Sigurður Ingi Guðmundsson fæddist í Reykjavík 28. júní 1957. Hann lést á líknardeild Landspítalans 4. febrúar 2025 eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Þorsteinsson, f. 28. júlí 1930, og Inga Hulda Eggertsdóttir, f. 16. október 1934. Bæði létust árið 2020. Eftirlifandi systkin Sigurðar eru Eggert, f. 1953, Þorsteinn, f. 1955, Guðmundur Lárus, f. 1960, og Erla, f. 1962, eiginmaður hennar og einn besti vinur Sigurðar er Jón Guðmundsson. Systir samfeðra er Guðrún Magnea, f. 1972.

Hinn 3. desember 1977 kvæntist hann Elínu Eddu Benediktsdóttur. Þeirra börn eru: 1) Guðmundur Steinn, f. 1982, eiginkona hans er Inga Dís Pálmadóttir og börn þeirra eru Bjarki Hrafn, f. 2012, og Hildur Arna, f. 2016. 2) Fjóla Huld, eiginmaður hennar er Hjálmar Guðmundsson og dætur þeirra eru Kristín Edda, f. 2017, Freyja Rún, f. 2019, og Emilía Eir, f. 2023. Sigurður og Edda skildu.

Sigurður ólst upp í Ásgarði í Reykjavík og gekk í Réttarholtsskóla. Bústaðahverfið var að byggjast upp og þar voru mörg börn, því voru nægir leikfélagar og mikið um að vera og góðar minningar. Sérstaklega talaði hann um Elliðaárdalinn sem skemmtilegt leiksvæði. Ungur var hann sendur í sveit á sumrin og var eftirsóttur vinnumaður. Hann stundaði smíðanám í Iðnskólanum í tvö ár, en lét það gott heita á þeim vettvangi. 16 ára fór hann í sumarvinnu í Námaskarð og vann þar með föður sínum á vegum Orkustofnunar við borholur í Kröflu. 17 ára fluttist hann úr foreldrahúsum og fór að vinna fyrir sér, fyrst réð hann sig í símavinnu á Húsavík þar sem hann klifraði upp í staura og lagaði línur, síðar á vertíð í Grindavík svo eitthvað sé nefnt. Fyrri eiginkonu sinni kynntist hann í Grindavík. Sölumennska varð að lokum hans ævistarf og starfaði hann í nokkrum fyrirtækjum á því sviði, síðustu 15 starfsárin hjá Dynjanda í Skeifunni. Áhugamál hans tengdust mikið ferðalögum og útivist. Á sumrin fór hann með börnin sín í tjaldútilegur um landið, stundaði skotveiði og stangveiði. Á veturna stundaði hann skíði.

Hinn 13. janúar 2017 kvæntist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni Herborgu Þorgeirsdóttur, f. 1954. Börn hennar eru Birgir og Linda Ösp, barnabörn Adrían Snær, Freyja og Brynja. Saman deildu þau áhuga á ferðalögum og útivist og ferðuðust víða, til Taílands, Púertó Ríkó og nokkrum sinnum til Bandaríkjanna, auk margra Evrópulanda. Á sumrin fóru þau um landið þvert og endilangt með tjald, tjaldvagn og síðustu árin með hjólhýsi.

Útför Sigurðar mun fara fram í kyrrþey að viðstöddum nánustu aðstandendum og vinum.

Elsku vinur og stóra ástin mín. Ekki datt mér í hug þegar við giftum okkur að það yrði ég sem sæti eftir og skipulegði útför þína aðeins átta árum síðar. Á þeim tíma voru meiri líkur á að ég ætti ekki langt eftir þannig að við vildum njóta lífsins á meðan heilsan leyfði og mikið er ég þakklát fyrir hvert ár með þér. Þó að rúmlega 13 árin okkar saman séu ekki langur tími á lífsleiðinni, finnst mér þegar ég lít til baka að við höfum verið mjög lengi saman því við fórum svo víða, sérstaklega eftir að þú hættir að vinna fyrir tæpum þremur árum.

Það eru ekki margir staðir hér á landi sem við höfum ekki haft viðkomu á. Að skreppa á Vatnsnesið til systur þinnar, á Raufarhöfn til systur minnar, á Neskaupstað eða Vopnafjörð til að heimsækja son minn eða skjótast í fermingarveislu á Þórshöfn – ekkert mál. Við tókum gjarnan hringinn í leiðinni eða bara eltum veðrið. Einn uppáhaldsstaðurinn okkar var Básar og þangað fórum við í margar tjaldútilegur og skálagistingar.

Þú varst einstakur ferðafélagi, góður bílstjóri og um leið og hringtorg höfuðborgarsvæðisins voru að baki róaðist þú niður og ókst á löglegum hraða. Síðustu tvö sumur fórum við um með litla hjólhýsið okkar. Hvergi leið okkur betur og þetta átti að verða athvarf okkar á efri árum.

Utanlandsferðirnar voru margar og við vorum farin að ræða það að hafa vetursetu á Spáni. Síðasta ferðin okkar var til Spánar í haust. Þar fórum við í níu daga rútuferð um norðanverðan Spán, sem var stórkostleg upplifun, og dvöldum í Torrevieja hjá systur þinni og mági, en síðustu fimm vikurnar dvöldum við í fallegu Calpe. Þar vorum við í íbúð miðsvæðis og komin í gott samband við eigandann sem var fús til að leigja okkur hvenær sem okkur hentaði. Þessar vikur eru einstakar í minningunni, við nutum samvista með góðum vinum eða bara tvö ein. Síðustu vikuna var þó svo mjög af þér dregið að við áttuðum okkur á að eitthvað alvarlegt væri að. En að þremur mánuðum síðar værir þú allur hefði ég ekki getað ímyndað mér.

Þú varst mikið fyrir að njóta lífsins, varst alltaf að flýta þér og lifðir hratt, en þegar þú gerðir þér ljóst að komið var að dómsdegi fannst þér óþarfi að draga það á langinn. Þökk fyrir samfylgdina, ástin mín.

Þín

Herborg.

Elsku fallegi pabbi minn.

Það er svo sárt að kveðja. Aðdragandinn var stuttur og sár. Ég fékk ekki að kyssa þig bless. Síðustu skiptin sem ég sá þig varst þú í sóttkví og ég mátti ekki snerta þig. Á lokadögum þeirrar innlagnar varstu þó laus úr sóttkví og sagðir þú þá við mig: „Þú mátt snerta mig núna.“ Ég knúsaði þig. Ég vissi ekki að það væri síðasta faðmlagið okkar.

Það fór þó nokkuð vel um þig í þeirri innlögn. Heimsmeistaramótið í handbolta var í fullum gangi og vissir þú fátt skemmtilegra en að fylgjast með íslenska landsliðinu spila handbolta. Við eigum margar góðar minningar þar sem við fylgdumst með handboltanum saman. Minnisstætt er þegar þú bjóst í Blásölum og handboltalandsliðið var að spila á stórmóti. Við áttum þar góðar kvöldstundir þar sem við elduðum saman og horfðum spennt á handboltann. Það mátti þó ekki nota bakaraofninn þar sem þú nenntir ekki að þrífa hann. Folaldakjötið var því grillað á efstu hæð í Blásölum. Þú vissir ekkert betra en folaldakjöt eða hrossakjöt. Helst af öllu hefðir þú þó viljað hrossabjúgu. Þessum góðu stundum deildum við saman með Gumma bróður.

Við fráfall þitt, elsku pabbi, hef ég rifjað upp margar gamlar minningar og skoðað myndaalbúm en þú varst alltaf svo duglegur að taka myndir sem ég er svo þakklát fyrir. Án þessara ljósmynda væru minningarnar ekki svona skýrar og eftirminnilegar. Þú varst allaf mikill bókaormur og fórst oft með okkur Gumma á bókasafnið. Reglulega fórum við líka á vídeóleiguna og leigðum spólu. Bíltúrar niður á höfn eru líka ofarlega í huga mér. Stundum fórum við um borð í skip og skoðuðum. Eftirminnilegastar eru þó allar útilegurnar með stóra hústjaldið. Við ferðuðumst landshornanna á milli og skoðuðum landið okkar. Þú varst alltaf stoltur Íslendingur og hafðir margt að sýna okkur Gumma. Í einni af útilegum okkar sigldum við út í Hrísey. Þar keyptum við ís og missti ég fyrstu tönnina mína ofan í ísinn. Ég man þetta svo vel. Ég man líka þegar ég hruflaði mig á lærinu eftir að ég rann úr tré í Hallormsstaðaskógi. Ég man þegar ég renndi mér á rassaþotu og lenti inni í trjárunna. Ég man þegar ég flaug af hjólinu mínu í einni af hjólaferðum okkar. Allt með þér, elsku pabbi minn.

Þú varst léttur, ljúfur og kátur. Þú hafðir gaman af lífinu og tókst því með hæfilegu kæruleysi. Alltaf með húmorinn að vopni. Í eitt skipti þegar þú lást inni á bráðamóttökunni í Fossvogi nú í veikindum þínum þá birtist ég óvænt. Þú sagðir: „Ef ég hefði vitað að þú værir að koma, Fjóla mín, þá hefði ég nú rakað mig.“

Okkar síðasta samtal áttum við í hádeginu daginn sem þú lést. Ég var þá stödd erlendis og áttum við stutt myndsímtal. Þú sagðir: „Sjáumst þegar þú kemur heim.“ Það varð ekki.

Ég veit að það er eigingjarnt af mér að hafa viljað hafa þig hjá okkur lengur, því að þú kvaldist. Ég hefði viljað liggja hjá þér við þinn hinsta andardrátt en það fékk Gummi að gera. Kannski varstu bara að hlífa mér, litlu stelpunni þinni.

Takk fyrir allt, elsku pabbi, þú varst frábær pabbi og gerðir alltaf allt þitt besta.

Þín dóttir,

Fjóla.

Siggi okkar er fallinn frá eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. Hann kom inn í fjölskylduna fyrir 13 árum eða þegar hann og Herborg systir tóku saman. Drjúgan hluta af þeim tíma hefur systir mín verið að berjast við krabbamein og ekki svo langt síðan talið var að hún væri sloppin fyrir horn þegar Siggi veiktist. Sumir fá erfiðari spil á hendi en aðrir. Siggi studdi konu sína vel í þessum bardaga og þakka ég fyrir það. Ég held að ég hafi einhvern tíma sagt honum, en ekki bara hugsað, hve þakklát ég var honum fyrir að vera til staðar á þessum erfiðu tímum en maður þarf að passa upp á að segja hug sinn, það getur seinna orðið of seint. Aldrei heyrði maður þau kvarta yfir hlutskipti sínu og tekist var á við hlutina bæði þá og nú af miklu æðruleysi.

Nú er Siggi farinn í síðustu ferðina, hún hefði mátt vera svo mikið seinna. Þau hjón voru dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis. Innanlands á sumrin í útilegum og ýmissi útivist sem þau höfðu bæði mikla ánægju af og erlendis hingað og þangað, oft til Spánar, og síðast í haust dvöldu þau þar nokkrar vikur og ferðuðust m.a. um héruð Norður-Spánar. Við fórum nokkrum sinnum í útilegur með þeim, fyrst voru þau í tjaldi, síðan tjaldvagni og nú síðast í hjólhýsi sem átti aldeilis að nota, Siggi nýhættur að vinna til að geta farið frjáls um og Herborg hætt einhverju fyrr. Siggi var snar að tengja aftan í þegar gaf. Stundum var hugurinn á undan, eitt sinn gleymdist að trekkja upp nefhjólið, það uppgötvaðist þegar komið var í Þjórsárdal. Ekkert að gaufa, drífa sig í næturstað og þá var tekin upp bjórkolla og fýrað upp í grillinu. Ekkert flókið, pylsur voru í uppáhaldi en svosem ekki neitt verið að kvarta þó annað væri í boði. Erlendis var það pasta carbonara. Ef ekki var boðið upp á pylsur eða carbonara þá var veitingastaðurinn lélegur og ekkert legið á því. Siggi var maður einfaldleikans. Við fórum a.m.k. tvær ferðir erlendis með þeim hjónum, til Danmerkur og Krítar. Í haust átti að fara systkinaferð til Danmerkur að heimsækja Villa bróður en sú ferð verður því miður farin án Sigga en hann verður með okkur í anda.

Þau áttu fallegt heimili í Kópavogi systir mín og mágur, með stórum svölum þar sem var víðsýnt og sást til Heiðmerkur og vestur Reykjanesskagann. Á nóttunni blasti við stjörnuhiminninn og norðurljósin. Þangað vorum við alltaf velkomin hvort sem var í mat eða gistingu. Það verður tómlegt að sjá ekki Sigga sitja þar úti í rólegheitum og horfa yfir. Við vottum elsku Herborgu og öðrum aðstandendum samúð.

Ragnhildur og Jóhannes.