Guðni Ósmann Ólafsson fæddist í Ólafsfirði 12. ágúst árið 1946. Hann lést á sjúkrahúsinu á Siglufirði 6. febrúar 2025.

Foreldrar Guðna voru Ólafur Meyvant Jóakimsson skipstjóri, f. 11. maí 1924, d. 1. júní 1998, og Fjóla Baldvinsdóttir húsmóðir, f. 2. júní 1927, d. 2. september 2005. Bræður Guðna eru þeir Ægir, Sigurður og Jóakim Freyr Ólafssynir.

Þann 25. ágúst árið 1968 giftist Guðni Ásdísi Pálmadóttur frá Dalvík, f. 12. desember 1948. Börn þeirra eru Lilja Ósmann Guðnadóttir, f. 20. júní 1968, Fjóla Guðnadóttir, f. 17. nóvember 1969, Ólafur Pálmi Guðnason, f. 14. apríl 1977, giftur Ragnheiði R. Magnúsdóttur, og Birkir Guðni Guðnason, f. 25. ágúst 1981, giftur Jóhönnu Fjólu Sæmundsdóttur. Barnabörn Guðna og Ásdísar eru 11 og barnabarnabörnin eru þrjú.

Guðni bjó í Ólafsfirði alla sína tíð og byrjaði snemma til sjós, en sínar fyrstu sjóferðir fór hann ungur að árum með afa sínum Baldvini Jóhannessyni á trillunni Nóa. Árið 1963 ræður hann sig á Guðbjörgu ÓF 3 með föður sínum og er þar til ársins 1966. Þá fer hann ásamt föður sínum á Sigurbjörgu ÓF 1 og er þar með hléum til ársins 1973. Guðni fer í Stýrimannaskólann veturinn 1966 og útskrifast þaðan með skipstjórnarréttindi árið 1968. Árið 1973 fer Guðni á Ólaf Bekk ÓF 2, nýjan skuttogara Útgerðarfélags Ólafsfjarðar, fyrst sem stýrimaður og síðan sem skipstjóri frá 1978 til 1989. Það ár kaupir hann 6 tonna bát sem nefndur var í höfuðið á föður hans, Óli Jó ÓF 14, og rær á honum í tvö ár. Árið 1991 ræður hann sig sem stýrimann á Guðmund Ólaf ÓF 91 og er þar til ársins 2008 þegar hann hættir til sjós eftir 45 ára farsælan sjómannsferil.

Eftir að sjómennsku lauk stundaði Guðni ýmis störf í landi og var meðal annars hafnarvörður í Ólafsfirði í rúm tvö ár. Eftir að í land var komið tóku við ný áhugamál en þá gerðist hann hobbíbóndi og stundaði fjárbúskap. Guðni og Ásdís ferðuðust einnig saman um á húsbíl í mörg ár, bæði innanlands og erlendis, og voru félagar í húsbílafélaginu Flökkurum.

Útför Guðna fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 21. febrúar 2025, kl. 13.

Elsku Guðni bróðir, kominn í sumarlandið, mig langar að kveðja hann með örfáum orðum

Ég heyrði þá sögu að Guðni hefði einhvern tímann ungur drengur farið með afa Balda á trillunni hans og verið víst ansi sjóveikur og afi hefði sagt að þessi drengur yrði aldrei sjómaður, en það varð öðru nær, Guðni gerði sjómennsku að ævistarfi sínu, eins og flestir í okkar fjölskyldu.

Guðni fór ungur í Stýrimannaskólann í Reykjavík og starfaði síðan á bátum í Ólafsfirði, en hann gerði fleira, hann náði sér í kærustu frá Dalvík. Það var mikil gæfa, ekki bara fyrir hann heldur fyrir alla fjölskylduna, mig minnir að það hafi verið farnar sérstakar ferðir til Dalvíkur til að sjá stelpuna sem vann í sjoppunni, hana Dísu, og hún er fyrir löngu búin að sanna það fyrir manni að Dalvíkingar eru fjandi gott fólk.

Sambandið milli Dísu og Guðna finnst mér stundum hafa verið, jafnvel fyrir löngu síðan, eins og með einhvers konar bluetooth-tengingu. T.d. þegar við vorum á ferðalagi og útilegu í Mývatnssveit, fórum að Aldeyjarfossi, skoðuðum okkur víða um og fórum svo til Húsavíkur. Dísa þurfti að komast í apótek, við biðum í bílnum á meðan, Guðni sat aftur í. Svo kemur Dísa úr apótekinu, stoppar þar fyrir utan og lítur í kringum sig og kemur greinilega auga á einhverja hannyrðaverslun. Þá segir Guðni nei … Dísa nei, ekki … en þá um leið snýr hún sér að bílnum, horfir til okkar, vinkar og hverfur inn í búðina.

Árið 1973 fór Guðni bróðir í mikla ævintýraferð að manni fannst, fór alla leið til Japan, sem 2. stýrimaður að sækja skip sem þar var smíðað. Þetta var ævintýri, farið að heiman eftir áramót og komið aftur í maí, eftir tæplega tveggja mánaða siglingu frá Japan. Ég man eftir þeim degi eins og gerst hefði í gær þegar Ólafur Bekkur ÓF-2 kom í fyrsta skipti til heimahafnar og ég þá 13 ára fékk að koma um borð. Þetta var allt svo miklu stærra og miklu flottara en maður hafði áður séð, það var gaman að hitta stóra bróður eftir svo langan tíma og ekki minnkaði gleðin þegar hann færði mér reiðhjól að gjöf.

Þegar ég útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum 21 gamall lá leið mín aftur á Ólaf Bekk en Guðni bauð mér þá að koma og leysa af sem stýrimaður, ég var þá 2. stýrimaður en fór einnig í fyrsta skipti sem 1. stýrimaður með Guðna. Það var lærdómsríkt, hann kenndi mér margt, leiðbeindi mér og var í raun eins og vinur minn.

Hann gat alveg bölvað, og gerði það stundum hressilega, hefði náð langt í því ef það væri keppt í þeirri grein, en við mig sagði hann aldrei styggðaryrði, heldur leiðbeindi mér og ráðlagði.

Þótt heilsunni hrakaði og maður hugsaði oft um það að líklega yrði ekki aftur snúið, þá er stundin þegar kallið kemur alltaf erfið, og var það fyrir okkur bræður, mig og Jóakim, sem vorum þá nýlentir á Tenerife, en við ákváðum að njóta ferðarinnar með okkar betri helmingum, og rifja upp minningar um stóra bróður.

Ég kveð minn kæra bróður. Nú er Guðni eflaust með góðu fólki í sumarlandinu með rauðvín í glasi og örugglega lambakótelettur á grillinu.

Sigurður bróðir.

Fyrstu kynni okkar Guðna voru þegar ég kom til starfa á Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar sem útgerðarstjóri blautur bak við eyrun 1973. Þá var verið að undirbúa för skipverja til Japans að sækja Ólaf Bekk ÓF 2 og hann var ráðinn 2. stýrimaður, en varð síðar skipstjóri. Við störfuðum svo saman í þessum bransa í 16 ár eða þar til hann hætti sem skipstjóri á Ólafi Bekk og ég hætti á Hraðfrystihúsinu. Við það rofnuðu tengslin að miklu leyti.

Margar góðar minningar hellast yfir hugann þegar hugsað er til þessa tíma og mér finnst samstarf okkar Guðna hafa verið með miklum ágætum allan þann tíma sem við störfuðum saman, þó auðvitað hafi stundum gustað um eins og gerist en ekkert sem kastaði skugga á okkar samstarf. Hann var mjög samviskusamur og góður yfirmaður á sínu skipi. Við tókum þátt í endurbyggingu á Ólafi Bekk í Póllandi árið 1987 og breytingar sem gerðar voru á japönsku togurunum þar tókust vel og var hann þar vakinn og sofinn yfir framkvæmdunum. Það rifjast upp nokkur skondin atvik frá þeim tíma. Meðal annars var tollurinn í Póllandi oft nokkuð erfiður og ekki hægt að koma nokkrum sköpuðum hlut hvorki inn né út úr landinu. Eitt sinn á ferð okkar þangað var Guðni tekinn afsíðis og leitað á honum hátt og lágt og víðar. Það var ekki brosmildur gæi sem steig út úr leitarklefanum enda vandur að virðingu sinni. Í annað sinn vorum við Guðni á ferð til Póllands og vorum í herbergi saman í millilendingu í London. Þegar í herbergið kom blasti við okkur hjónarúm ekki breitt og kom þá heldur betur svipur á okkur, en létum okkur hafa það og sváfum saman eða þannig sko.

Ánægjuleg var ferð sem við hjónin fórum saman til London fyrir rúmlega 40 árum. Þar voru okkur kynntir nýir kokteilar, annar blár fyrir mig og hinn grænn fyrir Guðna, sem passaði vel við okkar skoðanir og kölluðum við þessa kokteila Þorstein Pálsson og Steingrím Hermannsson en þeir voru þá áberandi stjórnmálamenn.

Með þessum fátæklegu línum vil ég minnast góðs drengs sem horfinn er á braut. Dísa og fjölskylda, innilegustu samúðarkveðjur frá okkur Ingu. Minningin um Guðna lifir.

Þorsteinn Ásgeirsson.