Í Aþenu
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Taugarnar eru bara mjög slakar myndi ég segja. Undirbúningurinn er búinn að ganga rosa vel. Við erum búnir að hafa góðan tíma til þess að undirbúa okkur hérna í Grikklandi,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á Ólympíuleikvanginum í Aþenu í gær.
Víkingur mætir gríska stórliðinu Panathinaikos í síðari leik liðanna í umspili um sæti í 16 liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu á leikvanginum í kvöld. Víkingar gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrri leikinn, heimaleik sinn, í Helsinki í Finnlandi fyrir sléttri viku. Þar urðu lokatölur 2:1.
„Við erum búnir að vera með skemmtilegar æfingar. Við flugum hingað daginn eftir leik í Helsinki og tókum svo æfingu daginn eftir það þar sem var bara svona skemmtilegt. Skallatennis, gott veður og menn voru berir að ofan á æfingu, sem er eitthvað sem hefur ekki gerst í langan tíma.
Þeir fengu nóg af D-vítamíni með sér. Síðan tókum við frí daginn eftir það og tókum menningarferð inn í Aþenu og skoðuðum Akrópólishæð. Þannig að menn eru bara búnir að njóta sín dálítið eftir síðustu viðureign og taka því rólega.
Síðustu þrjá daga hafa verið hörkuæfingar til þess að koma sér aftur í gang og það gengur rosalega vel. Ég er bara bjartsýnn og frekar slakur eins og staðan er núna,“ bætti Sölvi við.
Þrír lykilmenn snúa aftur
Víkingur endurheimtir þrjá leikmenn frá fyrri leiknum. Fyrirliðinn Nikolaj Hansen og Karl Friðleifur Gunnarsson snúa aftur eftir að hafa tekið út leikbann og Gunnar Vatnhamar hefur jafnað sig á meiðslum.
„Það eru allir nema einn leikfærir sem eru með okkur núna. Vissulega eru Atli [Þór Jónasson] og Róbert [Orri Þorkelsson] heima, þeir voru ekki klárir í þetta verkefni. Því miður gátum við ekki tekið þá með okkur út, það var ekki hægt í þetta skiptið. Það hefði verið gaman að hafa þá samt sem áður hérna úti.
Gunnar Vatnhamar er búinn að æfa með okkur á fullu síðan við komum út. Hann er búinn að fá heilar æfingar í nokkra daga og er leikfær. Það vantar að sjálfsögðu aðeins upp á leikformið hans. Hann er búinn að vera frá í tvo mánuði en það er aldrei að vita hvort við getum nýtt hann á morgun [í kvöld].
Eini leikmaðurinn sem er með Víkingum í Aþenu en mun ekki spila er Pablo Punyed sem er hægt og bítandi að jafna sig á krossbandsslitum í hné.
„Hann er með okkur úti núna en er alls ekki leikfær. Hann fór með okkur út því hann er stór karakter í hópnum og mikill leiðtogi. Við þurfum á allri hjálp sem við getum fengið að halda. Að fá hann með út var mjög gott fyrir hópinn.
Það er ekki spurning. En það er líka ánægjulegt að sjá að hann er byrjaður að sparka í bolta og er búinn að vera í hinum og þessum boltaæfingum, sem er rosalega skemmtilegt þegar maður er búinn að vera lengi frá. Það er gaman að sjá hann aftur í takkaskónum,“ útskýrði þjálfarinn.
Hrein unun að horfa á
Eins stórt og verkefnið var síðast má vænta þess að það verði enn stærra í kvöld á heimavelli Grikkjanna. Spurður hvernig hafi gengið að stilla af spennustigið fyrir stóru stundina sagði Sölvi:
„Það er náttúrlega alltaf stór hluti af þessu, hvernig spennustig þú kemur með inn í leikinn. Þetta er rosaleg kúnst að vera með rétt spennustig. Þú mátt ekki vera yfirspenntur og mátt ekki vera of slakur.
En eins og við spiluðum síðasta leik var spennustigið hárrétt og hvernig leikmennirnir lögðu allt í þann leik var hrein unun að horfa á. Mér er búið að líða mjög vel með allt hvernig undirbúningurinn er búinn að vera.
Mér finnst spennustigið vera akkúrat eins og það á að vera. Ég vona bara að við náum að sýna sömu frammistöðu og við náðum í fyrri leiknum. Auðvitað þarftu líka alltaf að líta inn á við og vera svolítið krítískur á þig þó það gangi vel og leita leiða til þess að bæta þig og bæta síðustu frammistöðu.
Þó að síðasta frammistaða hafi verið mögnuð þá getum við alltaf gert betur og við reynum að finna leiðir til þess að gera enn betur en við gerðum síðast. Við ætlum okkur að gera það á morgun [í kvöld].“
Svipað upplegg
Hann reiknar með því að leggja leikinn í kvöld svipað upp og hann gerði í þeim fyrri.
„Já, það verður svipað leikplan. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum að mæta rosalega sterku liði og verðum að bera virðingu fyrir því. Við verðum að verjast saman sem lið í gegnum allan leikinn. Við megum ekki hleypa þessum leik upp í einhvern eltingarleik eða fram og til baka, svona óreiðukenndan leik.
Þá fá þeir stór svæði og með svona gæðamikla leikmenn eins og þeir búa yfir mun það ekki henta okkur. Við munum reyna að vera þéttir eins og við vorum í fyrri leiknum og að sama skapi að bæta okkur aðeins á boltanum þegar við vinnum hann.
Við reynum að taka réttar ákvarðanir, vita hvenær við eigum að fara í árás og hvort við eigum að halda aðeins lengur í boltann. Þetta eru lítil smáatriði sem við erum búnir að vera að vinna með og höfum sýnt á fundum í hverju við getum bætt okkur. Vonandi gengur það allt upp á morgun [í kvöld].“
Bjartsýnn og vongóður
Ertu bjartsýnn á að Víkingur haldi áfram að skrifa söguna og fari áfram?
„Já, það þýðir ekkert annað. Auðvitað er maður bjartsýnn og vongóður. Maður verður að trúa á það sem maður er að gera. Það væri skrítið að fara inn í þetta haldandi það að maður kæmist ekki áfram. Við erum fullir bjartsýni og með gott sjálfstraust eftir fyrri leikinn.
Við vitum hverju við erum að mæta en erum samt sem áður viðbúnir því að þeir gefi ennþá meira í og þá þurfum við að vera með kveikt á okkur eins og í fyrri leiknum,“ sagði Sölvi að lokum í samtali við Morgunblaðið í grísku höfuðborginni.