Garðar Ingi Sindrason var markahæstur hjá Íslandsmeisturum FH með átta mörk þegar liðið vann fjögurra marka sigur gegn Gróttu, 27:23, í 18. umferð úrvalsdeildar karla í handbolta í Kaplakrika í Hafnarfirði í gær. Þetta var annar sigur FH í röð í deildinni, en liðið er í efsta sætinu með 27 stig. Grótta er áfram í tíunda sætinu með 10 stig, fjórum stigum frá sæti í úrslitakeppninni.
Fram er áfram í öðru sæti deildarinnar, einnig með 27 stig eins og topplið FH, eftir stórsigur gegn ÍR í Úlfarsárdal, 41:25, þar sem Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var markahæstur hjá Frömurum með átta mörk. Þetta var sjötti sigur Fram í röð í deildinni en ÍR er í ellefta sætinu með 8 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í marki Vals þegar liðið vann tíu marka sigur gegn Fjölni, 35:25, á Hlíðarenda en Björgvin varði 15 skot og var með 39 prósent markvörslu. Valur er með 26 stig í þriðja sætinu og hefur unnið fimm leiki í röð en Fjölnir er í neðsta sætinu með 6 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Þá gerðu ÍBV og Afturelding dramatískt jafntefli í Vestmannaeyjum, 35:35, þar sem bæði lið fengu tækifæri til þess að vinna leikinn en inn vildi boltinn ekki. ÍBV er með 19 stig í sjötta sætinu en Afturelding er í fjórða sætinu með 25 stig. Þeir Daniel Vieira og Sigtryggur Daði Rúnarsson voru markahæstir hjá ÍBV með átta mörk hvor en Birgir Steinn Jónsson átti stórleik fyrir Aftureldingu og skoraði tíu mörk.