Steinn Þorgeirsson fæddist í Reykjavík 18. júní 1937. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Steinsdóttir húsmóðir og Þorgeir Guðnason málarameistari en Lýður Pálsson frá Hlíð gekk honum í föðurstað.

Árið 1962 giftist Steinn eftirlifandi eiginkonu sinni, Svanhildi Sveinsdóttur frá Selfossi, og eiga þau þrjú uppkomin börn. Þau eru: 1) Guðbjörg Steinsdóttir, f. 17. febrúar 1964, barn hennar Arnar Steinn Jóhannsson, f. 1988. 2) Sveinn Arnar Steinsson, f. 21. apríl 1967, börn hans eru Þorgrímur Magni Sveinsson, f. 1994, Lýður Sveinsson, f. 2002, og Arna Sveinsdóttir, f. 2004. 3) Ragnar Scott Steinsson, f. 25. júní 1974, giftur Rebecca Scott Lord, og eru börn hans Kría Ragnarsdóttir, f. 2006, og Úlfur Helgi Ragnarsson, f. 2010.

Á fyrsta ári flutti Steinn ásamt móður sinni að Hlíð í Gnúpverjahreppi þar sem hann varði æskuárum sínum. Steinn lauk landsprófi frá Laugarvatni og síðan vélsmíði frá Iðnskólanum á Selfossi á samningi hjá vélsmiðunni Steðja í Reykjavík. Hann fór til náms í tæknifræði árið 1962 til Danmerkur og lauk prófi frá Odense Teknikum. Eftir nám hóf Steinn störf hjá Mjólkurbúi Flóamanna um stund og síðan hjá húsgagnaverksmiðju Kristjáns Siggeirssonar hf. Á áttunda áratug síðustu aldar hóf hann störf hjá Blikksmiðjunni Vogi og síðan réð hann sig til starfa hjá Blikksmiðjunni ehf. þar sem hann vann þar til hann lét af störfum.

Útför Steins fer fram frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 20. febrúar 2025, klukkan 13.

Eitt það versta við að eldast, fyrir utan að missa heilsuna, er að sjá á eftir samferðamönnunum í lífinu.

Í dag er það okkar kæri vinur og svili Steinn, eiginmaður Svönu mágkonu, sem hefur kvatt okkur nokkuð óvænt, því þótt hann væri kominn á efri ár fannst okkur hann alltaf vera hreystin uppmáluð, þau Svana gengu bæði mikið og voru í góðu formi eins og sagt er. En þau Svana voru einstaklega samhent hjón og gerðu flesta hluti saman.

En síðustu mánuðina hafði hann átt við hjartavandamál að stríða svo að aðgerð þó óskyld því varð til þess að hann átti ekki afturkvæmt heim.

Það var í kringum nítján hundruð og sjötíu sem Steinn og Svana fluttu heim frá Danmörku þar sem hann hafði verið í námi undanfarin ár og urðum við nágrannar þeirra á tímabili þegar við bjuggum á Hofsvallagötu og þau á Hagamelnum og oft var komið við í kaffi á þeim árum. Síðan fóru þau að byggja í Fjóluhvamminum í Hafnarfirði og unnu mikið við það sjálf eins og fólk gerði á þeim árum og varð það fallegt hús og vandað enda Steinn einstaklega vandvirkur maður. Ég held að við Siggi höfum komið að hreinsa spýtur með þeim einu sinni á sólríkum degi, að minnsta kosti er bjart yfir minningunni frá þessum tíma og oft var fjölskyldan í Fjóluhvammi heimsótt á þessum árum.

Fyrir löngu byrjuðu Svana og Steinn að bjóða stórfjölskyldunni heim á jólunum af miklum myndarskap og héldu því áfram mörg næstu árin þótt alltaf fjölgaði fólkinu í hópnum og varð það til þess að fólk kynntist betur, ekki síst þeim sem bættust nýir í hópinn.

Ég held að enginn hafi treyst sér til að taka við af þeim að halda þessi flottu jólaboð enda ekki allir með húspláss til að taka á móti þeim fjölda er til þeirra kom.

Seinni árin hafa þau Svana kíkt til okkar í kaffispjall við og við, hafa það verið ánægjulegar stundir.

Við söknum Steins en minnumst allra góðu samverustundanna og sendum Svönu, börnum og afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Gunnlaug Ólafsdóttir.

Enn erum við minnt á að ekkert er eilíft. Kletturinn sterki stendur ekki að eilífu. Hann fær ekki staðist tímans rás. Steinn var einmitt klettur í mínum huga, hluti af lífi mínu frá frumbernsku. Hann var einn af mínum bjargföstu vinum sem ég leit ævinlega upp til og dáði. Ég man tilhlökkunina þegar von var á Steini og Svönu í heimsókn á bernskuheimili mitt, spenninginn og gleðina þegar börnin þeirra fæddust og öll árin sem við vorum í mjög nánu sambandi meðan Guðbjargar og Lýðs naut enn við. Steinn var mér sem bróðir eins og þau voru mér sem aðrir foreldrar. Ég efast um að nokkur komist með tærnar þar sem Steinn og Svana voru með hælana varðandi stuðning og hjálpsemi við foreldra sína. Þau komu til þeirra dag hvern og voru alltaf til staðar. Þar hittumst við oft og áttum saman góðar stundir. Því miður minnkaði sambandið við Stein og Svönu eftir fráfall Guðbjargar og Lýðs, en þegar við hittumst eða ræddum saman í síma var þar alltaf sami góði vinurinn, svo hlýr, svo skýr og með gamanmál á vörum.

Minningarnar um Stein eru margar og ævinlega góðar. Mér var það mjög dýrmætt hve fljótt skapaðist sterk tenging og góð vinátta milli hans og Indriða mannsins míns. Minnisstæðar eru veiðiferðirnar með honum. Fyrsta veiðiferðin er mér mjög kær, þegar Steinn og Svana fóru með okkur í veiði á Hlíðarsvæðinu í Stóru-Laxá. Í mínum huga var það svo mikil upphefð og viðurkenning að þau vildu koma með okkur, enda hafði ég fram að því ekki litið á Stein sem jafningja heldur frekar goð sem ég leit upp til. Ég minnist ekki veiðinnar í þessum túr ef nokkur var, en ég minnist samverunnar í veiðikofanum sem var svo lítill að við þurftum næstum að sitja í fangi hvert annars. Þar drukkum við dús og hlógum okkur máttlaus að skemmtilegum sögum og öllu því smáa sem kitlar hláturtaugarnar. Veiðiferðirnar í Stóru-Laxá urðu fleiri og ævinlega jafn skemmtilegar. Síðar fórum við oftast á efsta svæðið í góðum hópi og ævinlega eru minningarnar um þessa dýrðardaga með Steini tengdar því sterka skopskyni sem hann var svo ríkur að. „Sellufundanna“ með honum, Gústa Lilliendahl og fleiri góðum vinum er oft minnst á mínu heimili. Þar var hlegið og pískrað um eitthvað sem átti að vera leynilegt, en aldrei var þar að finna neikvætt slúður, né rætni, heldur bara grín og gaman. Stutt varð á milli þeirra félaganna og blessuð sé minning Gústa.

Við fjölskyldan sendum Svönu, Guðbjörgu, Sveini, Ragnari Páli og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Elín Erna Steinarsdóttir.

Það var gott að koma að Hlíð. Hlíð var næsti bær við Hæli þar sem við vorum fjórir strákar nokkrum árum yngri en Steinn. Steinn tók alltaf vel á móti okkur og sýndi okkur hvað hann var að smíða og hleypti okkur inn í smíðaherbergi sitt í kjallaranum. Hann var mikill snillingur og litum við óspart upp til hans. Ekki spillti góðgætið sem Guðbjörg móðir hans bar á borð og má segja að hún hafi verið frumkvöðull í matar- og kökugerð þess tíma.

Mikill skyldleiki og vinskapur var á milli bæjanna og þegar íbúðarhúsið á Hæli brann árið 1959 þá tóku þau í Hlíð og fólkið í Steinsholti fjölskyldurnar inn á heimili sín.

Leiðir okkar Steins hafa legið saman á margan hátt. Báðir lærðum við í Vélsmiðjunni Steðja og þegar ég kom til Danmerkur að læra þá tók Steinn á móti mér og greiddi götu mína.

Síðan höfum við hjónin átt margar góðar stundir með þeim Steini og Svönu hér heima og erlendis. Gott var að hafa þau með í spilamennsku og rúllupylsugerð sem var eitt af haustverkunum til margra ára.

Steinn var einstakt snyrtimenni og ljúfur í allri umgengni.

Við söknum þess að geta ekki oftar fengið þau til okkar austur að Minna-Hofi og notið þeirra skemmtilegu stunda sem góðir vinir njóta saman.

Við Vala sendum elsku Svönu, börnum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Góður drengur er genginn.

Gestur Einarsson.