Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir fæddist á Landspítalanum í Reykjavík og bjó fyrstu tvö æviárin í Hafnarfirði. Hún fluttist með foreldrum sínum og eldri bróður til Svíþjóðar þar sem þau dvöldu í níu ár, lengst af í úthverfi Gautaborgar. Fjölskyldan flutti til Akureyrar þegar Ragnheiður var 11 ára gömul þar sem hún gekk í Glerárskóla og síðan í Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún útskrifaðist árið 1995.
„Frá Svíþjóðarárunum hef ég minningar um boltaleiki á túninu, ávaxtahnupl úr görðum nágranna, krabbaveislur og sælu á sænskum sumarkvöldum. Við áttum alltaf íslenska nágranna á Svíþjóðarárunum, sem hjálpaði til við að viðhalda íslenskunni og Íslendingnum í okkur systkinunum. Það gerði umskiptin við að flytja til Akureyrar 11 ára gömul auðveldari. Þar eignaðist ég góða vini og vinkonur í gegnum skóla, stuttan handboltaferil og örlítið lengri tónlistarskólaferil. Grunnskólavinkonur mínar halda enn hópinn, sem er dýrmætt þótt stundum líði langt á milli þess að við hittumst.“
Haustið 1995 hóf Ragnheiður nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS í hjúkrunarfræði 1999. Hugurinn fór fljótlega að leita í átt að rekstri og stjórnun og hún lauk diplóma í rekstrar- og viðskiptafræði 2004 frá Endurmenntun Háskóla Íslands og svo loks MBA-gráðu frá sama skóla 2015.
„Á fyrsta ári í háskólanum kynntist ég Hjálmari mínum á Stúdentagörðunum og í gegnum hann eignaðist ég sterkan vinahóp sem á rætur sínar að rekja til Egilsstaða. Sá hópur skipar mjög stóran sess í lífi okkar beggja.“
Starfsferill Ragnheiðar hefur spunnist út frá grunninum sem var lagður með hjúkrunarfræðinni, en með tímanum og tækifærunum sem hún hefur fengið snúið meira að stjórnun og rekstri.
„Ég starfaði í nokkur ár sem yfirhjúkrunarfræðingur á rannsóknarsetri Íslenskra lyfjarannsókna og fékk þar góðan grunn og skilning á gæðaferlum og vinnubrögðum í rannsóknum auk þess að fá reynslu af stjórnun og fyrirtækjarekstri. Það varð úr að ég vildi spreyta mig meira í slíku og skráði mig í MBA-nám við Háskóla Íslands, þar sem ég varð hluti af frábærum nemendahópi sem ég lærði mikið af. Í náminu er lögð mikil áhersla á teymisvinnu og þótti mér sérstaklega vænt um að fá viðurkenningu við útskrift frá samnemendum fyrir góða samstarfseiginleika.“
Þegar Ragnheiður hafði nýlokið MBA-prófi og var að feta sig áfram í sjálfstæðum rekstri bauðst henni að taka að sér verkefnastjórnun í átaksverkefni á vegum heilbrigðisyfirvalda og Landspítala, Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C, sem var risavaxið verkefni á þeim tíma og mikill skóli.
„Í þeirri vinnu hef ég komið að birtingu rannsóknarniðurstaðna og fengið viðurkenningu fyrir á alþjóðlegum vettvangi. Helsti samstarfsaðili Landspítala í því verkefni var SÁÁ, sem varð til þess, þegar því verkefni lauk, að ég færði mig yfir til SÁÁ þar sem ég tók síðan við sem forstjóri fyrir rétt um ári.“
Ragnheiður segir að á þessum tíma hafi SÁÁ átt hug hennar allan, enda einstakur þjónustuveitandi og vinnustaður. „Verkefnin eru brýn og þörf og samstarfsfólk mitt ábyggilega umhyggjusamasta, vinnusamasta og skemmtilegasta fólk landsins, og þótt víðar væri leitað. Við erum stöðugt að reyna að finna leiðir til að gera meira og betur í þjónustunni við fólk með fíkn, hvort sem er með stuðningi heilbrigðisyfirvalda eða í gegnum stuðning almennings við SÁÁ. Það eru forréttindi að fá að starfa í slíku umhverfi.“
Þótt áhugamálin séu mörg hafa þau tekið annað sætið vegna anna í vinnunni. „Ég passa þó upp á að hreyfa mig reglulega og ná aðeins að klappa hjólinu, golfsettinu, skíðunum, veiðistönginni, gönguskónum og bandýkylfunni, helst í félagsskap vina og fjölskyldumeðlima, á meðan þetta allt bíður betri tíma.“
Fjölskylda
Eiginmaður Ragnheiðar er Hjálmar Vilhjálmsson, f. 2.10. 1973, yfirmaður uppsjávarsviðs hjá Brimi, og þau búa í Grafarvogi. Foreldrar Hjálmars eru hjónin Vilhjálmur Einarsson, f. 5.6.1934, d. 28.12. 2019, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, og Gerður Unndórsdóttir, f. 1.5.1941.
Synir Ragnheiðar og Hjálmars eru: 1) Elvar Otri, f. 23.6. 2000, viðskiptafræðingur í Reykjavík. Unnusta hans er Steinunn Thalia J. Claessen, nemi við Listaháskóla Íslands. 2) Vilhjálmur Yngvi, f. 12.2. 2002, nemi við Háskóla Íslands, og unnusta hans er Hjördís Erla Björnsdóttir háskólanemi. 3) Theodór Orri, f. 29.2. 2008, nemi við Borgarholtsskóla.
Bróðir Ragnheiðar er Högni Friðriksson, f. 10.3. 1972, sjúkraþjálfari á Ísafirði og hann á dæturnar Hildi Theodóru og Kristínu Bergrós, sem eru búsettar í Bandaríkjunum.
Foreldrar Ragnheiðar eru hjónin Friðrik Elvar Yngvason, f. 3.1. 1949, lyf- og lungnalæknir, og Theodóra Gunnarsdóttir, f. 26.5. 1947, svæfingahjúkrunarfræðingur. Þau búa í Reykjavík.