Tækjakostur Guðmundur Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri, til vinstri, og Hjörtur Guðnason framleiðslustjóri hér við nýju vélalínuna. Framför í framleiðslunni.
Tækjakostur Guðmundur Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri, til vinstri, og Hjörtur Guðnason framleiðslustjóri hér við nýju vélalínuna. Framför í framleiðslunni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný tækjalína til bókagerðar sem keypt hefur verið í Prentmet Odda skapar að mati stjórnenda þar tækifæri til þess að vinnsla á bókum færist aftur heim að einhverju leyti. Hin nýju tæki sem sett voru upp fyrir nokkrum vikum eru meðal annars brotvél fyrir stórar arkir og vél til að sauma arkir bókanna

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ný tækjalína til bókagerðar sem keypt hefur verið í Prentmet Odda skapar að mati stjórnenda þar tækifæri til þess að vinnsla á bókum færist aftur heim að einhverju leyti. Hin nýju tæki sem sett voru upp fyrir nokkrum vikum eru meðal annars brotvél fyrir stórar arkir og vél til að sauma arkir bókanna. Einnig eru í línu þessari öflug hornskellingarvél og pappasax. Fleiri möguleikar eru til staðar í tækjunum sem eru kínversk tækni.

Binda 4.000 bækur á dag

„Okkur er í mun að geta mætt þeim fjölbreyttu kröfum sem til prentsmiðja eru gerðar. Því förum við í þessa fjárfestingu. Svo höfum við auðvitað líka hér á að skipa góðu starfsliði; fólk sem kann vel til verka við vinnslu bóka sem er í raun sérstakt fag,“ segir Guðmundur Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Prentmets Odda.

Íslensk bókaútgáfa er um 1.000 titlar á ári; bækur sem flestar eru prentaðar suður í Evrópu fyrir þó nokkuð lægra verð en býðst hér á Íslandi. Kosturinn við að prenta bækur á Íslandi er að hægt er að taka út verkið á ólíkum vinnslustigum til að tryggja rétta útkomu. Sú var þó tíðin að prentunin var nær öll hér heima og í Prentsmiðjunni Odda voru öll tæki til slíks. Svo gerðist það að íslenskir bókaútgefendur fluttu prentunina utan 2017. Það leiddi til þess að Oddinn seldi þau tæki prentsmiðjunnar sem þurfti til frágangs bóka árið eftir.

„Við eignuðust Odda 2019 og höfum hér haft tæki með afköst fyrir lítið magn bóka. Vildum hins vegar aftur ná stöðu í þessu fagi, enda var kunnáttan á bókbandi og öðru slíku til staðar hjá okkar starfsfólki. Og nú stigum við skrefið með kaupum á þessum vélum; sömu gerðar og við sáum að virkuðu vel hjá prentsmiðju úti í Finnlandi. Þar fer þó í gegn auðvitað miklu meira magn bóka en nokkru sinni verður hér,“ segir Guðmundur Ragnar.

Hjá Prentmet Odda eru til staðar stórar og öflugar prentvélar svo ekki er nema um dagsverk að renna í gegn þeim örkum sem þarf í bók, sem prentuð er í 1.000-2.000 eintökum. Og þá er komið að bókbandinu í vélunum nýju, sem þykja lofa góðu. Afkastageta þeirra er 3.000-4.000 bækur á dag og meiri ef vélarnar eru keyrðar meira en á dagvinnutíma.

Lítið upplag en mikilvægur markaður

„Á síðustu árum hefur útgáfa á smáritum og á ýmsum minni bókum verið mjög að aukast; til dæmis rit sem fólkið á götunni er gefa út. Þetta geta verið ljóð, endurminningar, ættfræði og fleira slíkt sem kemur í litlu upplagi; stundum á bilinu 50-500 eintök. Þetta er mikilvægur markaður sem við viljum sinna vel; en líka ná stærri prentverkefnum svo sem endurprentun á jólabókunum sem við getum framleitt á allt að 3-5 dögum,“ segir Guðmundur Ragnar og áfram:

„Með prentun erlendis hafa útgefendur stundum lent í vanda þegar einstaka titlar ná óvæntri metsölu. Við slíkar aðstæður er erfitt að koma að viðbótarprentun, sem við höfum vissulega sinnt í stöku tilfellum en erum í miklu betri færum til þess nú. Vonandi náum við einhverri bókaprentun almennt talað aftur hingað heim og þá sérstaklega endurprentunum.“

Alls starfa um 70 manns hjá Prentmet Odda sem er með aðsetur á Lynghálsi 1 í Reykjavík, auk þess að starfrækja prentþjónustu á Akureyri og Selfossi. Verkefnin eru mjög alhliða, allt sem þarf er prentað og verkin hafa fengið góða umsögn og viðurkenningar. Áberandi í starfseminni nú er að vinnsla og prentun pappírsumbúða er í sókn, en vegna umhverfissjónarmiða meðal annars velja margir slíkar frekar en plastið.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson