Sigurveig G. Einarsdóttir fæddist 6. júní 1936 á Víkingavatni í Kelduhverfi. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð 1. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Einar Benediktsson, f. 13. júní 1905, d. 26. júní 1990 og Kristín Björnsdóttir, f. 22. ágúst 1901, d. 5. október 1985. Systkini hennar eru Vilborg Sigríður, d. 1988, Pétur, d. 2024, Lára Steinunn, d. 2006 og Guðbjörg.

Sigurveig giftist Ólafi Eyfjörð Benediktssyni málara, f. 14. nóvember 1933, d. 15. desember 1995, þann 25. október 1958. Saman áttu þau tvær dætur; Ingibjörgu Ólafsdóttur, f. 10. mars 1959, og Kristínu Ólafsdóttur, f. 25. september 1962. Ingibjörg er gift Ara Birni Fossdal. Synir þeirra eru Ólafur Fossdal og Júlíus Fossdal. Kristín er gift Þorgeiri V. Jónssyni. Dætur þeirra eru Arna Sif og Ólöf Ósk Þorgeirsdætur. Langömmubörn Sigurveigar eru þrjú.

Sigurveig stundaði nám við Hússtjórnarskólann á Laugalandi og kynntist þá Ólafi, eiginmanni sínum. Hún starfaði við verslunarstörf og tók þátt í störfum Kvenfélags Akureyrarkirkju að lokinni starfsævi. Sigurveig var mikill tónlistarunnandi og hafði gaman af því að dansa. Sambýlismaður Sigurveigar til nokkurra ára var Egill Jónsson, f. 1927, d. 2015. Hann var félagi í Harmonikkufélagi Eyjafjarðar og voru þau dugleg að ferðast og sækja harmonikkuhátíðir á meðan heilsan leyfði.

Útför Sigurveigar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 21. febrúar 2025, kl. 13.

Með þakklæti og góðum minningum kveðjum við ömmu okkar Sivu. Við systur ólumst upp í miklum samvistum við hana ömmu okkar og því er smá eins og heimurinn sé á hliðinni þegar hún er ekki hér. Amma var afskaplega góð kona, hörkudugleg og ákveðin. Við gleymum því aldrei þegar hún flatti út laufabrauðskökur í hundraðatali á meðan við börnin, tengda- og barnabörnin skárum út og kepptumst við að halda í við framleiðsluna. Amma var líka mikill nammigrís og átti alltaf ís í frysti, kex í krukku og suðusúkkulaði í skál. Það er því ótrúlega viðeigandi að á síðasta degi ömmu höfum við fjölskyldan skipt með okkur síðustu súkkulaðimolunum sem hún átti.

Amma varð ekkja árið 1995 og þekkjum við varla annað en að hafa hana í mat á æskuheimili okkar. Við áttum spjöllin ófá um lífsval okkar systra, nýtísku mat, nýjasta slúðrið, tónlist og hreyfingu. Hún var nú ekki alltaf sammála okkur og skildi oft ekki viðhorf ungdómsins en alltaf samþykkti hún að tímarnir breytast og mennirnir með. Amma vildi nefnilega öllum vel og þá sérstaklega fólkinu sínu. Hún passaði að fylgjast vel með lífi okkar systra á meðan við bjuggum erlendis við nám og það var alltaf gott að sjá hana þegar við komum heim í frí. Við erum einstaklega þakklátar fyrir að hafa eytt síðasta aðfangadagskvöldi með henni og fyrir það að þó svo að ýmislegt hafi verið farið að týnast og gleymast þá vissi hún alltaf hverjar við værum þrátt fyrir að fjarlægð hefði gert hittingana færri undanfarin ár. Við trúum því líka að henni hafi þótt jafn vænt um okkur og okkur þótti um hana fram á síðasta dag. Kvöldverðarborðið verður skrýtið án þín, elsku amma, en við leiðarlok viljum við þakka þér fyrir samfylgdina og biðjum þess að þú fáir að hvíla í friði.

Þínar ömmustelpur,

Arna Sif og Ólöf Ósk.