Ríkisstjórnin hefur valið að setja helstu útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar í uppnám með því að boða aukna skattheimtu og aðrar breytingar sem ekki hafa verið útfærðar en lýsa litlum skilningi á því hvað atvinnulífið þarf til að vaxa og dafna.
Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, ræðir meðal annars helstu áskoranirnar í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja um þessar mundir í samtali við ViðskiptaMoggann í gær og segir: „Það er enn mikil óvissa uppi um boðuð auðlindagjöld nýrrar ríkisstjórnar þar sem hvorki er vitað hvernig þau verða né hvenær þau eigi að taka gildi. Sú staðreynd ein og sér hefur dregið úr fyrirsjáanleika og lagt stein í götu fyrirtækja og torveldað áætlanagerð þeirra til framtíðar.
Það er nauðsynlegt að auðlindagjöld verði útfærð með skynsamlegum hætti, stuðli að hagkvæmri álagsstýringu og taki fullt tillit til þeirra skatta og gjalda sem nú þegar eru til staðar.“
Hætt er við að ríkisstjórnin muni lítið tillit taka til þeirra skatta og gjalda sem þegar eru til staðar við ákvörðun nýrra skatta. Stefnan er að hækka álögur á atvinnulífið og lítill skilningur hefur verið á því að lægri álögur séu til þess fallnar að efla efnahaginn en hærri skattar og óvissa veiki hann. Kreddur og fordómar ráða ferðinni, ekki raunsæi eða virðing fyrir þeim sem vinna að því að byggja undir velmegun í landinu.