Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Vandamálið nær aftur að efnahagshruninu þegar viðhald vega var stórlega skorið niður og hefur ekki náðst upp aftur. Þetta eru 15-16 ár þar sem viðhaldsféð hefur verið 10 milljarðar á ári þegar það hefði þurft að vera 20 milljarðar,“ segir Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóri Colas.
Vegakerfið á Íslandi er metið á 12.000 milljarða króna og segir Sigþór að út frá þeirri staðreynd sjáist hvaða upphæðir þurfi að fara í viðhald.
Kallar eftir langtímaáætlun
„Á síðasta ári voru lagðir 12 milljarðar í viðhald sem nemur einu prósenti af heildarfjárfestingu. Hámarksending svona vega er kannski 40 ár og þá að sjálfsögðu með viðhaldi á slitlögum. Af þessu sést að viðhaldsfé þarf að vera að minnsta kosti tvöfalt.“
Hann segir að ástandið eins og það er orðið kalli á langtímaáætlun. Staðan á vegakerfinu sé orðin þannig að Vegagerðin sé að missa vegina niður í niðurbrot og þá verði margfalt dýrara að byggja þá upp að nýju. Vegakerfið á Íslandi er 26.000 kílómetrar, 1.200 brýr, 14 jarðgöng, 4 flugvellir fyrir millilandaflug og 37 hafnir sem Vegagerðin sér um.
„Við erum fámenn þjóð í stóru landi og samgöngurnar eru reknar með mjög óhagkvæmum hætti. Þetta er flókið verkefni og því gríðarlega mikilvægt að reka þetta betur. Þó að við séum ein ríkasta þjóð í heimi þá er þetta þungur rekstur sem verður að taka til í. Mér finnst stjórnmálamennirnir ekki alveg vera með á nótunum um hvernig samfélagið er uppbyggt og hvernig þurfi að forgangsraða,“ segir Sigþór.
Danska og færeyska leiðin
Hann mælir með því að það verði fundnar aðrar leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir.
„Ég held að menn þurfi að fara dönsku leiðina, Sund&Bælt, sem er hlutafélag í eigu hins opinbera og fjármagnaði til dæmis Eyrarsundsbrúna og brúna yfir Stóra-Belti. Það er gert með eigin fé og lánsfé, síðan eru innheimt veggjöld sem standa undir rekstrinum í 50-60 ár. Færeyingar hafa farið sömu leið þótt þar sé miklu minni umferð en hér.“