Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Langur tími mun líða og miklar rannsóknir og þróunarstarf þarf áður en hægt er að endurskapa mannlega greind í tölvu. Þekkingin kemur stig af stigi eftir því sem rannsóknum vindur fram. Þá er skilningur almennings – og stundum líka sérfræðinga – á nútíma gervigreindartækni oft gloppóttur. Gjarnan lítur fólk á tæknina ekki út frá nútímanum heldur því sem það ímyndar sér að hún gæti orðið í framtíðinni. Þetta getur valdið misskilningi á bæði hættum og tækifærum.
Viðurkenningar og verkefni
Hér talar Kristinn R. Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann er jafnframt meðstofnandi og -stjórnandi Gervigreindarseturs HR (CADIA) sem er 20 ára um þessar mundir. Upp á þau tímamót verður í ár haldið með ýmsu móti, svo sem tveimur alþjóðlegum ráðstefnum. Þá má geta þess að rannsakendur setursins hlutu nýlega tvenn verðlaun á sviði alhliða gervigreindar á ráðstefnu í Seattle í Bandaríkjunum. Þau féllu í skaut tveimur doktorsnemum Kristins við HR.
„Viðurkenningin sýnir hvað við í HR stöndum framarlega,“ segir Kristinn. „Þetta eru bæði grunnrannsóknir og þegar lengra er komið hagnýt verkefni sem unnin eru með fjölda aðila bæði hér heima og erlendis, með tilstyrk til dæmis frá ESB. Við vinnum líka með Vitvélastofnun Íslands, sjálfseignarstofnun sem helguð er þróun á opnum gervigreindarhugbúnaði. Þá er tölvunarfræðideild HR að opna fyrir umsóknir um nýja M.Sc.-gráðu í gervigreind; nám sem hefst nú í haust. Hér er mikið að gerast.“
Nálgast greind í náttúrunni
Áleitnum spurningum um gervigreind er oft og víða varpað fram. Að sumu leyti hefur hugtakið yfir sér dulúð; gervigreind er vísindalegt rannsóknarsvið sem til varð í Bandaríkjunum árið 1956 í þeim tilgangi að svara hvort hægt sé að búa til vél sem hugsar.
„Þetta rannsóknarsvið hefur þróast í takt við tölvunarfræðina. Margir þeirra sem lögðu hugmyndir í púkk við þróun tölva um miðja síðustu öld eru einnig hugmyndasmiðir gervigreindarrannsókna. Tölvan er eina ástæðan fyrir því að hugmyndin um greindarvélar á sér fótfestu, án hennar væri slík tækni nánast óhugsandi. Tölvan gerir okkur mögulegt að prófa ýmsar nálganir við hvernig greind í náttúrunni virkar. Framþróun vísindalegrar þekkingar á fyrirbærinu greind hefur alla tíð haldist í hendur við vonir um hagnýtingu. Þetta tvennt er þó alls ekki hið sama,“ segir Kristinn og heldur áfram:
„Rannsóknir á fyrirbærinu greind eru aðeins framleiðsla á nýrri grunnþekkingu. Hagnýting á þeirri þekkingu er svo annað skref sem krefst annarra aðferða. Lausnir koma oft fram á sjónarsviðið áður en heildrænn vísindalegur skilningur liggur fyrir, hvert sem fyrirbærið er. Flugvélar til dæmis komu til sögu áður en vísindalegur skilningur á eðlisfræði flugsins varð til. Viss þekkingargrunnur er þó alltaf nauðsynlegur til að gera hagnýtingu á vísindalegum hugmyndum mögulega. Hugmyndir um gervitauganet – tæknina á bak við vinsælustu gervigreindartækni nútímans – má rekja minnst 80 ár aftur í tímann. Þá er nýting á hugmyndum um hvernig virkja megi gervitauganet til ýmissa verka á fleygiferð. Þetta segir samt lítið sem ekkert um hvernig mannshugurinn virkar. Þekking til að framleiða alhliða greind er takmörkuð enn sem komið er.“
Tæknin er hættulítil
Hér í Morgunblaðinu nærri síðustu áramótum var talað við hóp fólks sem beðið var um að leggja mat á framtíðarhorfur og tækniþróun. Áberandi var þar, viðmælanda á meðal, að gervigreind væri nú að yfirtaka margt og því þyrfti að vera á verði. – Samfélag og stjórnmál þurfi að taka ákvarðanir ef tæknibylting verði til þess að stór hluti starfa sjálfvirknivæðist. Heimurinn kallar því eftir lausnum á því hvernig tryggja eigi almenningi framfærslu í veröld sem þróast hraðar en nokkru sinni fyrr, sagði Sveinn Gauti Einarsson verkfræðingur í Hafnarfirði, einn þeirra sem rætt var við.
„Þeir sem nú vara við gervigreind eru yfirleitt ekki meðvitaðir um hvað þetta fyrirbæri er komið skammt á veg borið saman við náttúrulega greind,“ segir Kristinn. „Einhverjir ímynda sér að vél með raunverulega greind muni mögulega framkallast inni á rannsóknarsetrum í nánustu framtíð, þá kannski sem ófyrirséð hliðarverkun af flækjustigi. Þetta er meingölluð röksemdafærsla. Hefðu geimferðir til dæmis orðið til sem hliðarverkun af þróun flugelda í Kína til forna? Auðvitað ekki. Með því er þó ekki sagt að tæknin sem við búum yfir nú sé með öllu hættulaus. Váin er þó mun minni en ýmsar aðrar nýjungar, til dæmis í erfðaverkfræði og veirurannsóknir.“
Hallar á þjóðfélagið
Upphaf gervigreindarkerfa nútímans má rekja til rannsókna sem heita „cybernetics“ og hófust fyrir um 100 árum. Síðan þá hefur aukin reiknigeta og aðgangur að reikniafli gert tæknirisum, sem hafa aðgang að gífurlegu magni gagna, mögulegt að framleiða kerfi sem eru mjög öflug í sjálfvirkri mynstursgreiningu. Spunagreind, eða generative AI eins og hún kallast á ensku, er sú tegund gervigreindar sem umræður snúast helst um.
„Spunagreind hallar á þjóðfélagið; er meira til meins en góðs. Slíkt höfum við séð til dæmis í misbeitingu hennar á samfélagsmiðlum og óbeina árás á listgreinar svo sem tónlist, ljósmyndun og grafíska hönnun. Við þurfum grunnrannsóknir á neikvæðum þáttum gervigreindar sem nú nálgast að vera jafn sjálfsögð og til dæmis farsímar. En svo gervigreind verði jafn ómissandi og símarnir þarf þessi tæknin að vera meðfærilegri og fyrirsjáanlegri en nú. Slíkt mun eflaust gerast, en á hvaða tímapunkti og hvernig er háð mörgum þáttum; svo sem framförum í grunnrannsóknum,“ segir Kristinn að síðustu.