Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Bakvörður dagsins var viðstaddur þegar Víkingur úr Reykjavík vann magnaðan sigur á Panathinaikos í fyrri leiknum í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar karla í fótbolta fyrir viku í Helsinki.
Það var stórkostlegt að sjá Víking vinna verðskuldaðan sigur á gríska stórliðinu. Eina svekkelsið var að munurinn hafi ekki verið meiri en eitt mark en lokatölur voru 2:1.
Aðstæður gátu varla verið betri fyrir Víkinga því leikmönnum Panathinaikos gat varla liðið verr. Gervigras, rok og mikið frost. Sverrir Ingi Ingason miðvörður liðsins hefur áður spilað í slíkum aðstæðum en það er ólíklegt að nokkur samherji hans hafi gert slíkt.
Þrátt fyrir að hafa alla tíð búið á Íslandi voru aðstæður einstakar fyrir ofanritaðan. Hann ætlaði aldeilis að textalýsa leiknum með tilþrifum fyrir mbl.is, þrátt fyrir að geta varla hreyft á sér puttana sökum frosts.
Það fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina þegar ofanritaður komst að því að hann gleymdi hleðslutækinu fyrir tölvuna uppi á hóteli. Góðu fréttirnar voru þær að nóg var eftir af rafhlöðunni á tölvunni. Slæmu fréttirnar voru þær að tölvan drap á sér eftir 20 sekúndur af leiknum og kveikti ekki á sér, sama hvað bakvörður reyndi. Hún hreinlega drapst úr kulda.
Í slíkum aðstæðum kveikir tölvan ekki á sér nema henni sé stungið í samband en það var ekki í boði. Sem betur fer stökk vinnufélagi bakvarðar til og lýsti leiknum með glæsibrag. Hann var verðlaunaður með ferð til Aþenu á seinni leikinn. Algjörlega verðskuldað.
Það var lán í óláni að tölvunni leið illa í finnska frostinu. Bakvörður hefði í þrjóskunni lýst leiknum og mögulega fórnað tíu puttum í leiðinni, því honum hefur aldrei verið eins kalt. Sem betur fer var honum hlýtt í hjartanu, þar sem hann varð vitni að einum stærsta sigri sem íslenskt félagslið hefur unnið.