Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kortleggja þarf vandann strax, finna úrræði og fara nýjar leiðir varðandi móttöku erlendra barna í grunnskólana í Reykjavík til þess að laga þau að íslensku skólakerfi og samfélagi. Þetta segja þau Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir,…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Kortleggja þarf vandann strax, finna úrræði og fara nýjar leiðir varðandi móttöku erlendra barna í grunnskólana í Reykjavík til þess að laga þau að íslensku skólakerfi og samfélagi.

Þetta segja þau Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar í samtali við Morgunblaðið.

Á miðvikudag var haldinn aukafundur í ráðinu að þeirra ósk, þar sem ástandið í reykvískum grunnskólum var til umræðu og sjónum sérstaklega beint að hinu alvarlega ástandi sem viðgengist hefur undanfarið í Breiðholtsskóla og snýr að ofbeldi- og einelti og Morgunblaðið hefur greint ítarlega frá undanfarið.

„Þarna fengum við í fyrsta skipti upplýsingar um það mál á vettvangi Reykjavíkurborgar, en hingað til höfum við aðeins fengið fregnir af málinu í fjölmiðlum og í samtölum við áhyggjufulla foreldra í Breiðholtsskóla,“ segir Marta sem segir að ljóst sé að staðan í skólanum hafi verið mjög alvarleg í langan tíma.

„Það er alvarlegt að ekki skuli hafa verið gripið fyrr inn í ástandið,“ segir hún en nefnir að nú hafi verið boðaðar aðgerðir.

Helgi Áss segir að nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hafi tekið til starfa 10. febrúar og hafi hann greint frá því á fundinum að reyndur skólamaður hafi verið fenginn til starfa í Breiðholtsskóla sem vinna muni að því taka á ástandinu í skólanum.

Gripið hafi verið til þess ráðs m.a. að stía árganginum í sundur sem fimmmenningarnir sem til vandræða hafa verið eru í. Ráðið hafi verið fleira starfsfólk til að sinna öryggismálum og kennslu.

Þau Helgi Áss og Marta benda á að alvarlegt sé að hegðunarvandamál hafi verið látin viðgangast í skólanum í allt of langan tíma. Fara ætti eftir alls kyns verkferlum í slíkum tilvikum, en vandinn væri m.a. sá að boðleiðir væru allt of langar og flækjustigið þar með og því tækist ekki að hemja ástandið. Það væri alvarlegt, enda bitnaði það á börnunum. Stytta þurfi boðleiðir og grípa þurfi strax inn í málin þegar þeirra verði vart.

Í því skyni lögðu þau Marta og Helgi Áss fram tillögu á fundinum sem gengur út á að sett verði á fót sérstakt neyðarteymi sem gripi strax inn í þegar alvarleg ofbeldis- og eineltismál kæmu upp í skólum borgarinnar. Tillagan kom ekki til atkvæða á fundinum, þar sem afgreiðslu hennar var frestað.

Spurður um hvernig við eigi að bregðast þegar þannig háttaði til að foreldrar nemenda sem til vandræða væru ynnu ekki með skólanum við að taka á ástandinu, segir Helgi Áss að það vandamál væri nokkuð algegnt og algert úrræðaleysi virtist vera af hálfu skólayfirvalda þegar að slíku kæmi.

„Dæmi eru um að foreldrar barna sem eru af erlendu bergi brotin svari ekki yfirvöldum,“ segir hann.

Úrræði skorti til að taka á móti slíkum nemendum. Þau væru sett óundirbúin í almenna bekki og til staðar þyrfti að vera úrræði fyrir þau þegar þau hefja nám hér á landi. Aðferðafræðin sem kveður á um skóla án aðgreiningar gengi ekki upp. Þannig hefði Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á að settir yrðu á fót sérstakir móttökuskólar sem tækju við börnum sem kæmu erlendis frá, áður en þau færi inn í almenna grunnskóla. Það ættu borgaryfirvöld að geta gert, stæði vilji þeirra til þess.

„Það er fullt tilefni til þess að endurskoða þessi mál og koma á fót sérstöku úrræði, móttökudeild, fyrir erlenda nemendur þannig að þeir læri tungumálið og aðlagist betur íslensku skólakerfi og samfélagi,“ segir Marta og bætir við að kortleggja þurfi vandann í skólunum og bregðast mun fyrr við en gert hefur verið hingað til. Forvarnarstarf á frístundaheimilum borgarinnar skipti einnig miklu máli.

„Kjarni málsins er að samsetning nemendahópsins hefur tekið hröðum breytingum m.t.t. fjölmenningar og það er mjög flókið að bregðast við slíkum breytingum,“ segir Helgi Áss og nefnir að bæði í Breiðholtsskóla og Fellaskóla sé mjög stór hluti nemenda af erlendum uppruna.

„Í stað þess að ræða þessi mál á grundvelli staðreynda, þá er reynt að halda lokinu á pottinum og kalla þá rasista sem vilja fá raunhæfar úrlausnir í skólamálum,“ segir Helgi Áss.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson