Szombathely Elvar Már Friðriksson lék vel gegn Ungverjum í gærkvöld en hann skoraði 20 stig og átti 10 stoðsendingar. Hér brýtur hann sér leið að körfu Ungverja, einu sinni sem oftar.
Szombathely Elvar Már Friðriksson lék vel gegn Ungverjum í gærkvöld en hann skoraði 20 stig og átti 10 stoðsendingar. Hér brýtur hann sér leið að körfu Ungverja, einu sinni sem oftar. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhverra hluta vegna hefur það loðað við íslensk landslið í ýmsum greinum að fara helst „Fjallabaksleiðina“ þegar kemur að því að vinna sér sæti á stórmótum. Óhætt er að segja að körfuboltalandslið karla sé komið á þá gömlu og góðu…

Í Szombathely

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Einhverra hluta vegna hefur það loðað við íslensk landslið í ýmsum greinum að fara helst „Fjallabaksleiðina“ þegar kemur að því að vinna sér sæti á stórmótum.

Óhætt er að segja að körfuboltalandslið karla sé komið á þá gömlu og góðu braut eftir að því tókst ekki að tryggja sér farseðilinn á EM 2025 í gærkvöld.

Íslenska liðið mátti tapa leiknum með fjórum stigum en ljóst var að Ungverjar myndu lifa enn í voninni um EM-sæti ef þeir myndu knýja fram sex stiga sigur.

Sú var raunin, Ungverjar sigruðu, 87:78, í Szombathely, elstu borg Ungverjalands, eftir sveiflukenndan leik þar sem íslenska liðið virtist um tíma vera búið að kasta öllu frá sér en komst svo í færi við EM-sætið á lokamínútum leiksins.

Ítalir unnu góðan útisigur á Tyrkjum á sama tíma, 80:67, og tryggðu sér efsta sæti riðilsins en bæði lið voru þegar örugg með EM-sæti.

Ítalía er með 8 stig, Tyrkland 6, Ísland 4 og Ungverjaland 2 fyrir lokaumferðina á sunnudagskvöldið þegar Ísland fær Tyrkland í heimsókn í Laugardalshöllina og Ungverjar fara til Ítalíu.

Annað, þriðja eða fjórða sæti

Ungverjar eru með sigrinum í gærkvöld yfir í innbyrðis viðureignum gegn Íslandi, sem vann fyrri leikinn með fimm stiga mun, og ná því þriðja sætinu úr höndum Íslands ef liðin enda jöfn að stigum. Staðan er því sú að Ísland þarf að vinna Tyrkland til að fara á EM í lok ágúst, en að öðrum kosti treysta á að Ungverjar sigri ekki Ítali á sama tíma.

En um leið getur íslenska liðið tryggt sér annað sæti riðilsins með því að leggja Tyrkina að velli þannig að þetta getur sveiflast í báðar áttir í leikjunum á sunnudagskvöldið.

Vondar sex mínútur

Sex mínútna kafli í lok fyrri hálfleiks var íslenska liðinu dýrkeyptur. Þar fór hreinlega allt í skrúfuna í vörn og sókn, ungverska liðið skoraði átján stig gegn fjórum og var með sextán stiga forystu í hálfleik, 48:32.

Ungverjarnir spiluðu geysilega sterka vörn á Tryggva Snæ Hlinason, sem var stigalaus og með aðeins tvö fráköst í fyrri hálfleik og munar heldur betur um minna.

„Þetta er fegurðin við körfuboltann. Þetta er svo fljótt að breytast. Mér fannst við byrja vel og gera það sem við ætluðum að gera. Við gerðum þetta óþægilegt fyrir þá en svo hættum við því. Við byrjuðum ekki aftur fyrr en í lokin þegar við vorum með bakið upp við vegg,“ sagði Martin Hermannsson við Morgunblaðið eftir leikinn og þetta var nánast leikurinn í hnotskurn, en íslenska liðið hafði komist í 14:4 á upphafsmínútum leiksins sem lofuðu virkilega góðu.

Munaði merkilega litlu

Og svo eru það þessar mögnuðu sveiflur í körfuboltanum. Þótt íslenska liðið lenti 19 stigum undir í byrjun fjórða leikhluta komst það í dauðafæri við að minnka muninn niður í hin margumtöluðu fjögur stig undir lok leiksins.

Munurinn var sex stig, 84:78, þegar enn voru eftir 80 sekúndur, sem er langur tími í körfubolta. En það voru Ungverjarnir sem spiluðu betur úr sínu og þriggja stiga karfa frá þeirra nýjasta leikmanni, Bandaríkjamanninum Nate Reuvers, gulltryggði þeim sigurinn og gefur þeim von til sunnudagskvölds um að komast á EM 2025.

Martin og Elvar öflugir

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson báru uppi leik íslenska liðsins. Martin sýndi gæði sín ítrekað og hélt liðinu inni í leiknum á köflum þegar hann tók af skarið. Hann endaði með 25 stig.

Elvar skoraði 20 stig og átti 10 stoðsendingar og var liðinu enn og aftur mikilvægur. Jafnbesti leikmaður Íslands þegar horft er yfir alla fimm leikina í undankeppninni.

Tryggva Snæ gekk ekkert í fyrri hálfleik eins og áður sagði en hann sýndi karakter með því að rífa sig í gang í þeim síðari þar sem hann skoraði 12 stig og tók níu fráköst.

Kristinn Pálsson átti góða kafla og Haukur Helgi Pálsson var drjúgur á lokakaflanum en aðeins fleiri hefðu þurft að sýna sitt rétta andlit til þess að ná þeim úrslitum sem liðið stefndi að.

Þar með er fram undan spennandi sunnudagskvöld í Laugardalshöllinni. Þá ræðst hvort Ísland kemst í þriðja sinn á EM eða hvort Ungverjar ræna sætinu með frábærum endaspretti. Íslenska liðið er eftir sem áður áfram með allt í sínum höndum.

Höf.: Víðir Sigurðsson