Fagmennska „En þetta er fyrst og síðast sýning leikaranna,“ segir rýnir um uppfærslu Þjóðleikhússins á Heim.
Fagmennska „En þetta er fyrst og síðast sýning leikaranna,“ segir rýnir um uppfærslu Þjóðleikhússins á Heim. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Heim ★★★½· Eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson. Leikmynd og búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikendur: Almar Blær Sigurjónsson, Hilmar Guðjónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Selma Rán Lima og Sigurður Sigurjónsson. Frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 7. febrúar 2025.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Þetta verður allt í lagi.“ Á þessu klifa persónur nýjasta verks Hrafnhildar Hagalín. Eða spyrja hverjar aðra hvort allt verði ekki örugglega í lagi, og fá alla jafnan staðfestinguna um að svo verði. Sem er ekki endilega rétt. Og virkar auðvitað því ósennilegra sem það er oftar sagt. Slíkt er eðli samskipta, og alveg sérstaklega samskipta í bókmenntum, ekki síst í þeim sviðsbókmenntaramma sem Hrafnhildur Hagalín vinnur verk sitt innan að þessu sinni. Stofu- og fjölskyldudramahefðinni sem tók á sig mynd undir lok nítjándu aldar í meðförum höfunda á borð við Ibsen og Tsékhov, með smávegis táknrænum yfirtónum úr absúrdleikhúsinu sem reyndi, en mistókst, að koma í stað norska og rússneska raunsæisins um miðja síðustu öld.

Það er líka erfitt að gleyma Eugene O’Neill þegar horft er á Heim. Brotin fjölskylda með þéttriðið net af ranghugmyndum hvert um annað, að tipla á tánum kringum viðkvæma móður í óvissum bata hlýtur alltaf að vekja hugrenningatengsl við lykilverk hans, Dagleiðina löngu inn í nótt. Með grófri einföldun má síðan segja að fléttan sæki til Ibsens, með sínum illa gröfnu leyndarmálum sem opinberast fyrir hálfgerðar tilviljanir, en samtalstæknin sé úr smiðju Tsékhovs, þar sem fólk ræðir helst lítilsverða hluti, en lokar eyrunum þegar einhver gera sig líkleg til að úthella hjarta sínu.

Við erum stödd í ríkmannlegu einbýlishúsi á Íslandi, þar sem húsmóðirin er nýkomin heim úr einhvers konar meðferð eftir óljóst áfall með löngum aðdraganda. Ástand hennar heldur börnum hennar tveimur og húsbóndanum í heljargreipum svo heimkomuveislan er vægast sagt spennuþrungin. Þegar við bætast gömul og ný leyndarmál sem flettist ofan af, og tengjast sum fólkinu í næsta húsi og sambandi þess við fjölskylduna, er kominn nægur efniviður fyrir nokkuð hefðbundna dramatíska kvöldstund í leikhúsinu.

Þetta nýjasta leikrit eins af okkar flinkustu sviðshöfundum er forvitnileg blanda af þéttri fléttu, vel skrifuðum samtölum, lausum endum og óræðum skilaboðum. Stundum er eins og plottið ætli að kaffæra þessa mynd af stefnulausu nútímafólki að þvælast fyrir lífshamingju hvert annars, sérstaklega þegar spennan virðist eiga að byggjast á leyndarmálum sem áhorfandinn er löngu búinn að fá nægilegar upplýsingar um til að sjá hver eru. Á öðrum stundum virðast uppsafnaðar klisjur fjölskyldudramans, sem hafa hlaðist upp frá því Nóra Helmer var að pukrast með fjármál heimilisins árið 1879, muni fela allt sem höfundi liggur á hjarta. Oftast heldur þetta kunnuglega form, vald höfundarins á því og færni listafólksins við að túlka það áhorfendum þó nægilega hugföngnum.

Salnum í Kassanum hefur verið umbreytt fyrir þessa sýningu, og það kemur ágætlega út. Alveg tímabært líka, það var alveg við það að gleymast að þetta leikrými á að vera sveigjanlegt. Að þessu sinni hefur áhorfendum verið komið fyrir í báðum endum salarins með sviðið á milli. Gönguleiðir beggja vegna áhorfendabekkjanna gegna síðan allar hlutverkum fyrir hálf-raunsæisleg hýbýli fjölskyldunnar í útfærslu Filippíu I. Elísdóttur. Óhlutbundnar mishæðir á sviðinu, þar af önnur þakin veislumat, vekja óljós hugrenningatengsl við rómverskar svallveislur, frekar en íslenska borðstofu, en þjóna sviðsetningu og flæði sýningarinnar vel. Flennistór gluggi á annarri hliðinni setur síðan sterkan svip á myndina.

Búningar eru smartir og raunsæislegir, í eðlilegu mótvægi við stílfærða umgjörðina. Lýsingin gegnir veigamiklu hlutverki í að móta rýmið fyrir áhorfendum og þar vinnur Björn Bergsteinn Guðmundsson afbragðsverk. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar bætir síðan enn í stemninguna.

En þetta er fyrst og síðast sýning leikaranna. Verk af þessu tagi hafa lengi verið heimavöllur og varnarþing hins þjálfaða fagmanns á því sviði og þar bregðast engin að þessu sinni.

Það verður samt að játast að leikaravalið vekur smá undrun, og truflar jafnvel. Látum vera að stjörnuskurðlæknirinn hans Sigurðar Sigurjónssonar hafi heillað hina áberandi yngri fræðikonu Margrétar Vilhjálmsdóttur. En þegar það kemur skýrt fram að þau eignuðust sitt fyrsta barn þegar læknirinn var enn í námi byrjar að hrikta í raunsæinu.

Er það þess virði? Mögulega, allavega eru þau Sigurður og Margrét alveg afbragð í hlutverkum sínum. Hvort um sig sýnir hér hversu mikils virði það er fyrir áhrifamátt leikara að áhorfandinn geti engan veginn reiknað út hvað þeir gera næst. Það birtist í taugaveikluðum sprengikraftinum sem Margrét ljær sinni konu, en ekki síður í hófstilltum en ísmeygilegum valdaleikjum og undanbrögðum læknisins hans Sigurðar. Allt til fyrirmyndar.

Börnin eru líka í góðum höndum. Dóttirin ráðvillta og uppreisnargjarna dregur til sín samúð og athygli í fallegri túlkun Selmu Ránar Lima í frumraun hennar í Þjóðleikhúsinu. Almar Blær Sigurjónsson er sömuleiðis trúverðugur sem álíka ráðvilltur en öllu minna uppivöðslusamur sonur, hlutverk sem fjarar dálítið út í byggingu verksins. Um hann hverfist helsta drama sýningarinnar, en höfundur gefur honum sérkennilega lítil færi á að bregðast við.

Í næsta húsi búa hin nafngreindu Elsa og Ellert, flugfreyja og flugmaður, í hjónabandi á síðustu metrunum og með sterk en lengst af dulin tengsl við fjölskylduna. Hlutverk sem hafa bæði snert af „comic relief“ við sig, en líka dýpt og mikilvægi í samhengi dramans. Þau Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson eru sérfræðingar í þessu einstigi og skila hlutverkunum eftir því.

Magnús Geir Þórðarson stýrir sýningunni af miklu öryggi. Með áhorfendur til beggja hliða þarf að sýna útsjónarsemi í staðsetningum og hreyfingum og allt er það gert af algeru fumleysi. Tilfinningin er líka fyrir miklu trausti á leikurunum að skila sínu á náttúrulegan hátt, sem gengur eftir. Kannski hefði ágengari túlkun komist nær kjarna og sögn verksins. Eins og það birtist okkur í uppfærslu Þjóðleikhússins skilur það áhorfandann eftir í lausu lofti og umtalsvert óvissan um hvort var verið að segja honum eitthvað mikilsvert, nokkuð sem leikritunarhefðin sem liggur til grundvallar verkinu reynir einatt að gera. Fyrir utan þær vangaveltur situr eftir notaleg tilfinning fyrir að hér hafi verið vel að verki staðið. Fyrir unnendur vandaðs leikhúss er það næstum nóg.