Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég byrjaði að starfa á barnadeildinni á Landakoti daginn eftir að ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur, þá rúmlega tvítug. Ég fór í hjúkrun af því að ég vildi starfa við barnahjúkrun, en ég fór að sinna börnum með svefnvanda miklu seinna,“ segir Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og landsþekktur svefnráðgjafi foreldra með ung börn sem glíma við svefnvandamál. Arna lætur af störfum um næstu mánaðamót vegna aldurs, en ótal foreldrar hafa leitað til hennar undanfarna tvo áratugi með börn sín. Einnig hefur bók hennar, Draumalandið, um svefnvanda barna, verið mörgum foreldrum ungra barna sem biblía.
„Ég horfi sátt yfir starfsferil minn og hef fengið heilmikið þakklæti frá svefnvana foreldrum í gegnum tíðina, enda er grunnur að vellíðan góður svefn og góð næring. Að fá lítinn svefn eða margrofinn í langan samfelldan tíma getur farið mjög illa með fólk, það má ekki vanmeta. Foreldrar hafa komið til mín á barmi taugaáfalls, geta ekki meir. Fólk sem leitar sér aðstoðar er fólk sem vill vanda sig og þegar foreldrar koma til mín eru þeir búnir að reyna allskonar úrræði. Að hjálpa foreldrum með svefnvandamál barna þeirra, bætir geðheilsu allra fjölskyldumeðlima. Mikill grátur hefur mjög neikvæð áhrif á þann sem þarf að hlusta á hann tímunum saman og barn er í streituástandi þegar það grætur. Þetta er því erfitt fyrir alla aðila. Svefnvandamál barna til langs tíma reynir mjög á samband foreldra, því þá eru allir með þandar taugar. Það er þekkt pyntingaraðferð í stríðum að ræna fólk svefni lengi, fólk játar hvað sem er eftir nokkra daga.“
Arna kemur sjálf úr níu systkina hópi og segir að á þeim árum sem hún var að alast upp hafi margt verið ólíkt því sem er í dag.
„Þá var algengt að systkini sinntu systkinum, sá sem vaknaði upp um nótt skreið kannski upp í hjá einhverju systkini en ekki til foreldra. Við vorum alltaf þrjú yngstu systkinin saman í herbergi, svo enginn var einn. Fræðin sem ég halla mér að erlendis heita á ensku Infant Mental Health, eða geðvernd ungbarna, og þar undir er svefn barna. Börn fæðast afskaplega misviðkvæm, sum eru mjög viðkvæm fyrir hljóðum eða ljósi, á meðan önnur eru það ekki. Þörf þeirra fyrir snertingu er líka mismikil. Það gildir ekki það sama fyrir alla þegar kemur að því að takast á við svefnvanda, af því að það eru ekki allir eins. Engin ein töfralausn virkar fyrir alla, og við þurfum að hafa umburðarlyndi fyrir því, sem við höfum kannski ekkert sérstaklega mikið af.“
Snýst ekki um óþekkt barna
Arna segir að hér áður fyrr hafi börn með svefnvanda stundum verið lögð inn á spítala.
„Sú aðferð var mikil grátmeðferð og alls ekki góð fannst mér. Þetta voru börn sem búið var að rannsaka að ekkert væri að líkamlega, en voru búin að gráta mjög mikið og lengi. Ég fór í raun af stað með mína svefnráðgjöf til að draga úr þessum innlögnum og bæta þjónustuna, mér fannst þetta ekki gott barnanna vegna og ekki heldur fyrir starfsemina. Mér leið illa með þetta fyrirkomulag og enginn var sérstaklega ánægður með þetta, svo ég fór að skipta mér aðeins af þessu. Ég tók foreldrana í viðtöl og spurðist fyrir, því ég vissi að þetta snýst ekki bara um að börnin séu óþekk, gargi og góli og vilji fá þjónustu. Það þarf að taka á svefnvanda heildrænt og fyrsti punkturinn sem ég byrjaði á var að athuga hvað barnið væri búið að vaka lengi þegar það var lagt á kodda fyrir nætursvefn. Þetta snýst ekki um að börn sem sofa vel eigi klára og góða foreldra, heldur erum við misjafnir einstaklingar, líka þegar kemur að svefnviðkvæmni. Að koma á takti í svefni snýst allt um tíma, klukkan skiptir þar miklu máli og líkamsklukkan stillir sig eftir reglunni. Þetta er það fyrsta sem þarf að skoða, að barnið fari alltaf að sofa á sama tíma og vakni á sama tíma, og það er foreldramál að koma á föstum takti í svefnmunstri. Annað lykilatriði er að venja börn á að sofna sjálf, ein. Allir losa svefn af og til yfir nóttina, og börn sem rumska vilja fá það sama sem þau sofnuðu út frá. Þetta er rökrétt, en ekki geimvísindi, barn sem sofnar í fangi vill rumska í fangi, en barn sem sofnar eitt, kippir sér ekki upp við að rumska í þeim sömu aðstæðum. En við viljum oft ekki vera rökrétt, það pirrar okkur, af því að þá þurfum við að passa svo vel upp á ýmislegt, sérstaklega með mjög ung börn.“
Arna segist hafa kynnst fjölda fólks í gegnum vinnu sína sem svefnráðgjafi, hvort sem það var á spítalanum, í foreldraskólanum sem hún stóð fyrir eða í gegnum bókina hennar Draumalandið, sem hefur verið þýdd á mörg tungumál.
„Foreldrar vilja standa sig vel, vilja ekki vera of strangir en samt setja mörk. Þetta er lína sem flestir vilja vera á og helst að það sé ekki mikið vesen.
Allir fá mismunandi verkefni til að takast á við í lífinu. Ég hef sagt með mátulegri alvöru, að líklega séu þau börn aðeins sterkari persónuleikar sem láta mikið í sér heyra, enda er meðfætt lundarfar einstaklinga misjafnt. Við fæðumst öll með mismunandi skapgerð, þrjósku og fleira. Það má líka líta á það sem hól ef barn lætur hafa fyrir sér, því þá er líklegt að mikið sé spunnið í þann persónuleika, kannski eru foreldrarnir með verulega mikið forstjóraefni í ungbarni sínu,“ segir Arna og hlær, en bætir við að stundum geti eitthvað ótrúlega lítið pirrað börn á nóttunni, án þess að auðvelt sé að greina hvað það er.
Var ágætlega ævintýragjörn
„Í upphafi míns starfsferils var ég rosalega ánægð á Landakoti, þar var gott að vinna. Síðan var barnadeildin flutt á Borgarspítalann við samrunann og svo sameinaðist allt heila klabbið undir einn hatt, Háskólasjúkrahús, og þá vorum við flutt á Barnaspítalann. Ég hef verið mjög farsæl með samstarfsfólk, Ingibjörg Leifsdóttir hefur unnið með mér á göngudeildinni næstum frá upphafi og hún mun starfa áfram með alla sína reynslu. Kristín Björg Flygenring hjúkrunarfræðingur ætlar að taka við keflinu af mér og er byrjuð sem svefnráðgjafi á Barnaspítalanum. Þetta er í góðum höndum.“
Að lokum rifjar Arna upp skemmtilegt tímabil í lífi sínu, þegar hún flutti ung að árum til Suðureyrar við Súgandafjörð og starfaði þar sem hjúkrunarfræðingur í sex ár.
„Það var töff að flytja vestur. Ég var ágætlega ævintýragjörn og við fengum húsnæði, sem skipti máli, því ég var með lítil börn á þessum tíma. Þetta var löngu fyrir tíma jarðganga svo við sem þar bjuggum lokuðumst af yfir háveturinn. Ég henti mér í pólitíkina og var í hreppsnefnd, kona númer tvö í sögunni. Sú sem hafði verið fyrst til að fara í sveitarstjórn var Lovísa Ibsen, samstarfskona mín, hún var góð fyrirmynd og við urðum mestu mátar. Þetta var frábær tími og ég tók þátt í að stofna Kvennalistann á Ísafirði ásamt konum víðsvegar að fyrir vestan og við buðum fram til Alþingis. Ég kynntist skemmtilegu og góðu fólki á þessum tíma, til dæmis Siggunum á Ísafirði, Siggu eldri og Siggu yngri. Þær eru eðalfólk og ég gisti alltaf hjá Siggu eldri uppi í rjáfri með hvít straujuð rúmföt. Minningarnar eru góðar frá þessum sex árum fyrir vestan.“