Laxabakki Endurreist bygging í gömlum stíl sem er á bökkum Sogsins.
Laxabakki Endurreist bygging í gömlum stíl sem er á bökkum Sogsins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Vænst er að í sumar ljúki endurbyggingu á Laxabakka; húsi sem er bræðingur af torfbæ og timburhúsi og stendur á Öndverðarnesi í Grímsnesi, skammt fyrir neðan brúna yfir Sog. Þetta er nákvæm endurbygging á byggingu sem þarna var reist árið 1942 af Ósvaldi Knudsen, kvikmyndagerðarmanni og málara

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vænst er að í sumar ljúki endurbyggingu á Laxabakka; húsi sem er bræðingur af torfbæ og timburhúsi og stendur á Öndverðarnesi í Grímsnesi, skammt fyrir neðan brúna yfir Sog. Þetta er nákvæm endurbygging á byggingu sem þarna var reist árið 1942 af Ósvaldi Knudsen, kvikmyndagerðarmanni og málara. Sú stóð fram á síðustu ár. Var þá komin í niðurníðslu og var rifin. Í kjölfarið hófst endurreisn sem að standa myndlistarfólkið Hannes Lárusson og Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir.

Verkefnið á Laxabakka er í samhljómi við að Hannes starfrækir í Austur-Meðalholtum í Flóa, skammt frá Selfossi, sögusetrið og safnið Íslenski bærinn, þar sem fornri íslenskri byggingarhefð eru gerð skil. Þar er varðveittur eini torfbærinn í Árnessýslu, sem nú liggur fyrir að friðlýsa. Raunar er Meðalholtabærinn um margt líkur Laxabakka; og má segja að áratuga reynsla Hannesar af uppbyggingu og varðveislu bæjarins í Meðalholtum sé nauðsynleg við endurreisn Laxabakka.

„Laxabakki blasti við á fjölförnum slóðum og því þekktu margir til hússins. Mjög var haldið til haga að finnski arkitektinn Alvar Aalto, sem teiknaði Norræna húsið í Reykjavík, sagði þetta fegursta hús á Íslandi,“ segir Hannes. Bætir við að mörgum hafi runnið til rifja að sjá hvernig komið var fyrir húsinu þar sem ýmsir straumar í byggingarlist; bæði í ytra byrði og innan dyra, hafi sameinast. Í raun vegi Laxabakki salt á milli aldagamallar hefðar og framsækinnar nútímabyggingarlistar. Öllu þessu er haldið til haga í endurbyggingunni. Þá sé gætt fyllstu nákvæmi í aðgerðum í hinu endurfædda 55 m2 húsi sem stendur á nákvæmlega stað og hið fyrra.

Varðveita sál og anda

Minjastofnun og Húsafriðunarsjóður hafa verið bakhjarlar við uppbyggingu Laxabakka, en stærstur hluti framkvæmda hefur þó verið drifinn áfram af eigin fé og vinnu Hannesar og Bryndísar. Sjálfur segist Hannes í þessu verkefni hafa þurft að taka verkin eftir efnum og aðstæðum. Framgangur hafi þó haldist býsna vel, samanber að verklok séu í nánd. Aðeins sé nú eftir að klára að tyrfa þak, ganga frá hleðslum, setja í nýsmíðaðar útihurðir og ljúka við uppsetningu, baðstofu og annarra sérhannaðra innréttinga. Í rauninni sé stór hluti af þessari vinnu ekki síður forvarsla en smíðavinna, nákvæmnisverk sem miðist við að varðveita sál og anda einstaks húss.

„Við erum komin yfir erfiðustu hjallana,“ segir Hannes Lárusson. Um framtíð á staðnum segir hann að uppi séu hugmyndir um að á Laxabakka verði menningarsetur um íslenska byggingarlist – þar sem náttúru- og menningarvernd, ásamt skapandi hugsun og vistmenningu, verði í öndvegi. Í því samhengi sé jafnframt viðeigandi að undirstrika einstakt framlag Ósvalds Knudsen til íslenskrar menningar.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson