Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
ÞG Verk hefur sett fyrirhugaða hóteluppbyggingu á Granda á ís vegna óvissu í ferðaþjónustu.
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið.
Þegar Morgunblaðið ræddi við Þorvald um verkefnið 23. janúar í fyrra áformaði hann að hefja jarðvinnu vorið 2024 og uppsteypu um haustið sama ár. Ef það gengi eftir væri raunhæft að hótelið yrði tilbúið fyrir sumarið 2026.
Þegar Morgunblaðið ræddi aftur við Þorvald 16. júlí síðastliðinn upplýsti hann að verkefnið væri enn í skipulagsferli en afgreiðsla þess hefði tafist hjá borginni. Það á nú sinn þátt í að verkefnið hefur verið sett á ís vegna óvissu í ferðaþjónustu, sem áður segir.
Byggt fyrir einni öld
ÞG Verk hugðist byggja 100 herbergja hótel á bílastæðinu norðan og vestan við Alliance-húsið og var gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð. Samhliða átti að gera upp Alliance-húsið, en það var byggt á árunum 1924 til 1925 eftir teikningum Guðmundar H. Þorlákssonar húsameistara.
Tengt við hótelbygginguna
Hugmyndir hafa verið um að endurgert Alliance-húsið verði tengt við hótelbygginguna. Þá hefur komið til greina að núverandi veitingahús, Matur og drykkur, verði þar áfram og þjónusti hótelið.
Gegnt Alliance-húsinu er verið að stækka CenterHótel Granda eins og fjallað var um í blaðinu í fyrradag. Loks er uppbygging að hefjast í Vesturhöfn (Vesturbugt), austan við Alliance-húsið og Mýrargötu 26.