Halldóra Sigr. Sveinsdóttir
Þegar kjarasamningar á almennum markaði voru undirritaðir voru meginmarkmið samningsins meðal annars að lækka verðbólgu með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, ríkis, atvinnurekenda, sveitarfélaga og annarra. Ríkið skuldbatt sig til að hækka ekki umfram 2,5% á árinu 2025. Tilmæli voru til sveitarfélaga um að endurskoða áður útgefnar hækkanir og halda þeim innan 3,5% vegna barnafjölskylda. Fyrir kjarasamningsgerðina lágu fyrir niðurstöður skýrslu Vörðu rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, þar sem gerð var sérstök úttekt á stöðu og lífsskilyrðum ræstingafólks.1)
Niðurstöðurnar voru vægast sagt sláandi. Konur og innflytjendur eru í meirihluta starfandi við ræstingar. Miðað við aðra hópa á þessi hópur erfitt með að ná endum saman, er frekar í vanskilum miðað við aðra hópa. Þessi hópur býr frekar í leiguhúsnæði. Líkamleg og andleg heilsa mælist verri en hjá öðrum hópum og er fólk í þessum hópi líklegra til þess að mælast með kulnun eða örmögnun. Niðurstöður þessar leiddu til þess að ákveðið var að hækka ræstingafólk umfram aðra hópa.
Nú virðist svar ræstingafyrirtækja við þessu vera að breyta kjörum þessa fólks og þá helst að lækka kjörin og í leiðinni að herða á vinnutakti. Staðfest dæmi eru frá þessu ári um að sum þeirra greiði laun undir lágmarksákvæðum kjarasamnings og stundi mjög alvarleg kjarasamningsbrot. Ríki og sveitarfélög bjóða út mest af þeim ræstingum sem fellur undir starfsemi þeirra og bera að mestu leyti ábyrgð á þessari þróun.
Tilmæli til sveitarfélaganna um að endurskoða útgefnar hækkanir virðast ekki ganga eftir. Eru ýmsar æfingar þar á bæ sem samræmast ekki markmiðum kjarasamninga eða kjarasamningum almennt. Ekki var samið um vinnutímastyttinguna hjá Eflingu og SGS. Flestir á vinnumarkaði eru komnir með vinnutímastyttingu. Er það bagalegt að hluti af almenna markaðnum er ekki í takt við aðra hópa. Furðu sætir að fólkið á lægstu launum sem sinnir mjög krefjandi og erfiðum störfum skuli ekki vera komið með vinnutímastyttinguna og hefur þessi slagur staðið frá 2019. Þeir sem eru að greiða fyrir lengri viðveru á leikskólum eru lægst launaði hópurinn og tölur um þann tíma sem er umfram vinnutímastyttingu hjá öðrum hópum benda til að hver tími kosti allt að kr. 3.700.
Spurningin er, eru forsendur kjarasamninga brostnar?
1) mbl.is/go/th5q
Höfundur er formaður Bárunnar, stéttarfélags.