Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Það er jafnan fagnaðarefni þegar limrubækur fæðast. Vigfús M. Vigfússon var að gefa út safn af ferðasögum í fimm línum og fleiri svipmyndir. Af því tilefni yrkir hann:
Ef ferðast ég sumurin fögur
fæðast oft örlitlar sögur
sem fljúga út í geim
en falla svo heim
og fléttast í fimmlínu bögur.
Svo tók ég þeim saman að safna,
að saman þær næðu að dafna,
í letri á blöð
í láréttri röð,
á sextíu síðum að hafna.
Nú hollt er ég hætti að mala
heldur á torgunum gala:
„Á þrjúþúsund kall
þykist ég snjall
að bóða þér bókina fala.“
Sigrún Ásta Haraldsdóttir, Helgi Zimsen, Gunnar J. Straumland og Sigurlín Hermannsdóttir lesa úr bók sinni Samtímarímum í útgáfuhófi í Bókakaffinu Ármúla kl. 17 í dag. Hér er vísa eftir Gunnar:
Sá er allt um ekkert veit,
allt það færði í letur.
Ekkert samt um allt hann veit
en enginn veit þó betur.
Bob Dylan er mikið ræddur þessa dagana enda prýðismynd um hann í kvikmyndahúsum. „Hann er af úkraínskum og litháískum ættum en fæddist og bjó fyrstu æviárin í bænum Duluth í Minnesóta,“ skrifar Anton Helgi Jónsson. „Þar dvaldi um tíma annað alþýðuskáld sem okkur er líka kært, sjálfur Káinn.“ Af því tilefni kastar Anton Helgi fram vísum undir yfirskriftinni Duluth-vísur:
Götulíf og gróin torg
gæðaskáldin móta;
dágóð er sem draumaborg
Duluth Minnesóta.
Káinn rótlaus reyndi í
rugli sig að fóta
dögum saman drakk hann því
Duluth Minnesóta.
Heyri maður mæddan róm
minninga skal njóta;
Dylan man í drengjaskóm
Duluth Minnesóta.
Mörg er borgin fúl sem fól
fáir þar sín njóta
betur dáðadrengi ól
Duluth Minnesóta.