Kjartan Magnússon
Óstjórn hefur ríkt í málefnum Reykjavíkurborgar mörg undanfarin ár undir stjórn vinstri meirihluta. Ólíklegt er að ástandið batni við það að nýr meirihluti taki við sem er enn lengra til vinstri en hinn gamli. Gildir þá einu hvort litið er til fjármála, húsnæðismála, skólamála, dagvistarmála, skipulagsmála eða samgöngumála.
Stjórn borgarinnar hefur verið í lamasessi undanfarnar tvær vikur vegna stjórnarkreppu. Á fundi borgarstjórnar síðastliðinn þriðjudag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram átján tillögur um margvísleg borgarmál. Er þeim ætlað að taka á ýmsum aðkallandi málum varðandi þjónustu við Reykvíkinga og knýja fram nauðsynlegar umbætur í rekstri borgarinnar. Tillögurnar eru eftirfarandi:
Ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem tryggi flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli og festi hann í sessi út skipulagstímabilið, 2040.
Vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins verði endurskoðuð með hliðsjón af uppfærðri mannfjöldaspá og aukinni eldvirkni á Reykjanesskaga. Skilgreindir verði kostir í þágu aukinnar húsnæðisuppbyggingar í Reykjavík.
Stóraukið framboð lóða
Hafist verði handa við skipulagningu nýs íbúðahverfis við Halla og í Hamrahlíðarlöndum í Úlfarsárdal. Stefnt verði að því að úthlutun lóða í hverfinu hefjist árið 2026.
Hafist verði handa við skipulagningu blandaðrar byggðar á Geldinganesi með áherslu á húsnæði fyrir almenning á viðráðanlegu verði.
Snjallvæðingu umferðarljósa í Reykjavík verði hraðað í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði.
Nýjar lausnir í dagvistarmálum
Leikskóla- og daggæslurýmum verði fjölgað, t.d. með því að leita eftir samstarfi við reykvíska vinnustaði um rekstur þeirra. Fyrirtækjum og stofnunum gefist kostur á að opna daggæslu, eða eftir atvikum leikskóla, fyrir börn starfsfólks.
· Reykjavíkurborg taki upp heimgreiðslur, 200 þúsund kr. á mánuði, til foreldra sem annaðhvort þurfa eða kjósa að að vera heima með börn sín, að loknu fæðingarorlofi til allt að tveggja ára aldurs.
Ólíkar leiðir til lausnar skipulagsklúðrinu við Álfabakka verði skoðaðar og kostnaðarmetnar.
Óháðir sérfræðingar geri stjórnkerfisúttekt á borgarkerfinu og komi með tillögur um hagræðingu í rekstri.
Hagrætt verði í stafrænni umbreytingu, m.a. með áherslu á ábatagreiningu verkefna. Fjárfesting þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar verði lækkuð úr 1.600 milljónum króna í 1.000 milljónir á árinu.
Ekki verði um frekari ráðningar að ræða innan miðlægrar stjórnsýslu borgarinnar út kjörtímabilið en áhersla lögð á að manna störf í framlínu og þjónustu vegna lögbundinna verkefna.
Hagræðing og sparnaður
Hagrætt verði í stjórnsýslu með því að sameina velferðarráð og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð. Verkefni Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur verði flutt til velferðarsviðs.
Hagrætt verði um 100 milljónir króna á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara með sparnaði í upplýsinga- og samskiptamálum.
Ráðist verði í gagngera endurskipulagningu á rekstri Félagsbústaða í því skyni að ná fram sjálfbærni í rekstri.
Ljósleiðarinn ehf. verði seldur og söluandvirðið nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað Reykjavíkurborgar, ásamt því að fjárfesta í innviðum.
Undirbúningur verði hafinn að sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða, borgarfyrirtækis í samkeppnisrekstri.
Bílastæðahús í eigu Reykjavíkurborgar verði seld en tryggt að áfram verði þar rekin bílastæðaþjónusta og önnur þjónusta við bíleigendur. Söluandvirðið verði nýtt til að lækka skuldir.
Ráðist verði í rekstrarútboð á sorphirðu Reykjavíkurborgar í áföngum.
Aðgerða er þörf
Borgarfulltrúar þeirra fimm flokka sem nú vinna að myndun nýs meirihluta komu sér hjá því að taka afstöðu til allra áðurnefndra tillagna á borgarstjórnarfundinum síðastliðinn þriðjudag með því að fresta afgreiðslu þeirra.
Of lengi hafa málefni Reykjavíkurborgar verið látin reka á reiðanum. Á síðasta þriðjungi kjörtímabilsins verður borgarstjórn að taka á þeim vandamálum sem við er að etja í rekstri borgarinnar og í þjónustu við borgarbúa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum, eins og áðurnefndar tillögur bera með sér.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.