„Það er allt frágengið. Það kom hingað maður á þeirra vegum og kíkti á allt sem var bilað eða ónýtt. Hann var snöggur að meta þetta. Við sendum svo reikning fyrir nýjum tækjum og viðgerðum á öðrum. Þetta var allt saman greitt steinþegjandi og hljóðalaust,“ segir Selma Dröfn Ásmundsdóttir sem rekur gistiheimilið Stöng í Mývatnssveit.
Selma varð fyrir umtalsverðu tjóni þegar mikil truflun varð á raforkukerfi landsins 2. október síðastliðinn. Tjónið varð sýnu mest hjá fólki og fyrirtækjum í Mývatnssveit. Fram hefur komið að Selma og fjölskylda hennar mat sitt tjón á um tíu milljónir króna en algengt var að einstaklingar hefðu orðið fyrir tjóni upp á hundruð þúsunda. Fólkið sem varð fyrir tjóni var í fyrstu afar ósátt við viðbrögð Rarik, Landsnets og Sjóvár, tryggingafélags Landsnets. Þá tók Rarik yfir öll samskipti og umsýslu vegna tjónatilkynninga og komust mál þá í betri farveg.
Selma segir að þeir sem hún hafi rætt við í sveitinni hafi nú sömuleiðis fengið alla sína reikninga greidda. „Miðað við hvernig þetta fór af stað erum við bara sátt. Þeir lokuðu þessu alla vega með stæl,“ segir hún. hdm@mbl.is