Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Í framhaldi af fyrri samskiptum og umfjöllun eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) óskar nefndin eftir sjónarmiði Reykjavíkurborgar er varðar mat og flokkun tiltekinna eigna í reikningsskilum sveitarfélagsins.“ Þær „tilteknu eignir“ sem hér er vísað til eru eignir Félagsbústaða hf.
Svo segir í fyrirspurn innviðaráðuneytisins til sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, en ráðuneytið afhenti Morgunblaðinu samskipti aðila sem fram fóru í tölvupósti eftir beiðni blaðsins þar um. Téður póstur var sendur í upphafi þessa árs, en eftir því sem næst verður komist hefur erindinu enn ekki verið svarað.
Má ekki meta á markaðsvirði
Í fyrirspurninni er tekið sérstaklega fram að Reykjavíkurborg sé skylt skv. lögum um félagsþjónustu að tryggja framboð á félagslegu húsnæði og hafi Félagsbústaðir verið stofnaðir til að veita slíka þjónustu.
„Meirihluti starfsemi Félagsbústaða felst í því að sinna skyldum Reykjavíkurborgar, sem á sveitarfélagið eru lagðar með lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Eigna Félagsbústaða hf. er því aflað til eigin nota, séð frá samstæðu Reykjavíkurborgar en skv. því reikningsskilaregluverki sem borginni ber að fylgja er ekki heimilt að meta eignir til eigin nota á gangvirði. Óskar EFS eftir sjónarmiði Reykjavíkurborgar varðandi flokkun eignanna og reikningshaldslegra matsaðferða í samstæðureikningi borgarinnar,“ segir í fyrirspurn ráðuneytisins.
Samkvæmt framansögðu virðist það mat ráðuneytisins að Reykjavíkurborg fari ekki að lögum hvað varðar mat á eignum Félagsbústaða, sem hvorki má meta á markaðsvirði né heldur færa virðisaukningu eignanna til tekna. Á árinu 2023 nam virðisaukningin um fimm milljörðum króna. Hefði Reykjavíkurborg ekki fært virðisaukninguna til tekna hefði tap borgarinnar það ár numið meira en átta milljörðum króna, en ekki rúmum þremur milljörðum sem raunin varð. Rekstrarniðurstaða ársreiknings fyrir árið 2024 liggur enn ekki fyrir.