Sérstök umræða á Alþingi staðfestir efnahagslega sóun strandveiða

Sérstök umræða var um strandveiðar og tekjur hins opinbera af sjávarútvegi á Alþingi í fyrradag. Málshefjandi var Vilhjálmur Árnason sem benti á að verðmætin sem Ísland flytti út og væru grunnur að því velferðarsamfélagi sem við búum við væru sótt í náttúruauðlindir okkar. Þá vísaði hann til þess að við værum „með eina sjávarútvegskerfi heims sem er ekki háð ríkisframlögum og horfa fjölmargar þjóðir til okkar sem fyrirmyndar“.

Þar var hann vitaskuld að vísa til aflamarkskerfisins, sem byggist á varanlegum og framseljanlegum aflaheimildum og hefur reynst afar hagkvæmt og átt stóran þátt í vaxandi efnahagslegri velmegun þjóðarinnar á liðnum áratugum. Þá nefndi hann að langstærstur hluti aflaheimildanna væri á landsbyggðinni og skapaði þar mikinn fjölda starfa og verðmæti. Enn fremur væri mikil fjárfesting í nýsköpun tengd sjávarútvegi og vinnslutæki væru framleidd hér og flutt út um allan heim.

Allt er þetta ákaflega þýðingarmikið og óhætt er að taka undir með málshefjanda að fyrir Íslendinga er mjög mikilvægt að fara vel með auðlindir sínar og nýta þær rétt. Sömuleiðis má taka undir áhyggjur af því að frá því að strandveiðikerfið var tekið upp árið 2009 hefur aflinn í því kerfi fjórfaldast og stefnir nú í að aukast enn frekar ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika. Fram hefur komið að talið er líklegt að hann tvöfaldist í það minnsta.

Þeir eru til sem halda því fram að þessi afli sé ekki tekinn frá neinum, en það er auðvitað fjarstæða. Eftir því sem meira er veitt í strandveiðikerfinu, þeim mun minna er veitt í aflamarkskerfinu. Þetta blasir við og ætti vart að þurf að ræða, þó að sumir haldi öðru fram í þágu sérhagsmuna sinna.

Væri strandveiðikerfið jafn hagkvæmt og annað kerfi mætti út af fyrir sig halda því fram að þetta kæmi ekki að sök, en svo er alls ekki. Staðreyndin er sú að strandveiðikerfið er „efnahagsleg sóun“, eins og lesa má í vísindagrein sem Daði Már Kristófersson núverandi fjármálaráðherra skrifaði fyrir fáum árum.

Daði Már tók þátt í umræðunni á þingi, sem var gagnlegt, en málflutningur hans gekk út á að verja stefnu stjórnvalda um auknar strandveiðar á „félagslegum“ forsendum þrátt fyrir að annað fyrirkomulag við veiðar sé hagkvæmara, það er að segja aflamarkskerfið, eða kvótakerfið eins og það er yfirleitt kallað í daglegu tali.

Samfylking og Viðreisn létu undan Flokki fólksins um að stórauka strandveiðar þrátt fyrir að flokkunum sé ljóst, í það minnsta Viðreisn, að með því er verðmætum sóað. Á sama tíma og veikja á sjávarútveginn með þessari aðgerð ætla þessir flokkar að auka álögur á greinina. Hvernig stendur á því að þeim er svona illa við þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar?