— Morgunblaðið/Alfons Finnsson
Góð veiði hefur verið að undanförnu hjá bátum sem gerðir eru út frá höfnum Snæfellsbæjar og landburður hefur verið af ljómandi fínum vertíðarfiski. Á föstudag í síðustu viku fiskuðu skipverjar á Bárði SH 81 rétt tæp 80 tonn og voru netin svo bunkuð að tvær landanir þurfti

Góð veiði hefur verið að undanförnu hjá bátum sem gerðir eru út frá höfnum Snæfellsbæjar og landburður hefur verið af ljómandi fínum vertíðarfiski. Á föstudag í síðustu viku fiskuðu skipverjar á Bárði SH 81 rétt tæp 80 tonn og voru netin svo bunkuð að tvær landanir þurfti. Í hinni fyrri var komið með um 48 tonn í land og rúm 32 í þeirri síðari.

„Gangurinn í þessu er góður núna. Fyrir nokkrum dögum kom stór síldarganga hingað inn á Breiðafjörðinn og þorskurinn var á sömu slóð. Þessu fylgdi svo að síldinni, sem var alveg upp við fjöru, fylgdi mikið af hval; bæði háhyrningar og stórhveli sem eru sjaldséð hér,“ segir Pétur Pétursson, útgerðarmaður og skipstjóri á Bárði.

„Besti tími vertíðarinnar er í mars og apríl og við erum því bjartsýnir á framhaldið. Þorskurinn sem við höfum náð að undanförnu er yfirleitt í kringum 10 kíló og er eftirsóttur til vinnslu,“ segir Pétur enn fremur.

Á þriðja tug báta leggur upp nú í höfnum Snæfellsbæjar, það er í Ólafsvík og á Rifi. Þaðan er stutt á miðin undir Jökli, hvar eru einhver fengsælasta fiskislóðin við landið. Vel hefur til dæmis veiðst á Flákakanti, sem er úti á miðjum Breiðafirðinum um 16 sjómílur frá Víkinni, og þar var Kvika SH 23 á þriðjudaginn. „Við fórum út klukkan þrjú um nóttina og komum í land um kvöldmat og vorum þá með tíu og hálf tonn sem við veiddum á 12.000 króka línu. Þetta er fínn og eftirsóttur fiskur,“ segir Hjörtur Sigurðsson skipstjóri. Auk Hjartar, sem er til vinstri á myndinni hér að ofan, eru þrír karlar í áhöfninni á Kviku, sem er 14,5 brúttótonna plastbátur. sbs@mbl.is