Áslaug María Magnúsdóttir viðskiptastjóri Bændaferða hefur haft það að atvinnu að búa til spennandi hópferðir fyrir Bændaferðir frá árinu 2008. Hún er því hafsjór af upplýsingum um hvaða lönd, staði og hótel er best að heimsækja fyrir upplifun í útlöndum.
„Sögu Bændaferða má rekja til ársins 1965, fyrir sextíu árum síðan, þegar Agnar Guðnason fór sína fyrstu bændaferð fyrir Búnaðarsambandið á vörusýningu til Bretlands. Þetta urðu mjög vinsælar ferðir sem seinna voru í boði fyrir alla óháð starfsgrein sinni. Um aldamótin urðu Bændaferðir að almennri ferðaskrifstofu sem býður upp á innihaldsríkar hópferðir á skemmtilega áfangastaði þar sem hótel eru valin af kostgæfni og í för er ávallt íslenskur fararstjóri. Í dag geta að sjálfsögðu allir bókað sig í Bændaferð.“
Viðskiptavinir Bændaferða eru einstaklingar á besta aldri
Áslaug María segir viðskiptavinahóp Bændaferða í dag skemmtilegt fólk á besta aldri. „Einstaklingar á miðjum aldri og eldri eru helstu viðskiptavinir okkar. Fólk sem kaupir ferðir af okkur kemur vanalega aftur og aftur þar sem ferðirnar okkar eru einstaklega ánægjulegar og skemmtilegar,“ segir hún og bætir við að það séu margir kostir við að ferðast í skipulagðri hópferð á erlendri grundu. „Við höfum lagt mikla áherslu á að vera með vandaða fararstjóra sem oft tala tungumálið og þekkja sögu og menningu landsins. Fararstjórarnir okkar gegna lykilhlutverki í að tengja hópinn saman og við landið sem heimsótt er. Í hreyfiferðunum okkar eru fararstjórar sem eru hálfgerðir „íþróttaálfar“. Sumir eru til dæmis íþróttakennarar að mennt, jógakennarar eða sjúkraþjálfarar,“ segir Áslaug María.
Gísli Einarsson, sem margir þekkja úr Landanum, er fararstjóri hjá Bændaferðum. Hann þykir einstaklega skemmtilegur að ferðast með. „Hann er eins og sniðinn úr skoskri víkingamynd þegar hann er mættur í skotapilsið sitt, svona rauðbirkinn og skemmtilegur. Þú getur rétt ímyndað þér skemmtunina að fara með honum til Skotlands eða á Íslendingaslóðir í Vesturheimi, svo dæmi sé tekið.“
Eyjahopp og eldfjallaeyja vinsæl núna
Ferðalög til Tenerife og Madeira eru vinsæl á þessum árstíma. „Sérstaðan okkar í þeim ferðum eru áhugaverðar og fjölbreyttar skoðunarferðir þar sem farið verður í eyjahopp á Kanaríeyjasvæðinu, Gran Canaria, Tenerife og Fuerteventura í stað þess að liggja bara í sólbaði. Á Madeira er jafnt hitastig allt árið um kring og gott loftslag núna og þó að eyjan sé kölluð blómaeyjan þá er þetta líka tignarleg eldfjallaeyja,“ segir Áslaug María.
„Ítalía er land sem hefur upp á svo margt að bjóða“
Ferðalög um Ítalíu er sérgrein Bændaferða. „Við erum búin að bjóða upp á ferðir til Rómar og á Amalfí-ströndina lengi og seljast ferðir á þessi svæði vanalega fljótt upp. Eins eru ferðir til Toskana og að Gardavatni alltaf vinsælar. Ætli það sé ekki vegna þess að Ítalía er eins og mörg lönd. Hægt er að fara í Alpaferð í Suður-Tíról, njóta þess að vera við fallegu vötnin Como og Lago Maggiore eða að þræða suðurhluta landsins þar sem matur, strendur og Miðjarðarhafsloftslagið laðar að. Svo er menning, list og matur svo dásamleg á Ítalíu.
Að mínu mati er fátt jafn dásamlegt og að fara í hreyfiferð til Ítalíu þar sem gengið er eða hjólað í fallegu umhverfi, gist á góðum hótelum og dásamlegur matur snæddur á veitingastöðum sem oftar en ekki eru fjölskyldufyrirtæki þar sem hráefnið í matinn er ræktað á staðnum,“ segir Áslaug María og bætir við að eins og með flest annað í lífinu þá er uppskeran í samræmi við vinnuna og því nokkuð öruggt að því betur sem hugað er að líkamlegu grunnformi þeim mun meira er hægt að njóta ferðalagsins. „Við reynum alltaf að bjóða upp á hreyfiferðir í mismunandi erfiðleikastigum svo allir ættu að geta fundið ferð við sitt hæfi. Þegar kemur að hjólaferðunum okkar þá eru rafmagnshjólin að koma sterk inn en þau gera ferðirnar aðgengilegri fyrir breiðari markhóp.“
Ævintýraleg ferð til Perú seldist upp á fjórum klukkustundum
Áslaug María segir ferðalög á fjarlægar slóðir einstaklega vinsæl. „Við höfum farið á marga áhugaverða staði, eins og til dæmis Suðurskautið þar sem siglt var á ísbrjót frá syðsta hluta Argentínu, í safaríferð til Suður-Afríku, Japan og Egyptalands svo eitthvað sé nefnt. Við settum saman einstaklega áhugaverða ferð til Perú í janúar síðastliðnum sem seldist upp á fjórum klukkustundum! Svo það má segja að Íslendingar séu spenntir fyrir því að fara í ævintýraferðir í litlum hópum þar sem margt er innifalið og haldið er vel utan um alla,“ segir hún.
Þegar þú kaupir þér draumaferðina hjá Bændaferðum hefst svo skemmtilegt ferli tilhlökkunar og undirbúnings. „Að mínu mati felst stór hluti ferðagleðinnar í tilhlökkuninni, að undirbúa sig og að fræðast um staðina. Minningar verða til og stundum myndast svo mikill vinskapur fólks á milli að úr verður ferðahópur sem ákveður að fara á nýjar slóðir saman,“ segir hún.
Áslaug María segir greiðslufyrirkomulagið einnig henta mörgum. „Um leið og þú bókar ferðina með okkur þá greiðir þú staðfestingargjald. Svo getur þú greitt reglulega inn á ferðina og dreift þannig kostnaðinum. Meirihluti bókana er í gegnum netið en okkur þykir einnig mjög vænt um að fá fólk á skrifstofu Bændaferða að Síðumúla 2. Föstu viðskiptavinirnir koma gjarnan til að fá sér kaffi og spjalla um ferðirnar. Það kostar ekki aukalega að láta okkur sjá um að bóka ferðina,“ segir Áslaug.
Draumurinn að fara til Japan
Hvert er draumaferðalagið þitt með Bændaferðum?
„Það væri ferðin sem ég hef verið að setja saman til Japan þar sem farið verður áfram til Suður-Kóreu. Í ár er heimssýningin í borginni Osaka, mig hefur alltaf dreymt um að upplifa þessa menningu og sjá hinar tignarlegu geishur í sínum fallegu búningum. Í Suður-Kóreu myndi ég svo dansa Gangnam Style-dansinn! Þeir sem vilja skoða þessa ferð nánar geta farið á heimasíðuna Bændaferðir.is þar sem ferðin fer bráðlega í sölu,“ segir Áslaug María Magnúsdóttir viðskiptastjóri Bændaferða að lokum.