Innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur haft lítil áhrif á vilja evrópskra vinnsla til að stunda viðskipti með rússneskt sjávarfang ef marka má gagnagrunn markaðseftirlitsstofnunar Evrópu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir (EUMOFA)

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur haft lítil áhrif á vilja evrópskra vinnsla til að stunda viðskipti með rússneskt sjávarfang ef marka má gagnagrunn markaðseftirlitsstofnunar Evrópu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir (EUMOFA).

Þar má sjá að ríki Evrópusambandsins hafa frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar 2022 flutt inn að minnsta kosti 492.294 tonn af rússnesku sjávarfangi frá Rússlandi, þar af eru þorskafurðir 45,6% og afurðir úr alaskaufsa 42,5%. Stór hluti þessa afurða er fiskur sem er unninn í ríkjum Evrópusambandsins.

Verðmæti viðskiptanna var 2.189,3 milljónir evra, jafnvirði um 322 milljarða íslenskra króna, á tímabilinu mars 2022 til og með september 2024, ekki hafa verið birt nýrri gögn en það.

Helstu kaupendur rússneskra sjávarafurða á tímabilinu mars 2022 til og með september 2024 voru Hollendingar sem fluttu inn 142 þúsund tonn að verðmæti 693,5 milljónir evra. Á eftir fylgja Þjóðverjar með 96 þúsund tonn, svo Pólverjar með 77,9 þúsund tonn. Þá fluttu Frakkar inn tæplega 66 þúsund tonn af rússneskum sjávarafurðum á tímabilinu. Í þessum ríkjum eru ekki aðeins stórir markaðir fyrir afurðirnar heldur eru þar einnig stór fiskvinnslustarfsemi.

Breyttir tollar

Undanfarið hafa Norðmenn sætt harðri gagnrýni af hálfu evrópskra útgerða og fiskframleiðenda fyrir innflutning sinn á rússneskum fiski til vinnslu þar í landi sem síðan er seldur á Evrópumarkaði.

Fyrsta janúar 2024 tóku gildi útflutningstollar á sjávarafurðir í Rússlandi til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu. Samhliða innleiddi Evrópusambandið 13% innflutningstoll á rússneskar sjávarafurðir sem lið í efnahagsaðgerðum gegn Rússlandi. Glufa hefur hins vegar verið fyrir rússneskt sjávarfang inn á Evrópumarkað í gegnum Noreg þar sem fiskveiðisamningar Norðmanna og Rússa heimila rússneskum skipum að landa afla í Noregi tollfrjálst, svo er heldur enginn tollur á afurðir sem fluttar eru frá Noregi til Evrópusambandsins.

Samhliða hafa sífellt færri hafnir viljað taka við rússneskum skipum vegna gruns um njósnir og hættu á skemmdarverkum. Hafa norsk félög þjónustað Rússa með því að umskipa rússneskum afla á hafi úti. Umfangið er ekki þekkt en ljóst þykir að flutningsleiðir rússnesks fisks á Evrópumarkað hafa orðið flóknari en áður, en rússnesk skip eru enn velkomin í norskum höfnum.

Hörð gagnrýni

Fiskveiðinefnd Evrópuþings hélt sérstakan fund 28. janúar síðastliðinn um stöðu samskipta Evrópusambandsins og Noregs með tilliti til fiskveiða. Tilgangur fundarins, sem haldinn var fyrir opnum dyrum í Brussel, var að rýna í núverandi fiskveiðisamninga Evrópusambandsins og Noregs og yfirstandandi fiskveiðideilur.

Meðal þess sem bar á góma af hálfu talsmanna evrópskra útgerða og vinnslustöðva var meint markaðsskekkja sem hefði myndast í samkeppni um hráefni með tollfrjálsum innflutningi á rússnesku sjávarfangi til Noregs.

Í yfirlýsingu í byrjun mánaðar sökuðu samtök portúgalskra þorskframleiðenda, Associação dos Industriais do Bacalhau (AIB), Norðmenn um siðleysi og ósanngirni og fordæmdu í yfirlýsingu tollfrjálsan innflutning rússnesks þorsks í gegnum Noreg. Var því haldið fram að Norðmenn væru með viðskiptum sínum að auka tekjur Rússlands af útflutningi sjávarafurða og þannig fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu.

Kaup norskra aðila á rússneskum fiski jukust á síðasta ári og var innflutningur á rússneskum þorski til Noregs á fyrstu níu mánuðum 2024 heil 21.746 þúsund tonn, sem er 128% meira magn en flutt var til Noregs allt árið 2023.

Kaupa sjálfir rússneskan þorsk

Heildarinnflutningur á rússneskum þorski til Evrópusambandsins frá mars 2022 til september 2024 var rúmlega 224 þúsund tonn. Var verðmætið 1.239,8 milljónir evra sem gerir að meðaltali tæpar 5,52 evrur á kíló (813), hefur meðalverð lækkað ár frá ári á tímabilinu og var 6,15% lægra á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 en 2022. Vert er að geta þess að afurðirnar geta verið á ólíku vinnslustigi.

Flutt voru til Evrópusambandsins 58,6 þúsund tonn af þorskafurðum frá Rússlandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, sem er aðeins um 4 þúsund færri tonn en á sama tímabili 2023.

Þá var heildarinnflutningur á rússneskum alaskaufsa til Evrópusambandsins frá mars 2022 til september 2024 rétt rúmlega 209 þúsund tonn. Auk þess voru fluttar til ríkja Evrópusambandsins um 350 þúsund tonn af alaskaufsa frá Kína, en talið er að megnið af þessum fiski eigi uppruna sinn í Rússlandi.

Deila framleiðenda innan Evrópusambandsins og Noregs í tengslum við rússneska fiskinn er því frekar háð því hvort norskar vinnslur þurfi að greiða toll af innflutningnum fremur en fjármögnun ólögmæts innrásarstríðs í Úkraínu.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson