Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég var í Samtökum frjálslyndra vinstrimanna og var blaðamaður hjá Nýju landi – frjálsri þjóð, en þeir sögðust ekki eiga pening. Ég held þeir hafi nú hreinlega verið hræddir um að ég færi mér að voða þarna og ekki viljað að ég færi.“
Með þessum orðum hefst frásögn skálds af merkilegu ferðalagi til stormasams áfangastaðar haustið 1971. Skáldið er Pjetur Hafstein Lárusson, landið stormasama Norður-Írland, en þangað hélt Pjetur til að skrifa fréttir af væringum sjálfstæðissinnaðra kaþólikka og mótmælenda um það leyti er þessir flokkar tróðu hve mannskæðastar illsakir í því sem á írskri gelísku var í daglegu tali kallað Na Trioblóidí, eða einfaldlega Vandræðin.
Sameiningunni fylgjandi voru sambandssinnar (e. unionists) sem að mestu leyti voru svokallaðir Ulster-mótmælendur, afkomendur landnema frá Skotlandi, en mótfallnir þessu fyrirkomulagi voru þjóðernissinnaðir írskir kaþólikkar sem dreymdi um sameinað og sjálfstætt Írland – allt landið sem sagt.
Vandræðin stóðu þar til Föstudagssáttmálinn var undirritaður páskana 1998. Blóðugust voru árin kringum 1970 sem líklega var raunveruleg ástæða þess að stjórnendur Nýs lands – frjálsrar þjóðar sögðu skáldinu einfaldlega að þeir ættu ekki krónu með gati til að senda blaðamann til Norður-Írlands.
„En þeir gáfu mér frí,“ rifjar Pjetur upp og hlær við, röddin eilítið hrjúf en viðkunnanleg og auðheyrt snemma samtals að í honum býr frásagnamaður góður. Skáld þurfa að geta sagt frá. Er sá maður skáld sem af engu hefur að segja? Pjetur ræðir síðar í þessu viðtali hverjir geti orðið skáld og hverjir ekki.
Í fríinu labbaði Pjetur sig yfir á Þjóðviljann sem um 1970 stóð styrkum fótum í íslensku þjóðfélagi. „Og ég samdi við þá um að þeir keyptu af mér greinar frá Belfast, sem ég skrifaði reyndar bara þegar ég kom heim,“ segir hann glettinn. Svavar Gestsson og Árni Bergmann ritstýrðu blaðinu á þessum tíma og gátu vel hugsað sér tíðindi af látunum í Norður-Írlandi til að bera á borð fyrir lesendur sína.
Fargjaldið greitt á knæpu
„Þannig var að ég fékk far til Cork með Ísborginni sem var síðutogari og einn af fyrstu nýsköpunartogurunum, frá Ísafirði. Honum hafði verið breytt í flutningaskip sem voru bara eins og leigubílar hafsins á þessum tíma,“ segir Pjetur frá.
Þannig að þú hefur bara greitt fargjald og flotið með?
„Neeeeei,“ svarar skáldið og dregur seiminn, kannski að bræða með sér hvort rétt sé að segja frá því hver greiðslan að lokum varð. „Stjúpi minn útvegaði mér þetta. Eigandi útgerðarinnar, Guðmundur Anton Guðmundsson, var vélstjóri þarna um borð. Ég átti að borga eitthvert ákveðið gjald fyrir ferðina,“ segir hann frá.
Ekki var nánar kveðið á um fargjaldið fyrr en Ísborgin var lögst að bryggju í Cork síðla októberkvölds árið 1971. „Öll áhöfnin fór þá beint á krá sem var rétt við kæjann. Ég mátti hins vegar ekki fara í land af því að ég var ekki einn af áhöfninni. Ég þurfti að bíða eftir vegabréfsskoðun daginn eftir. En um borð var vaktmaður og hann segir við mig að það hljóti nú að vera í lagi að ég skjótist á krána svo ég gerði það. Þá var hálftími í lokun og vélstjórinn sagði við mig að ég fengi farið ókeypis ef ég gæti kneyfað þrjár ölkrúsir – sem ég og gerði, þannig að ég borgaði ekkert fyrir ferðina,“ segir Pjetur frá því þegar hann laumaði sér ólöglega í land á Írlandi og borgaði farið með Ísborginni.
Þannig fór um sjóferð þá, eins og máltækið segir.
Morguninn eftir tók hann svo lest til Dyflinnar og nú þarf að fylgja sögunni að þessir atburðir gerðust rétt áður en íslensk stjórnvöld fóru í þá umdeildu framkvæmd að færa fiskveiðilandhelgi sína út í 50 sjómílur.
„Ég fór svo að ganga þarna um götur þá um kvöldið og hitti þá mann sem var vel við skál. Þetta var fullorðinn maður. Hann tekur mig tali og spyr hvaðan ég sé og þegar ég segi honum það þá segir hann við mig: „Þið Íslendingar eigið ekki að færa út í 50 mílur. Þið eigið að færa landhelgina svo langt út að Bretland lendi innan hennar og kúga þessa djöfla.““ Greinilegt var að þarna andaði svellköldu milli Íra, sem ekki vildu sambandið við Bretland, og nágrannalandsins.
Kona send með sígarettu
Ferðalagið hélt áfram norður á bóginn, næsta lest var til Belfast á Norður-Írlandi. „Ég er þarna 19 ára sveitastrákur … ja, í raun var ég það ekki, en í útlandinu var ég sveitastrákur, og það kemur þarna maður og ber töskurnar mínar inn á járnbrautarstöðina. Ég hélt að þetta væri tóm greiðvikni og tek í höndina á honum og þakka honum innilega fyrir. Þá átti ég náttúrulega að borga honum eitthvað fyrir þetta, ég gerði mér enga grein fyrir því,“ segir Pjetur.
Hann keypti svo gistingu til tveggja vikna á gistiheimili þar sem morgunverður fylgdi og var í góðu yfirlæti. En andrúmsloftið var sérstakt í Belfast á Norður-Írlandi haustið 1971.
„Ég man sérstaklega eftir því þegar ég kom að götu sem breski herinn hafði lokað. Þetta var á mörkum hverfis mótmælenda og kaþólikka og þarna voru mótmælendur sem höfðu ætlað að ráðast inn í hverfið hjá kaþólikkunum,“ rifjar Pjetur upp.
„Ég stend svona svolítið álengdar og sé svo að fólk þarna í hópi er eitthvað að horfa til mín. Að lokum er send til mín kona með sígarettu sem spyr mig hvort ég eigi eld, til að taka upp samræður. Hún býður mér svo í hópinn og ég fer að spyrja hvort þeim finnist ekki skrýtið að hafa þarna erlenda hermenn á götunum hjá sér. Þá segja þeir: „Nei, þetta eru ekki útlendingar, þeir eru Bretar eins og við. Kaþólikkarnir eru útlendingar.““
Pjetur játar að þetta hafi honum þótt merkilegt. „Menn, og sérstaklega trúarhatursmenn, hafa alltaf skrifað þessa borgarastyrjöld á kostnað trúarbragða. En það var bara á yfirborðinu. Í raun og veru snerist þetta um peninga. Þarna voru öflugar skipasmíðastöðvar þar sem launin voru um þriðjungi hærri en annars staðar. En það fengu engir vinnu þar nema mótmælendur,“ segir Pjetur.
Kaþólsku fátækrahverfin
Hann segir mótmælendahverfin hafa verið snyrtileg einbýlishúsahverfi með hóflega stórum húsum. „Þau voru ekki risastór, bara eins og gengur og gerist hjá siðuðum þjóðum sem nota ekki fermetrafjölda íbúða sem mælikvarða á gildi fólks. Kaþólsku hverfin voru hins vegar fátækrahverfi. Þessar deilur snerust um efnahagsmál og þjóðernismál. Mótmælendurnir, sem kölluðu sig Breta en ekki Íra, voru afkomendur skoskra hermanna sem [Oliver] Cromwell hafði sent til Írlands á sínum tíma, sérstaklega Norður-Írlands, og þeir drápu þar allt kvikt, fengu land að launum.
Þess vegna náðu mótmælendur meirihluta í Ulster á Norður-Írlandi. Þegar ég var þarna var um þriðjungur íbúanna kaþólikkar, tveir-þriðju mótmælendur, en nú eru rúmlega 40 prósent kaþólikkar, þeim hefur fjölgað miklu örar en mótmælendunum.
Hvað þótti íbúum Belfast um að þarna væri kominn blaðamaður frá Íslandi að vitja þeirra, vakti þetta ekki furðu?
„Nei nei, þeir tóku því ósköp vel,“ svarar Pjetur og segir í framhaldinu frá því að þess vegna hafi honum þótt það torkennilegt þegar hann heimsótti knæpur í Belfast, að aðrir gestir færðu sig jafnan frá honum og gættu þess að halda þeirri fjarlægð.
„Meira að segja barþjónarnir létu mig bara hafa ölið og svo fóru þeir,“ rifjar hann upp. Ráðgátan leystist um síðir. „Ég hitti svo þarna tvo eldri menn. Annar þeirra hafði verið sjómaður alla sína hunds- og kattartíð og verið á Íslandsmiðum, aldrei komið þar í land, en leitað þar vars ótal sinnum í fjörðum á Íslandi. Hann var miklu fróðari um landafræði Íslandsstranda heldur en ég,“ segir Pjetur og ekki leið á löngu uns þeir sessunautar hans, sem loksins fengust, spurðu hann óvenjulegrar spurningar.
Vonlaust fyrir Íslendinga
„Þeir spurðu hvort ég hefði alveg sérstakan áhuga á að láta drepa mig þarna. Ástæðan var sú að ég var í tweed-jakka. Þegar bresku hermennirnir fengu frí máttu þeir vera óeinkennisklæddir. Og þá voru þeir náttúrulega í tweed-jökkum og fóru inn á krárnar. En þá komu IRA-liðar [hermenn Írska lýðveldishersins sem börðust fyrir sjálfstæði síns lands] og hentu á þá sprengju. Þetta sýndi mér hvað það var gjörsamlega vonlaust fyrir okkur Íslendinga að setja okkur inn í svona fyrirbæri eins og borgarastyrjöld – og styrjaldir yfirleitt. En nú erum við farin að senda afdankaða stjórnmálamenn – og jafnvel börn þeirra – sem friðflytjendur á vegum alþjóðastofnana út í heim – sem náttúrulega hljómar eins og hver annar brandari,“ segir Pjetur sposkur.
Norður-Írlandsdvöl hans fyrir rúmlega hálfri öld spannaði tvær vikur og kvað hann viðmót heimamanna hafa verið mjög gott og þeir verið allir hinir gestrisnustu. Ein forvitnileg saga af norðurírskum tollverði flýtur með hjá Pjetri, en hana má lesa í heildarútgáfu viðtalsins á mbl.is þar sem skáldið ræðir enn fremur skáldskapinn og hverjir geti yfirhöfuð orðið skáld.