Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Verkefnastjóra hjá skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg hefur verið falið að skoða og meta ástand á tröppum norðan Seljaskóla í Efra-Breiðholti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu fyrst tillögu í borgarráði fyrir tæpum átta árum, eða í júlí 2017, um að ráðist yrði í viðgerð á tröppunum en án árangurs.
„Er með ólíkindum hvað langan tíma virðist ætla að taka að ganga í þetta einfalda og sjálfsagða viðhaldsmál,“ bókuðu fulltrúar flokksins, þau Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 29. janúar sl.
Á þeim fundi var lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á tröppum við Seljaskóla sem þeir lögðu áður fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 11. október 2023.
Hættulegar tröppur
Tillagan er svohljóðandi:
„Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir og endurbætur á steinsteyptum tröppum við norðanverðan Seljaskóla. Umræddar tröppur eru fyrir neðan Hnjúkasel og Kambasel og er hluti þeirra svo illa farinn að hætta stafar af, ekki síst þegar hálka myndast í þeim að vetrinum vegna frosts og snjóa. Jafnframt er lagt til að snjóbræðslukerfi verði sett í umræddar tröppur eða a.m.k. hluta þeirra.“
Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. Svar barst frá skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dagett 4. mars 2024.
Umsögnin var svohljóðandi:
„Á umræddu svæði eru þrír inngangar með steinsteyptum tröppum við hvern þeirra. Auk þess eru steinsteyptar tröppur í borgarlandinu. Tillögu um viðgerðir og endurbætur á þessu svæði hefur verið komið áfram til verkefnastjóra sem mun skoða, meta ástand og gera ráðstafanir til að tryggja öryggi svæðisins.
Varðandi snjóbræðslu þá er ávallt reynt að koma því fyrir þegar hægt er þegar skólalóðir eru endurgerðar. Ekki er farið í að setja snjóbræðslu þegar um almennt viðhald er um að ræða nema sérstaklega sé þess óskað af skóla- og frístundasviði þar sem skoða þarf þær ákvarðanir í samhengi við endurgerðaráætlun skólalóða.“
Svo virðist sem fyrirspyrjendum hafi ekki verið kynnt umsögnin fyrr á fundinum í janúarlok 2025. Enda bókuðu sjálfstæðismenn:
„Rúma fimmtán mánuði hefur því tekið að fá umsögn um tillöguna! Í umsögninni kemur þó hvorki fram skýr afstaða til þess hvort þörf sé á því að gera við tröppurnar né hvenær unnt verði að ráðast í verkið. Ljóst er að þessi sjálfsagða framkvæmd verður hvorki dýr né tímafrek og hvetja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess að gengið verði í hana sem fyrst.“
Þar sem tillagan er endurflutt var henni á ný vísað til meðferðar skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
En þetta eru ekki einu tröppurnar sem sjálfstæðismenn bera fyrir brjósti.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar var lögð fram að nýju tillaga þeirra um að ráðist verði í viðgerð og endurbætur á steinsteyptum tröppum, sem liggja frá gönguleið milli Fríkirkjuvegar 1 og Mæðragarðsins, upp á Laufásveg. Umræddar tröppur séu brattar og til að draga úr slysahættu af völdum hálku er jafnframt lagt til að snjóbræðslukerfi verði sett í tröppurnar.
Á fundinum var lögð fram umsögn skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
Þar segir að endurgerð og viðgerðir séu metnar út frá fjármagni til viðhalds á hverju ári, metið með tilliti til umferðar og slysa/tilkynninga ásamt fleiri þáttum, fyrir forgangsröðun. Varðandi snjóbræðslu er þörf á henni metin út frá ýmsum þáttum eins og aðgengi að bakvatni, bratta, aðgengi og fleira. Forgangsraðað er eftir mikilvægi þeirra þátta sem metnir eru.
Framkvæmdin sem tillagan nær til verði metin m.t.t. ofangreinds og forgangsraðað í samræmi við það.