Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Söngkonan Bríet er ein vinsælasta tónlistarkona landsins. Hún spilaði fyrst og söng fyrir matargesti á Íslenska barnum í Reykjavík þegar hún var 15 ára, en kom í raun ekki fram opinberlega fyrr en þremur árum síðar, þegar hún hélt tónleika með eigin efni á Kaffi Flóru í Laugardal. Síðan hefur hún samið hvern smellinn á fætur öðrum og fengið fjölda viðurkenninga. Hún var útnefnd söngkona og textahöfundur ársins 2021 og Kveðja, fyrsta breiðskífa hennar, var þá valin plata ársins 2021, hún hefur verið verðlaunuð í bak og fyrir og haldið tónleika fyrir misjafna aðdáendahópa heima og erlendis, en nú er loks komið að tónleikum fyrir yngstu aðdáendurna, fjölskyldutónleikum.
Tími kominn fyrir börnin
„Ég hef oft spilað á barnaskemmtunum en aldrei haldið almennilega tónleika fyrir börnin og fannst tími til kominn,“ segir Bríet um fjölskyldutónleikana í Salnum í Kópavogi laugardaginn 15. mars. Þegar hún skemmti börnum gefi hún sér tíma til að spjalla við þau og leyfi þeim þannig að vera með. Þetta verði því öðruvísi tónleikar en venjulega. „Með tónleikunum vil ég sýna þeim hvernig tónleikar eru og hvernig þeir virka. Einblína á stundina með þeim og foreldrum þeirra. Hafa allt sem eðlilegast. Þegar ég spila fyrir börn er ég til dæmis oft með striga uppi á sviði og mála á meðan, hef þetta heimilislegt.“
Að undanförnu hefur Bríet haldið sig fjarri skarkalanum og einbeitt sér að því að semja lög í sveitakyrrð landsins. Hún segist oft mála málverk þegar hún skapi tónlist. „Það er gott að horfa á liti á meðan maður heyrir hljóð,“ segir listakonan. Hún hafi lengi haft gaman af því að mála og stefni á sýningu innan skamms. „Þá sýni ég þessi verk sem hafa tengst tónlist minni í gegnum tíðina.“
Bríet segir að tónleikar sem slíkir séu mest gefandi í starfinu. „Þá horfi ég í augun á fólki sem hefur keypt sér miða, fólki sem mér þykir vænt um. Tónleikar eru aldrei eins og ég hef lagt mikið upp úr fjölbreytninni, hvort sem um er að ræða umgjörðina, lögin eða fötin. Ég reyni að bjóða fólk velkomið í nýjan heim hverju sinni. Í nýtt ferðalag. Tilfinningasveiflur mínar eru mismunandi frá einum tíma til annars og það er ástæðan fyrir því að alltaf er svigrúm fyrir nýja tónleika.“
Textar Bríetar eru jafnt á íslensku og ensku með fjölbreyttan áheyrendahóp í huga og hún hefur verið mjög afkastamikil. „Það er plata á leiðinni,“ upplýsir hún. „Það eru tíu ár síðan ég byrjaði í þessari yndislegu vinnu. Ég er komin með sérlega þétt teymi og við njótum þess að hittast og spila án þess endilega að vera að æfa.“ Hún segir að fyrstu tónleikarnir séu mjög eftirminnilegir og hún sé mjög spennt fyrir fjölskyldutónleikunum. „Nú get ég loks gefið börnunum svigrúm til að spjalla við mig og standa upp í stólunum og dansa.“