Satíruhöfundur Þjóðverjinn Erich Kästner.
Satíruhöfundur Þjóðverjinn Erich Kästner. — Ljósmynd/Fritz Basch, Nationaal Archie
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Leiðin í hundana ★★★★★ Eftir Erich Kästner. Elísa Björg Þorsteinsdóttir íslenskaði. Ugla, 2024. Kilja, 268 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Mannkynið veit ekki lengur sitt rjúkandi ráð, segir Fabian, 32 ára gömul aðalpersóna Leiðarinnar í hundana, þegar hann rekst á gamla skólastjórann sinn. Fabian hefur misst vinnuna og er eins og stefnulaust rekald í lífinu; hann hefur hrakist frá Berlín heim á æskuslóðir og skólastjórinn gefur honum ráð: „Þér verðið að fylla upp í persónuleikann!“

En persónan sú, sem skólastjóranum finnst eitthvað illa uppfyllt – hann segir Fabian alltaf hafa verið einn besta nemandann en líka einn þann ósvífnasta – hefur nú heillað lesendur í næstum heila öld. Og það er fengur að því að hún sprangi nú loksins um og tali á íslensku, þótt seint sé; Leiðin í hundana kom fyrst út árið 1931 og er eitt þekktasta skáldverk millistríðsáranna í Þýskalandi. Fjallað er um þá rótlausu og ólgandi umbrotatíma sem árin kringum 1930 voru þar í landi. Berlín er að mestu sögusviðið, heimskreppan var skollin á og óðaverðbólga brenndi upp eignir, fólk missti atvinnu unnvörpum og alls staðar voru átök, í atvinnulífinu sem stjórnmálum, og skemmtanalífið var skrautlegt í meira lagi, þar sem siðferðilegar hömlur gáfu undan og vonbrigðin og reiðin sem kraumaði fékk útrás í látlausu djammi og taumlausu kynlífi. Af þessu ástandi, þar sem nasisminn var að skjóta rótum, dró höfundurinn Erich Kästner (1899-1974) upp einstaka mynd í sögunni, sem er eitt hans dáðasta verk.

Þetta er þriðju persónu frásögn og hefðbundin í formi, en skrifuð af mikilli snerpu. Lesandinn kynnist Fabian þar sem hann situr á kaffihúsi og les fyrirsagnir blaðanna og þar eru eintómar hörmungar, persónulegar og samfélagslegar, og hann spyr þjóninn einfaldrar spurningar sem á samt svo vel við söguna alla: „Á ég að fara eða ekki?“ Hann fer og ferðalagið um líf þessara tíma í Berlín hefst og okkur er boðið með. Fabian vinnur í upphafi við auglýsingagerð, tekur þar snúning á sköpun blekkingarheims kringum sígarettuframleiðslu, og smám saman tínast litskrúðugar persónurnar inn í söguheiminn, kostulegur og siðspilltur yfirmaðurinn sem Fabian hæðist að, hinn kæri og viðkvæmi vinur hans Labude, sem er af efnuðu áhrifafólki kominn en hefur árum saman puðað við að skrifa bókmenntaritgerð, stúlka sem leigir herbergi í sama húsi og Fabian og með þeim takast ástir, þar til hún yfirgefur hann fyrir ríkan kvikmyndaframleiðanda, og svo eru heimsóknir til listafólks, á bari og í vændishús þar sem kynlífið er hversdagslegur hluti frásagnarinnar. Byssubardagi kemur við sögu, og fyrst byssa er tekin fram þá er henni beitt við sjálfsvíg vinarins. Fabian missir vinnuna og hrekst að lokum heim á æskuslóðirnar, þar sem lesandinn kynni að halda að eitthvað betra biði, eitthvert jafnvægi, en vitaskuld fer þetta ekki vel. Þannig voru þessir tímar, og afstaða höfundarins til þeirra bauð bara upp á eina leið fyrir manninn unga í heimi í upplausn.

Leiðin í hundana sló strax í gegn og seldist vel þótt útgefandinn hefði látið Kästner skipta um titil á sögunni, kallað hana „Fabian. Saga móralista,“ þegar hún kom fyrst á prent árið 1931, og nokkrir kaflar og setningar voru felld á brott, einkum lýsingar á kynlífi en líka kaldhæðnar lýsingar á fólki og aðstæðum. Stuttu seinna höfðu nasistar náð völdum og sagan var bönnuð; Kästner mun þá hafa verið viðstaddur bókabrennu þar sem bálið var kynt með hans eigin verkum. En sagan var gefin aftur út strax eftir stríðið og er í dag talin meðal klassískra þýskra bókmenntaverka.

Þýðing hins margreynda þýðanda Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur flæðir vel en hún hefur þýtt nýja útgáfu sögunnar, þar sem bókmenntafræðingurinn Sven Hanuschek hefur fellt inn í hana allt það sem upphaflega var fellt á brott eða breytt í seinni tíma útgáfum. Aftast er einnig birt ítarleg umfjöllun fræðimannsins um verkið og útgáfusöguna, sem fengur er að, fyrir þá sem vilja fræðast meira eftir lesturinn. Einnig er áhugavert að lesa sem fjóra viðauka eftir- og formála, sem Erich Kästner skrifaði við útgáfur sögunnar frá 1946 og síðar. Strax í þeim fyrsta, rétt eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar segir hann hana ekki ætlaða fermingarbörnum, enda láti höfundurinn kviknaktar dömur og aðrar konur spígspora um sögusviðið. Hann ýjar margsinnis að því ferli sem er, með fremur andlausum hætti, nefnt samfarir. Hann veigrar sér ekki einu sinni við því að nefna ósiðleg afbrigði kynlífsins. Hann sleppir engu því sem gæti orðið siðgæðisdómurum tilefni til svohljóðandi yfirlýsingar: Þessi maður er argasti dóni.

Þessu svarar höfundurinn: „Ég er móralisti!“ (213) Og hann spyr lesendur líka hvað þeir telji vera hlutverk þeirra starfsmanna hugmyndaflugsins sem rithöfundar eru en hann elski hreinskilni og dýrki sannleikann. Í formála sem Kästner skrifaði svo aldarfjórðungi síðar segir hann þetta hvorki vera minningabók né myndaalbúm heldur háðsádeilu.

Á kápu þessarar íslensku útgáfu Leiðarinnar í hundana er mynd eftir landa Kästners, myndlistarmanninn Otto Dix, sem dró meistaralega upp myndir af þýsku samfélagi millistríðsáranna sem kallast svo sannarlega á við söguna; afhjúpandi myndir af grimmu og spilltu samfélagi, þar sem allir reyndu að finna sér leið áfram og beittu við það alls kyns meðulum. Í háðsádeilum beggja listamanna eru ýktar myndir af fláræði, átökum og svikum, þar sem vonir og væntingar eru fótum troðnar, og fegurðinni hent í ruslið. Frásögn Kästners af þessum heimi er vissulega grimm á köflum en líka afhjúpandi, og mikils vert að fá inn í íslenskar bókmenntir nú, því betra er seint en aldrei.