Anna Jensdóttir bókasafnsfræðingur fæddist 6. febrúar 1939 á Ísafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þann 4. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Jens Albert Hólmgeirsson, síðast fulltrúi hjá Tryggingastofnun ríkisins, úr Önundarfirði, f. 18. maí 1897, d. 1. mars 1985, og Steinunn Olga Valdimarsdóttir, húsfreyja á Ísafirði og í Reykjavík, fædd í Æðey í Ísafjarðardjúpi 11. janúar 1902, d. 20. mars 1986.
Fyrrverandi eiginmaður Önnu var Sigurður Jónsson læknir, f. 10. nóvember 1939, d. 9. júní 2022. Börn þeirra eru: 1) Arnaldur, f. 16. október 1961, eiginkona hans er Bergljót Jónsdóttir, f. 4. mars 1964, sonur Arnaldar er Freyr, f. 4. apríl 1988, dóttir hans er Klara, f. 30. maí 2014. 2) Árdís, f. 5. ágúst 1966, dóttir hennar er Anna Sigríður, f. 20. nóvember 2006. 3) Olga, f. 25. apríl 1971, eiginmaður Halldór Másson, f. 16. október 1970, börn þeirra eru Daði, f. 9. janúar 1997, Hlín, f. 25. desember 2002, og Sölvi, f. 20. nóvember 2006.
Anna varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1958 og fór því næst í Kennaraskólann og var grunnskólakennari í Reykjavík á árunum 1959-1965. Anna sinnti heimilisstörfum og barnauppeldi á þeim árum sem hún fylgdi þáverandi eignmanni sínum í námi og störfum. Þau bjuggu m.a. á Hólmavík, í London, Malmö og Västerås í Svíþjóð. Anna lauk BA-prófi í ensku og sænsku frá Háskóla Íslands árið 1978, tók hluta náms við Háskólann í Uppsölum. Hún var stundakennari í sænsku bæði við Námsflokka Reykjavíkur og Háskóla Íslands. Árið 1983 útskrifaðist Anna sem bókasafnsfræðingur og starfaði lengst af á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, síðast sem deildarstjóri Tón- og mynddeildar þar til hún fór á eftirlaun árið 2008. Einnig starfaði hún um lengri eða skemmri tíma á Borgarbókasafni, Bókasafni Kennaraháskólans og Bókasafni Kópavogs. Að lokum var hún í hlutastarfi hjá Bókasafni Dagsbrúnar eftir að hún fór á eftirlaun.
Útför Önnu fer fram frá Neskirkju í dag, 20. febrúar 2025, klukkan 13.
Í dag kveðjum við ömmu okkar Önnu í síðasta sinn.
Amma var besta amma í heimi, hún var blíð, góð, áhugasöm, hlý og ströng en ekki of ströng, því að það er allt gott í hófi. Við systkinin munum best eftir ömmu heima á Ljósvallagötunni, þar sem hún sat á sínum stað við borðstofuborðið og leysti krossgátur. Þar fengum við Cheerios með hunangi. Þar var allt gott. Þær voru ófáar stundirnar sem við eyddum hjá ömmu, öll jólaboðin á annan í jólum, laufabrauðssteikingar og rjómapönnukökur á 17. júní, en þar að auki var amma líka dugleg að sækja okkur í skólann og eyða tíma með okkur. Hún var alltaf með nesti fyrir bílferðina úr Laugardalnum vestur í bæ. Fyrst hollt og svo gott. Amma var dugleg að lesa fyrir okkur, fræða um heimsins málefni og kenna okkur nýyrði. Mávurinn úti á Granda var í miklu uppáhaldi þegar haldið var af stað í ævintýri og voru ófáar ferðirnar sem byrjuðu þar.
Heima hjá ömmu mátti flest, ærsl og fjör, fótabað í baðherbergisvaskinum, trommusláttur á potta og pönnur, hamra og glamra á píanóið og leika sér að rokknum. Þess á milli spiluðum við slönguspil eða ólsen-ólsen, lásum saman og bökuðum. Amma varð aldrei reið og tók frekar þátt. Hún varð þó stundum þreytt og tók þá hálftíma lúr á meðan við gláptum á imbakassann, eins og hún kallaði hann. Stundum undraðist nágrannakonan að bara þrjú börn væru í heimsókn. Það var aldrei leiðinlegt hjá ömmu og var hún alltaf með einhver verkefni eða plön, þótt það væri ekki nema að pússa alla speglana hennar.
Við minnumst ömmu með mikilli hlýju og kærleik. Hún sýndi okkur alltaf mikla ást og umhyggju og verður hennar sárt saknað.
Hvíldu í friði, elsku amma okkar.
Daði, Hlín og Sölvi.
Elsku amma mín, eins mikið og það er sárt að þú sért farin er ég þakklát fyrir alla góðu tímana sem ég átti með þér. Takk fyrir að vera besta amma sem hægt er að hugsa sér, að kenna mér alls konar hluti og vera alltaf til staðar. Ég mun alltaf eiga minningar og hugsa um allar góðu stundirnar. Ég mun alltaf muna þegar þú sóttir okkur barnabörnin eftir skóla á miðvikudögum og við komum til þín að læra og svo borðuðum við saman. Alltaf muna hvernig þú vaktir áhuga minn á lestri og hvað það var gaman að tala um bækur við þig og góðu stundirnar þegar þú last fyrir mig áður en ég sofnaði á kvöldin, eftirminnilegar bækur eins og þjóðsöguna um Fóu og Fóu feykirófu og Grýlu gömlu og syni hennar. Öll þau samtöl sem við áttum um stjórnmál, um hvað væri í gangi í heiminum. Þar sem þú varst kennari var alltaf svo gott að geta komið til þín til að læra og fá hjálp og gott að leita aðstoðar hjá þér. Svo varstu snilldarkokkur og gerðir bæði besta hafragraut sem enginn hefur getað toppað og besta spagettí í heimi! Þú kenndir mér líka að baka, m.a. sörur fyrir jólin og grjónabrauð og margt annað. Það var svo gott að koma til þín á Ljósvallagötuna og fara með dúkkuvagninn út í gamla kirkjugarð og fela og leita að spýtum, þvílíkt ævintýri. En nú ertu farin yfir í Sumarlandið, laus við hjólastólinn og farin að ganga aftur á fjöll og hjóla um dali.
Þín nafna og ömmustelpa,
Anna Sigríður
Kristjánsdóttir.
Við Anna vinkona mín hittumst fyrst í sumarhúsi systur minnar og mágs, vinafólks Önnu. Bókasafnsfræði var eitt af sameiginlegum áhugamálum okkar. Þá var ég nemi í þeim fræðum og kom ekki að tómum kofunum hjá reynsluboltanum Önnu. Hún var vel heima í fjölbreyttum greinum og geirum fagsins. Við náðum strax saman og með okkur tókust góð kynni sem aldrei bar skugga á. Áður en langt um leið var ég komin í vinnu undir stjórn Önnu í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Þar var mikið um að vera enda stóðu yfir flutningar á safninu yfir í Þjóðarbókhlöðuna. Eftir þörfum skottaðist Anna á milli staða á reiðhjóli. Mér fannst hún töff.
Þjóðarbókhlaðan varð síðan vinnustaður okkar og jafnframt vettvangur vináttunnar. Þótt verksvið sköruðust ekki endilega var ævinlega gott og gagnlegt að leita til Önnu. Fagmennska, metnaður og örlæti á þekkinguna einkenndi störf hennar. Fyrir græningja í faginu var hún fyrirmynd, það gleymist ekki. Stoð mín og stytta. Ekki lá Anna heldur á liði sínu þegar kom að félagsstörfum stéttarinnar. Þar var hún virkur þátttakandi í hinum ýmsu félögum.
Eitt og annað var brallað utan vinnunnar. Anna var góð heim að sækja, hvort sem eitthvað bjátaði á eða tilefni gafst til að gleðjast. Samkomur bókavarða gátu líka verið býsna fjörugar, hvort sem var í Borgarfirði, á Akureyri, Selfossi eða á höfuðborgarsvæðinu. Að lokinni vandaðri fræðsludagskrá var gjarnan slett úr klaufunum. Við vorum til að mynda mörg í góðum selskap í Paradísarlaut í eftirminnilegu afmælisboði Þjónustumiðstöðvar bókasafna. Þá skartaði Norðurárdalur sínum fegurstu haustlitum og bókaverðir nutu sín aldeilis.
Anna hafði yndi af tónlist og um árabil bar hún ábyrgð á tónlistarsafni Landsbókasafns. Sinfóníutónleika sótti hún meðan tök voru á. Bókamanneskja var hún líka, las mikið og hlustaði á hljóðbækur. Hún var hreinskiptin, hafði sterkar skoðanir á þjóðmálum og fylgdist vel með bæði pólitík og dægurmálum. Það þurfti enginn að efast um hvar hjarta hennar sló.
Anna var vinur vina sinna. Ég kveð hana þakklát fyrir að hafa átt hana að, vináttu hennar og trygglyndi. Börnunum hennar og fjölskyldum þeirra votta ég einlæga samúð mína.
Hildur Gunnlaugsdóttir.
Í dag er kvödd Anna Jensdóttir, nánasta vinkona Heiðar konu minnar heitinnar og kær skólasystir okkar. Þær voru nágrannar á Skeggjagötunni frá þriggja ára aldri. Anna gisti oft hjá Heiði og móður hennar á virkum dögum þegar þær voru saman í barnaskóla vegna starfa föður Önnu við búrekstur utan Hafnarfjarðar. Þær voru síðan saman í gagnfræðaskóla, við öll í MR og útskrifuðumst 1958 og þær síðan saman Kennaraskólanum. Sigurður maður Önnu fór einnig í læknisfræði svo nærri má geta að samskiptin urðu náin.
Heimili Önnu, foreldranna Olgu og Jens var ætíð opið unga fólkinu sem var að draga sig saman með glæsilegum kaffiboðum.
Þau Sigurður fóru til Svíþjóðar til sérnáms hans en við hjónin til Bandaríkjanna. Þær voru duglegar við bréfaskriftir og fréttaflutning. Þegar Heiður fór í sumarleyfi til Íslands með börnin voru Anna og Sigurður heimsótt á Hólmavík þar sem hann var við læknisstörf. Eftir heimkomu voru gagnkvæm heimboð og farið í sameiginlegar útilegur og þær vinkonur í helgarferðir með Ferðafélaginu. Þau hjón skildu síðar.
Anna varð fyrir áfalli 2021 sem olli helftarlömun og varð síðan ófær til gangs en hélt áfram sínu stálminni og góða skapi.
Hún hafði gaman af að rifja upp ánægjulega för þeirra Heiðar og þriðju vinkonu til Æðeyjar eftir stúdentspróf. Hún mundi atvik úr afmælisveislu fyrir 60 árum. Hún minnti á að þær Heiður buðu okkur eiginmönnunum á málsverð á Hótel Holti þegar við báðir áttum fertugsafmæli í sama mánuði.
Það var mér mikil huggun að líta til Önnu á heimili hennar og síðar á hjúkrunarheimili í veikindum og eftir lát konu minnar og ég mun minnast hennar með söknuði og sendi börnum hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Birgir Guðjónsson.