Björn Björnsson fæddist í Reykjavík 2. janúar 1945. Hann lést á Vífilsstöðum 31. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Valgerður Bjarnadóttir, fædd 2. júlí 1922, dáin 6. janúar 2001, og Björn Bjarnason, fæddur 7. september 1918, dáinn 4. ágúst 2006.
Systkini Björns eru Stefán Björgvin, fæddur 25. júní 1946, Bjarni Gunnar, fæddur 4. júlí 1949, Óskar, fæddur 18. október 1955, dáinn 2. apríl 1982, og Hólmfríður Steinunn, fædd 10. júlí 1958, dáin 10. júlí 2022.
Eiginkona Björns er Guðrún Þóra Sigurðardóttir, fædd 1960. Sonur hennar er Emil Þór Hannesson og kona hans er Kendra Hannesson, börn þeirra eru Sadie Ann og Hugo Michael.
Fyrri kona Björns er Ása Kristín Jóhannsdóttir, f. 7. september 1947. Dóttir þeirra er Áslaug Birna, fædd 13. júlí 1980. Eiginmaður hennar er Árni Freyr Sigurðsson og börn þeirra fimm: Brynja Dögg, Embla Ýr, Ísar Breki, Marta Kristín og Árni Hrafn.
Björn var rafverktaki og starfaði fyrir fjölda fyrirtækja og mikið fyrir hina ýmsu bakara um allt land og síðustu ár mest fyrir Bakarmeistarann. Á sínum yngri árum starfaði hann líka hjá Sigöldu.
Björn var mikill söngmaður og lærði hjá Sigurði Demetz, auk þess sem hann fór í nám til Þýskalands og söng einsöng hjá Karlakór Reykjavíkur, Frímúrarakórnum og Óperukór Hafnarfjarðar. Hann kom að stofnun Raddbandafélagsins og fór i fjölda ferða til útlanda eins og Ísraels, Kanada og Búlgaríu. Björn hafði mjög mikinn áhuga á heilsu og einstakan áhuga á blóðflokkafræði.
Björn veiktist af Lewy Body-sjúkdómnum.
Útför hans fer fram frá Langholtskirkju í dag, 20. febrúar 2025, klukkan 15.
Kæri vinur og félagi hefur nú gengið af sviði lífsins. Björn Björnsson eða Bjössi rafvirki eins og við kölluðum hann flest. Bjössi var mikill grallari og lífsgleði og kraftur voru hans helstu einkenni og aðalsmerki. Hann var rafvirki okkar í Mjólku og bar aldrei skugga á það samstarf.
Við Bjössi kynntumst hjá Sigurði Demetz söngkennara, ég var þá að hefja söngnám hjá Demetz en Bjössi var þar heimagangur og einn af hirðinni hans Demma.
Bjössi var tignarlegur og bar sig alltaf vel og var í raun höfðinglegur í fasi og líkastur konungi enda fór vel á því að hann söng gjarnan Sverri konung en hann hafði mjög fallega barítónrödd og var einsöngvari m.a. með Karlakór Reykjavíkur og Karlakór Kjalnesinga. Söng Hrausta menn svo eftir var tekið.
Við Bjössi sungum saman í mörg ár. Í einni kórferðinni sem var til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga var hann einsöngvari með Karlakór Kjalnesinga þar sem hann hreif alla með söng sínum. Þar söng Bjössi m.a. Nú andar suðrið sæla vindum þýðum. Á einni slíkri skemmtun á elliheimilinu í Lundi var farið að gera að gamni sínu og fólk fór að bjóða í Bjössa vegna þess að það hreifst mjög af söng hans og þá varð til þessi vísa í hópnum:
Af ýmsu góssi græða má
og gróðann síðan spara.
Björn er eins og allir sjá,
afbragðs söluvara.
(Eiríkur Grímsson)
Við vildum alls ekki missa Bjössa fyrir stórtónleika daginn eftir því hann hafði slegið í gegn á öllum tónleikum og uppákomum.
Á ferðum okkur um byggðir Vestur-Íslendinga var okkur sagt frá því að indjánarnir hefðu reynst Íslendingum einstaklega vel er þeir komu til Kanada og í raun hjálpað þeim að komast af í nýjum heimkynnum. Þegar við vorum á leið heim úr velheppnaðri veislu í Geysihall upp á hótel sjáum við hvar indjánar sitja við litla tjörn í skógarrjóðri og eru að borða nestið sitt. Bjössi stendur þá upp í rútunni og segir við verðum að fara út og syngja fyrir indjánana og þakka þeim velvild þeirra gagnvart löndum okkar. Rútan stöðvaðist og út þusti allur kórinn og röðuðum við okkur umhverfis indjánana og hófum að syngja hástöfum íslensk ættjarðarlög hvert af öðru. Ljóst var að indjánunum var nokkuð brugðið og skildu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. En seinna koma ljós að þetta voru ekki indjánar heldur ferðamenn frá Asíu á ferð í Kanada.
Vart hafa jafnað sig indjánar enn
sem eina sig töldu með kjötið sitt magurt
er þustu úr rútu þrjátíu menn
og þrumuðu yfir þeim; Kvöldið er fagurt.
(Guðmundur Guðlaugsson)
Heldur hallaði undan fæti hjá vini okkar síðustu ár er sjúkdómur dró hann inn á lendur óminnis. En það var ánægjulegt að við gátum komið saman og hitt Bjössa á 80. afmælinu sem þá var eldhress og skýr.
Elsku Bjössi minn, við þökkum þér vináttuna, samstarfið, sönginn og gleðina. Guð geymi þig kæri vinur. Elsku Gunna, Áslaug og fjölskylda Björns, við vinir hans, Gugga, Kristján Jóhannsson og makar og fjölskyldur, sendum ykkur okkar innilegstu samúðarkveðjur og þakklæti fyrir alla hjálpsemina.
Sjáumst í söng og gleði kæri vinur.
Ólafur M. Magnússon frá Eyjum II, Kjósarhreppi, Guðbjörg Sigurjónsdóttir og Kristján Jóhannsson.
Það er með miklum söknuði og eftirsjá að við kveðjum kæran vin og söngbróður, Björn Björnsson, hinstu kveðju. Í áratugi var hann snar þáttur í tónlistarstarfi frímúrarastúkunnar Glitnis, auk þess að syngja um árabil með frímúrarakórnum. Hann var örlátur á sjálfan sig og ætíð reiðubúinn að leggja lið þegar til hans var leitað um söng, sem var sannarlega ósjaldan, svo vægt sé til orða tekið.
Björn hafði djúpa, hljómmikla og tæra bassarödd og flutti vel. Hann dró hann hvergi af sér þegar á þurfti að halda en fór jafnan vel með og söng af tilfinningu þegar hann söng einsöng. Ef lögin enduðu á „fortissimo grand finale“, lauk hann söngnum þannig að undir tók í salnum og það var eins og röddin hljómaði áfram eftir að hann hafði sungið síðustu tónana.
Hin síðari ár, fór sönghópur meðal okkar bræðra í stúkunni að gera sig gildandi. Í því starfi var hann ómissandi og traustur hlekkur í keðjunni. Alltaf mættur til æfinga og flutnings svo lengi sem heilsan leyfði. Hann var djúpi og trausti grunnurinn í söngnum og gaf okkur sérstakan hljóm og fyllingu sem þurfti til þess að fullkomna flutninginn.
Í öllum samskiptum var Björn þéttur í lund og það gustaði af honum ef svo bar undir þegar hann beitti röddinni í samtölum. Þá lögðu allir ósjálfrátt við hlustir. En umfram voru heilindi og traust það sem hann bar með sér, og hann kom ætíð til dyranna eins og hann var klæddur. Við minnumst ómetanlegra samverustunda og samstarfs sem einkenndist alla tíð að sterkri vináttu og bræðralagi.
Nú hefur Björn sungið sína síðustu tóna í þessum heimi, en minningin lifir og röddin hljómar áfram í huga okkar söngbræðra. Við kveðjum hann fullir þakklætis og hlýju og sendum ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd söngbræðra í Glitni.
Bjarni Sæbjörn Jónsson.
Við mót Þingvallavegar og Suðurlandsvegar stóð lögbýlið Geitháls í Mosfellssveit. Um skeið bjuggu þar um miðja öldina sem leið sæmdarhjónin Valgerður Björgvinsdóttir frá Garði í Mývatnssveit og Björn Bjarnason frá Mýrum í Vestur-Húnavatnssýslu. Var Valgerður í móðurætt komin af Bjarna landlækni Pálssyni. Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Þorgrímsdóttir og Björgvin Helgi Árnason, bændur í Garði í Mývatnssveit. Björn var sonur Bjarna Gunnlaugssonar Björnssonar, bónda á Mýrum, og konu hans Áslaugar Ásmundsdóttir.
Hjónin á Geithálsi voru dugnaðarfólk, gestrisin og barngóð.
Svo sem einn kilómetra ögn norðanhallt við háaustur frá Geithálsi var sumarbústaður Gunnars Ólafssonar, sem bifreiðarstjóri var næturlækna í Reykjavík um hálfrar aldar skeið, og eiginkonu hans, Ragnheiðar Bogadóttur frá Búðardal. Dóttursonur þeirra kynntist Birni, syni hjónanna á Geithálsi, og fóru þeir lagsbræður í margan rannsóknarleiðangur um nágrennið, iðkuðu gönguferðir um lyng og steina, æfðu sig að hlaupa yfir vatnspolla í klöpp, skyggndust forvitnir um gáttir í því sem eftir var af byggingum Breta frá hernáminu og brá í brún, þegar ljónstyggar sauðkindur stukku þar út úr fornu rökkri um gisnar hurðir, reikuðu sér til skemmtunar um heiðar og berjabrekkur, fundu lóuhreiður í móum og melum, hlýddu hugfangnir á söngva Hólmsár, trömpuðu harkalega fremst á bökkum hennar og horfðu á silfurgljáða silunga skjótast úr felum út í sólglitað vatnið.
Að frumkvæði Önnu Áslaugar Ragnarsdóttir, píanóleikara, kynntust Íslendingar þýsku óperusöngkonunni Hanne-Lore Kuhse árið 1982. Frú Kuhse, sem sæmd var heiðurstitlinum Kammersängerin, hafði þá um skeið verið gestaprófessor við Franz-Liszt-tónlistarháskólann í Weimar. Frúin þótti afburðasnjall kennari. Hófu íslenskir söngvarar nú að sækja sumarnámskeið í Weimar, þeirra á meðal Björn Björnsson, sem frá náttúrunnar hendi var gæddur viðbrigðafagurri barýtón-rödd. Frú Kuhse kom tvisvar sinnum til Íslands, árin 1988 og 1990, og hélt söngnámskeið í Reykjavík og á Núpi í Dýrafirði. Í bæði þessi skipti var Björn Björnsson meðal nemenda hennar og lauk kennarinn lofsorði á söng hans. Eftirminnilegur er flutningur Björns á lagi Sveinbjörns Sveinbjörnssonar „Sverrir konungur“ við ljóð Gríms Thomsen.
Bjössi söngvari, eins og við kölluðum hann löngum, var rafverktaki að atvinnu og flinkur mjög á því sérsviði sínu.
Fyrst svo var nú komið heilsu hans, sem raun ber vitni, viljum við þakka, í Jesú nafni, að hvíldin er komin, hvíldin heila og holla frá allri þraut, um leið og við felum góðum Guði þakkarefnin hans hjartagrónu, fyrir það sem lífið færði og lífið krafði. Gjafaranum alls góðs felum við svo þakklæti til nánustu ástvina hans fyrir allt það góða, sem þau reyndust honum. Megi gagnkvæmar þakkir ykkar fyrir það sem Guð gaf ykkur að njóta saman bera yfir skugga tregans og sveipast birtu þeirra fyrirheita, sem við eigum öll saman í helgu vori, þar sem allt er nú orðið nýtt, og þar sem þú, kæri og ógleymanlegi vinur, ert að eilífu heill og sæll og blessaður í nafni Jesú Krists, sem fyrir þig er dáinn og fyrir þig er upprisinn og geymir þig og gleður að eilífu.
Gunnar Björnsson
pastor emeritus.