Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Frumvarp sem kveður á um fækkun sýslumannsembætta í eitt hefur verið lagt fram á Alþingi, en flutningsmaður er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra. Auk hans er Hildur Sverrisdóttir þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins flutningsmaður frumvarpsins

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Frumvarp sem kveður á um fækkun sýslumannsembætta í eitt hefur verið lagt fram á Alþingi, en flutningsmaður er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra. Auk hans er Hildur Sverrisdóttir þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins flutningsmaður frumvarpsins. Mælir frumvarpið fyrir um að aðsetur sýslumanns verði á Húsavík í Norðurþingi, en eitt útibú á höfuðborgarsvæðinu og á 24 stöðum á landsbyggðinni.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að Jón hafi haft hug á að leggja þetta frumvarp fram þegar hann gegndi embætti dómsmálaráðherra, en af því varð ekki. Guðrún Hafsteinsdóttir, arftaki hans í embætti, gerði frumvarpið ekki að sínu og hefur það legið óhreyft þar til nú.

Í frumvarpinu er lagt til að umdæmismörk sýslumannsembættanna verði lögð niður í núverandi mynd og landið allt verði gert að einu þjónustuumdæmi með svæðisbundinni skiptingu undir yfirstjórn eins sýslumanns, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu við almenning.

Frumvarpið kveður á um að breytingin taki gildi 1. janúar á næsta ári og að öll störf hjá sýslumannsembættunum verði þá lögð niður. Verði starfsfólki embættanna boðið starf hjá hinu nýja embætti sýslumanns. Verði frumvarpið að lögum fækkar sýslumannsembættum úr níu í eitt.

Meginmarkmið frumvarpsins eru þrjú, að því er fram kemur í greinargerð; bætt þjónusta, bætt stjórnun og rekstur og aukið framboð opinberrar þjónustu í héraði. Ætlunin er að stuðla að hraðari innleiðingu stafrænna lausna við framkvæmd verkefna, ásamt því að skapa tækifæri til að nýta fjárhagslega hagræðingu sem fylgir breyttri framkvæmd í þágu þjónustuþega og frekari uppbyggingar embættisins.

„Frumvarpið er teiknað upp þannig að störfum á landsbyggðinni mun fjölga, húsnæði verði nýtt betur og með aukinni stafrænni þjónustu mun draga úr vægi skrifstofanna úti á landi, nema til þeirra verði flutt önnur vekefni og vinnulag verði samræmt á milli skrifstofanna,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

Jón bendir á að fram hafi komið álit fjármálaráðuneytisins o.fl. um að fækka þurfi örstofnunum. Með samþykkt frumvarpsins yrði fámennum embættum sem hefðu ekki burði til að sinna nútímastjórnsýslu fækkað sem myndi leiða til hagræðingar í rekstri, betri þjónustu og sparnaðar, sem gæti numið hundruðum milljóna á ári.

Ástæðu þess að frumvarpið var ekki lagt fram í ráðherratíð Jóns í dómsmálaráðuneytinu segir hann vera þá að þingmenn Framsóknarflokksins, sem mynduðu stjórnarmeirihluta með Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum, hafi lagst gegn frumvarpinu. Segir Jón að sú andstaða hafi verið á misskilningi byggð.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson