Þau ráð sem reynd hafa verið hafa ekki dugað svo að reyna verður önnur

Sérstakur aukafundur var haldinn í vikunni í skóla- og frístundaráði borgarinnar vegna ástandsins í Breiðholtsskóla sem lýst hefur verið í fréttum Morgunblaðsins og mbl.is. Jákvætt er að borgaryfirvöld hafi ákveðið að taka á málinu en eins og formaður ráðsins hefur líka viðurkennt hefði það mátt gerast fyrr.

Í samtölum Morgunblaðsins við nokkra foreldra og fulltrúa skólans hefur komið skýrt fram að ástandið í skólanum hefur um nokkurt skeið verið algerlega óviðunandi og fengið að ganga lengur og lengra en nokkurt barn á að þurfa að búa við. Og staðreyndin er sú að þetta snýst fyrst og fremst um börnin, menntun þeirra og líðan, en hvort tveggja hefur liðið fyrir ástandið.

Formaður ráðsins, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, segir að horfa þurfi á málið sem víðtækara samfélagsmál en svo að það snúist aðeins um það sem gengið hefur á í Breiðholtsskóla, þó að það sé vissulega nógu slæmt. Hún segir samfélagið þurfa að nema staðar og velta fyrir sér hvernig hægt sé að stemma stigu við þróuninni. Og hún bætir því við að þetta sé „kannski einhvers konar birtingarmynd af skóla án aðgreiningar“, sem sé stærri pólitísk spurning. „Við erum náttúrulega búin að samþykkja skóla án aðgreiningar, og rekum skólana okkar með þeim hætti, og það er þá í rauninni önnur spurning hvort það er eitthvað sem við viljum breyta. En við erum komin mjög langt og það hefur gengið mjög vel. Við stöndum samt núna frammi fyrir fjölbreyttari vanda,“ segir Árelía Eydís.

Þá nefnir hún að „við höfum verið að fara í gegnum örari samfélagslegar breytingar – eins og þetta dæmi er um – heldur en nokkur önnur lönd hafa farið í gegnum“. Hún nefnir að hin norrænu ríkin séu oft höfð til samanburðar en ekki sé tekið með í reikninginn að þar hafi samfélagslegar breytingar átt sér stað yfir lengra tímabil en hér á landi. „Þannig að við erum í rauninni með gjörsamlega breyttar forsendur, þar sem tuttugu prósent af nemendum okkar tala ekki íslensku eða eru með annan tungumálabakgrunn, sem gerir mörg aðkallandi verkefni miklu stærri,“ segir hún.

Allt er þetta mjög umhugsunarvert og augljóst að taka verður á vandanum með öðrum hætti en gert hefur verið. Hér framar í blaðinu er sagt frá tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, sem óskuðu eftir fyrrnefndum aukafundi. Þau segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til að komið yrði á fót sérstökum móttökuskólum fyrir erlend börn til að þau fái tækifæri til að aðlagast íslensku skólakerfi og samfélagi áður en þau hefja hefðbundið nám. Það er fyrirkomulag sem er þekkt erlendis og kann að vera lausnin á vandanum. Í öllu falli er nauðsynlegt að vandinn verði leystur. Það er ekki hægt að bjóða börnunum upp á þetta lengur, hvorki íslenskum börnum né þeim sem hingað eru komin að utan.