Stjórnlyndir stjórnmálamenn eru jafnan afar hugmyndaríkir þegar kemur að því að finna nýjar leiðir til að hækka skatta. Ef hægt væri að virkja þetta hugmyndaflug þyrfti ekki að hafa áhyggjur af orkuleysi í landinu, en því miður virkar þetta öfugt. Hærri skattar draga þrótt úr almenningi og atvinnulífi og rýra lífskjör.
Nýjasta dæmið um þetta hugmyndaflug er að finna í drögum að frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar er að finna ákvæði um að ef sveitarfélag „fullnýtir ekki heimild sína til álagningar útsvars“ skuli lækka framlög Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags sem nemur mismuninum á útsvari sveitarfélagsins og hámarksútsvari.
Þetta ákvæði er um það bil ígildi þess að neyða sveitarfélög til að innheimta hámarksútsvar og þar með að útrýma þeim litla hvata sem þó er fyrir hendi hjá sveitarfélögunum til að keppa sín á milli um íbúa með því að bjóða sem hagstæðasta skatta.
Skattstofnar sem ekki eru „fullnýttir“ eru eitur í beinum vinstrimanna, sem telja að innheimti hið opinbera ekki alla þá skatta sem frekast er mögulegt sé það að gefa eftir tekjur. Með þessu er í raun gengið út frá því að tekjur og eignir fólks séu eign hins opinbera og það sé aðeins af einstakri gæsku sem eitthvað er skilið eftir í vösum almennings.
Verði frumvarpið að lögum er verið að skerða rétt almennings til að velja sér sveitarfélag sem býður hagfelldari skatta en önnur sveitarfélög og um leið er verið að skerða rétt sveitarfélaganna til að ráða málum sínum sjálf. Augljóst er að þetta er gert til að auðvelda vinstrimönnum í sveitarstjórnum að keppa um atkvæði í komandi kosningum, enda væri með þessu búið að taka út einn af þeim kostum sem hægrimenn bjóða gjarnan upp á umfram vinstrimenn. Þröngir flokkshagsmunir af því tagi mega ekki ráða ferðinni umfram möguleika almennings til að velja sér hagstæðara skattaumhverfi.