Áætlað er að hagræðing innan Stjórnarráðsins vegna niðurlagningar menningar- og viðskiptaráðuneytisins nemi rúmum 362 milljónum kr. Hagræðingin mun að miklu leyti koma fram á yfirstandandi ári. Þetta kemur fram í minnisblaði sem forsætisráðuneytið sendi til Alþingis.
„Að svo stöddu er miðað við um 350 [milljónir kr.] til að hafa ákveðið svigrúm vegna óvissu sem getur komið upp þegar ráðuneytið verður endanlega gert upp,“ segir í minnisblaðinu. Fram kemur að samtals eru 11,8 stöðugildi undir í hagræðingu hjá Stjórnarráðinu með því að að leggja ráðuneytið niður. Þar af verða 7,8 stöðugildi lögð niður hjá menningar- og viðskiptaráðuneyti af skrifstofu ráðuneytisstjóra, í stoðþjónustu ráðuneytisins, auk ráðherra og tveggja aðstoðarmanna. Einnig á sér stað hagræðing vegna fækkunar ráðherrabílstjóra hjá Umbru sem annast rekstur akstursþjónustu ráðuneyta og tölvukerfa.
Þegar ráðuneytið verður lagt niður fara viðskipti, neytendamál og ferðamál yfir til atvinnuvegaráðuneytisins. Rúmar 312 milljónir og 16 stöðugildi færast til atvinnuvegaráðuneytisins. Fjölmiðlar, safnamál, listir og menning og íslenska færast til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og rúmar 222 milljónir og 11,2 stöðugildi færast til þess frá ráðuneytinu sem leggja á niður.
Af stöðugildum sem á að leggja niður í menningar- og viðskiptaráðuneyti munu sjö starfsmenn fá ráðningu annars staðar í Stjórnarráðinu vegna lausra starfa. Nemur áætluð hagræðing vegna niðurlagningar ráðuneytisins á ársgrundvelli um 240 milljónum og hjá forsætisráðuneytinu um 107 milljónum vegna fækkunar ráðherra og tveggja aðstoðarmanna. Hjá Umbru verður um 15 milljóna hagræðing vegna akstursþjónustu. omfr@mbl.is