ásakanir.

„Ég mun ekki blanda mér inn í þetta með beinum hætti. Ég hef ekki boðvald yfir því.“

En kallar það ekki á athugun þegar lögregla telur víst að saknæmt athæfi hafi átt sér stað innan Rúv.?

„Þú kemst auðvitað að kjarna málsins, þetta var lögreglumál sem var svo látið niður falla á endanum. Ég eða aðrir ráðherrar höfum ekki afskipti af málum í farvegi réttarkerfisins.“

Á brotaþolinn í málinu, sem lá um hríð milli heims og helju, ekki að fá nokkra úrlausn sinna mála?

„Ég ætla ekki að gera lítið úr alvarleika þess og ekki heldur alvarleika málsins í sjálfu sér. En það er ekki á minni könnu að upplýsa það.“

Þarf þá ekki a.m.k. að brýna fyrir útvarpsstjóra að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi að vinna fyrir Rúv. en ekki aðra miðla, eins og þarna gerðist?

„Ég ætla ekki að tjá mig efnislega um það, ég ætla bara að segja það að ég mun reyna að halda mér innan þeirra valdmarka sem ég hef þegar kemur að afskiptum af Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum. En ég mun auðvitað fara yfir þetta mál. Það er alveg eðlilegt.“

Kann það að kalla á einhvers konar athugun á vinnubrögðum og umgjörð Ríkisútvarpsins?

„Ég ætla bara ekkert að tjá mig um það á hvað sú yfirferð kallar eða ekki.“

Höf.: Andrés Magnússon