Laugardalshöll Martin Hermannsson skorar í fyrri leiknum gegn Ungverjum sem Ísland vann eftir mikla baráttu, 70:65, fyrir ári.
Laugardalshöll Martin Hermannsson skorar í fyrri leiknum gegn Ungverjum sem Ísland vann eftir mikla baráttu, 70:65, fyrir ári. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland getur í dag tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik, Eurobasket 2025, þegar liðið mætir Ungverjalandi í fimmtu og næstsíðustu umferð undankeppninnar í Szombathely. Leikurinn hefst klukkan 17 að íslenskum tíma

Í Szombathely

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísland getur í dag tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik, Eurobasket 2025, þegar liðið mætir Ungverjalandi í fimmtu og næstsíðustu umferð undankeppninnar í Szombathely. Leikurinn hefst klukkan 17 að íslenskum tíma.

Sigur kemur Íslandi á EM, líka tap með einu til fjórum stigum. Fimm stiga tap gefur Ungverjum von fyrir lokaumferðina og þeirra möguleikar aukast með því að vinna leikinn með sex stigum eða meira.

Í lokaumferðinni á sunnudagskvöld leika Ísland og Tyrkland í Laugardalshöllinni og Ungverjar sækja Ítali heim en bæði Tyrkir og Ítalir hafa tryggt sér sæti á EM.

Martin Hermannsson er með íslenska liðinu á ný eftir að hafa misst af leikjunum gegn Ítölum í nóvember vegna meiðsla. Hann sagði við Morgunblaðið að hann biði spenntur eftir leiknum mikilvæga, en þó ekki of spenntur.

Hef verið svolítið kærulaus

„Ég hef eiginlega verið svolítið kærulaus allan minn feril og ekki ofhugsað hlutina mikið. Mér finnst best að koma frekar kaldur inn í leiki. Auðvitað hefur þessi leikur verið aftast í hausnum á manni nokkuð lengi en maður hefur reynt að njóta þess að hitta strákana aftur fyrstu dagana, læra aðeins kerfin upp á nýtt og njóta augnabliksins – njóta þess að vera í þessari stöðu,“ sagði Martin þegar Morgunblaðið ræddi við hann um stóra verkefnið sem bíður í dag.

Ísland hefur tvisvar áður komist á EM og Martin var með í bæði skiptin, þá 20 og 22 ára gamall og kominn styttra á veg á ferlinum, en frá 2018 hefur hann leikið með stórliðunum Alba Berlín og Valencia og öðlast geysilega reynslu af því að leika með báðum félögunum í Euroleague, sterkustu deild Evrópu.

EM var daglegt brauð

„Fyrstu árin mín í landsliðinu var þetta bara daglegt brauð. Við fórum á EM 2015 og aftur 2017 þannig að ég hélt að þetta myndi bara verða svona á tveggja ára fresti allan ferilinn.

Svo breyttu þeir kerfinu, nú eru fjögur ár á milli móta og hjá okkur hafa verið kynslóðaskipti. Við höfum verið grátlega nærri því að fara á tvö síðustu stórmót, EM 2021 og HM 2023, en nú erum við komnir í þessa stöðu, þetta er staðan sem við viljum vera í, og það er ekkert skemmtilegra en að fara með landsliði á stórmót.

Ég held að það séu ekki bara við leikmennirnir sem erum þyrstir í það, heldur líka allt landið og allt fólkið í kringum okkur bíður eftir því að geta keypt miða á Icelandair.is. Þetta er bara þjóðhátíð þegar svona stórmót fara fram og mig langar til upplifa þetta aftur, og margir í liðinu vilja upplifa það í fyrsta skipti.

Fyrir mig væri líka gaman að fara núna á EM, eftir að hafa spilað á hæsta stigi í Evrópu í mörg ár. Ég þekki dómarana og þjálfarana í hinum liðunum, ég þekki leikmennina, myndi hitta gamla liðsfélaga, þannig að þetta yrði allt öðruvísi upplifun en 2015 og 2017,“ sagði Martin.

Mætir gömlum samherja

Hann kvaðst ekki þekkja mikið til körfuboltans í Ungverjalandi en hefði þó spilað með einum ungversku landsliðsmannanna.

„Nei, ég hef aldrei spilað í Ungverjalandi. Ekkert lið þaðan spilar í Euroleague og félagsliðin þeirra hafa ekki verið í tveimur stærstu Evrópudeildunum. En það er leikmaður í ungverska liðinu sem ég spilaði með í Valencia á Spáni, Nate Reuvers, hann er reyndar frá Bandaríkjunum og ekki eitt ungverskt gen í honum, en hann er með ríkisborgararétt og er núna kominn í liðið hjá þeim. Ég þekki hann og fæ að spila á móti honum. Annars þekki ég lítið til liðsins og leikmannanna, sem er oft gott.“

Hvernig þú vaknar

Martin tók þó þátt í fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni sem Ísland vann eftir miklar sveiflur og baráttu, 70:65.

„Þetta ungverska lið er gott, við sáum það í fyrri leiknum heima. Reyndar hætti þeirra besti maður um árabil, Ádam Hanga, fyrrverandi leikmaður Barcelona og Real Madrid, með landsliðinu fyrir þennan glugga. En við megum ekki hugsa mikið um það, þetta er gott lið og þeir eru vel stilltir.

Þetta verður mjög erfitt, þeir gáfu bæði Ítölum og Tyrkjum leik á heimavelli. Ungverjar eru kannski meiri handboltaþjóð en þeir eru drulluseigir í körfubolta þannig að þetta verður mjög erfiður leikur.

Við vitum alveg hvað við erum að fara út í, og vonandi verður allt rétt stillt þennan dag. Þetta gengur svo mikið út á það. Þú getur undirbúið þig eins og þú vilt, en oft ræðst þetta af því hvernig þú vaknar og hvernig hausinn er,“ sagði Martin.

Eitthvað sem smellur

Craig Pedersen landsliðsþjálfari hrósaði leikmönnum liðsins í viðtali við Morgunblaðið fyrir hve fljótir þeir væru að tengja og komast af stað þegar liðið kemur saman fyrir landsleiki. Martin tók heils hugar undir þau ummæli.

„Þetta er alveg rétt hjá honum og þetta er rosalega sérstakt. Þeir sem hafa upplifað þetta vita hvað ég er að tala um og það er held ég sama hvort um sé að ræða íslenskt landslið í fótbolta, handbolta eða körfubolta – það tala allir um að það skemmtilegasta sem þeir gera sé að koma saman sem landslið.

Það er bara eitthvað sem smellur saman, orkan, tengingarnar á milli leikmannanna, það fær enginn borgað fyrir þetta, allir taka þátt í þessu út af ástríðunni og hver fyrir annan. Enginn er að reyna að eiga einhvern stórleik eða setja upp einhverjar tölur úr leiknum til að fá betra gigg.“

Allt skemmtilegt

„Menn berjast bara af lífi og sál fyrir þjóðina – það er ótrúlega mikill heiður að vera í þessari stöðu og þetta er alveg rétt. Hérna hittir maður strákana aftur, margir af mínum bestu vinum eru í þessu landsliði, og það gerir þetta ekstra skemmtilegt. Þú sérð þá kannski ekki í marga mánuði og svo hittir maður þá hér og eyðir stundum með þeim á hótelinu, æfingum og í rútuferðum. Þetta er allt skemmtilegt.

Þegar þú ert með félagsliði er ekkert skemmtilegt að vera í rútunni og ekki alltaf gaman að mæta á æfingu. En það er allt skemmtilegt við landsliðið og margir okkar hafa verið lengi saman í því og eiga auðvelt með að tengjast. Maður sér strákana í leikjum með sínum félagsliðum og veit hvar þeir vilja fá boltann, hvað þeir vilja gera og í hverju þeir eru góðir, þannig að þetta hjálpar allt. Þetta er það skemmtilegasta í heimi – það er bara svoleiðis.“

Þetta eru bara tvær sóknir

Hvernig er að fara í leik sem þú veist að þú mátt tapa með fjórum stigum. Truflar það einbeitinguna, fer þetta í hausinn á mönnum?

„Nei, ekki fyrst þetta eru bara fjögur stig. Ef þetta væru 20 stig eða eitthvað þannig þá væri þetta öðruvísi. Fjögur stig í körfubolta eru ekki neitt. Það eru bara 15 sekúndur, tvær sóknir, jafnvel bara ein. Nei, við hugsum ekkert um að við megum tapa með fjórum. Við ætlum bara að vinna þennan leik og það besta er að við erum með þetta í okkar höndum.

Við ráðum okkar örlögum sjálfir og þurfum ekki að treysta á aðra. Þetta erum bara við, sigur í þessum leik kemur okkur á Eurobasket og það þarf ekki að segja meira um það. Þannig er staðan. Þessi fjögur stig eru alla vega ekkert sem ég hugsa um. Það er ekki hægt að vernda eitthvert fjögurra stiga forskot í körfubolta,“ sagði Martin Hermannsson.

Höf.: Víðir Sigurðsson