Skíðasvæði Hér er skíðað niður brekkurnar á Dalvík við kjöraðstæður.
Skíðasvæði Hér er skíðað niður brekkurnar á Dalvík við kjöraðstæður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snjólétt er á landinu um þessar mundir og víða þykir það heldur óvenjulegt á þessum árstíma eins og nærri má geta. Í gær var til að mynda 8 stiga hiti á Akureyri þar sem eitt vinsælasta skíðasvæði landsins er að finna

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Snjólétt er á landinu um þessar mundir og víða þykir það heldur óvenjulegt á þessum árstíma eins og nærri má geta. Í gær var til að mynda 8 stiga hiti á Akureyri þar sem eitt vinsælasta skíðasvæði landsins er að finna. Morgunblaðið hafði samband við Halldór Óla Kjartansson hjá Markaðsstofu Norðurlands og spurði hvort snjóleysi hefði áhrif á ferðamannaiðnaðinn á svæðinu.

„Líklega finna ferðaþjónustuaðilar fyrir þessu að einhverju leyti og auðvitað viljum við meiri snjó og þá sérstaklega til fjalla. Flestir þeirra gesta sem koma erlendis frá hafa bókað ferðina með löngum fyrirvara og finna leiðir til þess að gera ferðina sem eftirminnilegasta. Þótt nú sé óvenju snjólétt miðað við árstíma þá er engu að síður skíðafæri í Hlíðarfjalli. Fjöldi þeirra sem geta farið á skíði á sama tíma hefur hins vegar verið takmarkaður. Sem stendur geta þúsund manns farið í einu sem er þó ágætur fjöldi. Auk þess eru fleiri skíðasvæði í boði og til að mynda er vinsælt að fara á skíði á Dalvík,“ segir Halldór Óli Kjartansson hjá Markaðsstofu Norðurlands og segir ekki óvanalegt að hliðra til fyrir erlendum gestum hér á ævintýraeyjunni þar sem allra veðra er von.

Mikilvægi millilandaflugsins

„Við vinnum með það eins og allt annað. Hluti af ævintýrinu að koma til Íslands er að sníða sér stakk eftir vexti. Þau sem bjóða dagsferðir vinna við að bjóða upp á ógleymanlega upplifun og stundum er það ekki akkúrat á þeim stað sem fyrirhugað var. Stundum þarf einfaldlega að færa ferðir örlítið til. Snjósleðaferðir eru ekki á nákvæmlega sömu stöðum og þær voru í fyrra en falla ekki niður. Við sjáum ekki öll form skíðaiðkunar á meðan það er snjólétt. Nú styttist í tímabilið þar sem fjallaskíði aukast og þá gæti vel verið að það verði kominn nægur snjór.“

Gestir sem norðanmenn taka á móti eru blanda af Íslendingum og erlendum ferðamönnum.

„Skólafríin eru gjarnan stór tímapunktur varðandi íslenska gesti, sérstaklega á Akureyri. Þá nýtir fólk tímann til að ferðast innanlands og við sjáum þá gjarnan fólk sem hefur reglulega komið norður til að fara á skíði. Erlendir ferðamenn eru líkast til í fjölbreyttari afþreyingu á veturna. Þeir fara einnig í snjósleðaferðir, hundasleðaferðir og snjóþrúgugöngur sem dæmi. Erlendir gestir ferðast lengra og fara í ríkum mæli um Mývatn,“ segir Halldór en fleiri gestir sækja Norðurland heim á veturna en áður.

„Það er klárlega að aukast. Í fyrra sáum við smá sveiflu á íslenska markaðnum yfir vetrartímann en fleiri erlendir ferðamenn gistu þá á hótelum hjá okkur. Þeir eru enn fleiri núna. Millilandaflugið til og frá Akureyrarflugvelli skilur mikið eftir sig. Hér er bæði leiguflug og áætlunarflug með Easy Jet í boði. Þeir sem koma með áætlunarfluginu frá Englandi stoppa styttra við en fylla skemmtilega upp í bæjarlífið á Akureyri. Þeir sem koma með leigufluginu stoppa hins vegar í töluverðan tíma og fara víða um Norðurlandið.“

Höf.: Kristján Jónsson