Arnar Sigurðsson, Addi Sandari eins og hann var alltaf kallaður, fæddist 15. nóvember 1931 í Hallsbæ á Hellissandi á Snæfellsnesi. Hann lést á Borgarspítalanum 28. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Sigurður Magnússon, múrari og verkstjóri í frystihúsinu á Hellissandi, f. 17. ágúst 1903, d. 26. nóvember 1989, og Guðrún Jónasdóttir húsfreyja, f. 11. október 1904, d. 23. ágúst 1994. Systkini Adda eru Jónas, f. 4. ágúst 1927, d. 18. nóvember 1998, Inga, f. 12. júlí 1933, d. 28. nóvember 2024, og Magnús, f. 16. júlí 1938.
Arnar ólst upp á Hellissandi og vann þar við múrverk með föður sínum frá unga aldri. Addi fór ungur á sjó og lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1954. Hann var stýrimaður á vetrarvertíðum meðal annars á Ágústi, Kára, Tý og Bjarna riddara en stundaði múrverk á sumrin.
Arnar og Helena Björg Guðmundsdóttir, Baddý, f. 2. maí 1936, d. 22. nóvember 2020, giftu sig þann 27. desember árið 1956 í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru: Guðrún, f. 17. mars 1956, Þór, f. 18. janúar 1962, og Arndís, f. 20. september 1968. Barnabörn eru Arnar Magnússon, Magnús Magnússon og Helena Ólöf Snorradóttir og barnabarnabarn er Eyvindur Ingi Magnússon.
Arnar og Helena bjuggu á Sólvöllum á Hellissandi 1956 en fluttu til Vestmannaeyja 1957. Í Vestmannaeyjum byggðu þau hús að Bakkastíg 29 og bjuggu þar uns þau fluttu til Reykjavíkur í ágúst 1968 en þar bjuggu þau lengst af á Háaleitisbraut 25. Addi byggði nokkur einbýlishús og blokkir en gerðist svo fasteignasali. Þau hjónin byggðu sér sumarbústað á Laugarvatni 1978 og eyddu þar miklum tíma ásamt fjölskyldu og vinum í áratugi.
Addi og Baddý höfðu mjög gaman af tónlist og voru saman í kór Félags eldri borgara Vesturgötu 7, Söngfuglum og kór Félags eldri borgara í Reykjavík Stangarhyl 4. Þau ferðuðust mikið á vegum kóranna, meðal annars til Svíþjóðar, Ítalíu og Austurríkis með Pólýfónkórnum þar sem Baddý söng ásamt systur sinni í áratug. Með kór Félags eldri borgara fóru þau til Pétursborgar í Rússlandi og Helsinki í Finnlandi. Einnig ferðuðust þau mikið innanlands með félögum í Akoges.
Útför Arnars fer fram frá Áskirkju í dag, 21. febrúar 2025, kl. 15.
Addi móðurbróðir minn lést á nítugasta og fjórða aldursári eftir stutt veikindi á Landspítalanum. Hann neitaði læknisaðstoð undir það síðasta og sagðist frekar vilja deyja, eftir að hann sagðist hafa heyrt í Baddý sinni og Jónasi afa sínum og fleira fólki, sem var mætt til að sækja hann yfir til þeirra, enda fann hann fyrir hlutum sem aðrir í fjölskyldunni fundu ekki fyrir.
Addi frændi kallaði sig alltaf Adda Sandara, fæddur á Hellissandi í Hallsbæ næstelstur af fjórum systkinum. Hann byrjaði snemma að vinna til sjós, eins og drengja var þá siður, enda harðduglegur, metnaðarfullur og bráðvel gefinn, og elskaði að vera innan um fullt af fólki og tala um pólitík og málefni líðandi stundar, hann sóttist ekki eftir að allir væru sammála honum. Tíminn á sjónum fyrir vestan mótaði skapgerð hans alla ævi. Hann var hörkunagli og sá eftir því að hafa ekki fengið sömu tækifæri og fólkið á mölinni. Addi sagði líka að þegar hann fór á sjóinn þá voru krakkarnir fyrir sunnan sendir í nám í Sorbonne í París. Addi var alltaf veðurglöggur eins og afi hans og aðrir af Hallsbæjarættinni. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt og spurt hvernig verður veðrið næstu daga og mánuði. Addi gerðist fasteignasali í Reykjavík um árabil og byggði nokkur einbýlishús og blokkir í Reykjavík. Eftir eldgosið í Vestmannaeyjum leituðu margir til hans og greiddi hann götu margra, enda voru tengslin við Vestmannaeyjar sterk, hafandi búið þar í þó nokkur ár.
Addi var mikill smekkmaður og átti fallegt heimili á Háaleitisbrautinni með Baddý sinni og börnum þeirra, Guðrúnu, Þór og Arndís. Þar var oft glatt á hjalla. Þau voru einstaklega samrýmd og var alltaf gaman að koma þangað og fá kaffi sem var alltaf hellt upp á á gamla mátann. Addi og Baddý elskuðu tónlist og sungu þau saman í kór. Ég man svo vel eftir jólaboði á Háaleitisbrautinni en þar stóð stærsta lifandi jólatré, fallega skreytt, sem ég hafði þá séð. Á þeim tíma var svo „slide show“ eftir frábæran jólamat. Þetta eru góðar minningar.
Addi elskaði að syngja og var hann í nokkrum eldriborgarakórum það sem hann naut sín svo vel og sagði hann aðef hann væri ungur myndi hann hafa lært að syngja. Hann var með kassettutæki heima sem hann notaði til að æfa röddina og keyrði svo 93 ára á kóræfingar. Hann elskaði að keyra og fékk sér flottustu augasteina til að halda bílprófinu, alltaf eldklár í höfðinu. Addi var manna fróðastur í ættfræði og fylgdist vel með fréttum og unga fólkinu í fjölskyldunni.
Addi, ásamt Magga bróður sínum, sýndi móður minni einstaka ræktarsemi og bróðurkærleik þau 8 ár sem hún lá á Sóltúni. Bræðurnir komu nánast hvern einasta dag í heimsókn til hennar, sem eftir var tekið af starfsfólki Sóltúns.
Nú er komið að leiðarlokum. Einstakur maður er farinn og gamli tíminn á Hellissandi með honum. Hann mundi allt, nánast hundrað ár aftur í tímann.
En núna er okkar Addi Sandari loksins kominn heim.
Guðrún Bryndís Harðardóttir.
Maðurinn með sterka arminn, breiðustu upphandleggina og allar skoðanirnar hefur kvatt sviðið.
Hann Addi hennar Baddýjar frænku hafði verið í lífi okkar frá því við systur fæddumst. Elstu minningarnar birtast okkur ljóslifandi, þegar hann kom nánast á hverju kvöldi eftir mat í spjall heim til foreldra okkar. Þaðan lá leið hans til annarra vina í stigaganginum og svo leit hann aftur við á bakaleiðinni. Oftar en ekki með fréttir og sterkar skoðanir, jók spennustigið í skoðanaskiptum og hélt svo heim á leið með stríðnisglampa í augunum. Það var líka ósjaldan sem okkur yngri kynslóðinni var gefið í nefið á meðan þessar heimsóknir stóðu yfir og takmarkinu náð þegar tárin runnu niður litla vanga og hnerrað var í kjölfarið.
Þær eru ótal sögurnar af Adda sem vildi okkur vel. Hann átti það til að taka góðar ræður um ónytjungana sem útskrifuðust úr háskólanum, fólk sem aldrei myndi vinna nokkuð af viti og væri afætur á ríkisjötunni. Á sama tíma hvatti hann okkur öll í háskólanám og var meira að segja ábyrgðarmaður á námslánum okkar systra þar sem foreldrar okkar höfðu látist fyrir aldur fram. Hann treysti því að allt færi vel.
Addi fylgdist alltaf vel með öllu sem gekk á í lífi okkar og við stærstu ákvarðanir lífsins var alltaf gott að leita til hans því hann gaf hreinskilið svar og fengum við að vita í orði og á borði að stuðningur væri alltaf til staðar.
Minning Adda mun lifa í hjörtum okkar. Það er ljúft að hugsa til þess að þau hjónin, Addi og Baddý, hafi sameinast á ný. Við vitum að fjör hefur færst í leikinn þarna hinum megin. Addi er mættur, farinn í heimsókn til allra vina og ættingja sem hann saknaði mikið. Enginn efi er í okkar huga að hann vakir áfram yfir fólkinu sínu hér í þessari jarðvist, ekki verður látið af stjórn mannsins í brúnni.
Guð blessi minningu Adda Sandara, hans er og verður alltaf sárt saknað.
Bína, Þórhildur, Gyða og Olga Olgeirsdætur.
„Verið góð við hvort annað,“ voru andlátsorð Adda Sandara.
Þessi hrjúfi maður var óspar á stóru orðin, sem féll ef til vill ekki öllum í geð. Það þekktu ekki margir mýkri hliðina á Sandaranum. Hann hjálpaði þeim sem minna máttu sín og var reddari af Guðs náð.
Addi var næmur og berdreyminn. Hann gekk að látnum bróður mínum samkvæmt draumi. Það er kraftaverk, eitthvað sem enginn fær skilið.
Um árabil var Addi vitinn í lífi mínu. Hann stappaði í mig stálinu og hvatti mig til dáða.
Hann stóð sem klettur bak við fjölskyldu mína.
Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.
Kristbjörg Hrund.
Addi var órjúfanlegur hluti af uppvexti mínum. Hann var giftur Baddý móðursystur minni og voru náin tengsl og vinátta milli fjölskyldnanna. Ég var heimagangur hjá þeim, gekk inn án þess að banka, kallaði bara „hæ, þetta er Þórhildur“ og fékk svarið „sæl, elskan mín“.
Heimili þeirra var gestkvæmt og stóð öllum opið og var Addi ósjaldan í símanum við fjölskyldumeðlim eða vin að aðstoða við hitt og þetta. Hann starfaði sem fasteignasali um árabil og stórfjölskyldan naut góðs af þekkingu hans enda var Addi óspar á aðstoð sína. Bæði fékk ég góðs af því að njóta í mínum fasteignakaupum sem og var hann snöggur að stökkva til að aðstoða þegar mín börn tóku skref inn á fasteignamarkaðinn.
Addi var mikill karakter, hreinskilinn, ákveðinn og fylginn sér. Hann hafði miklar skoðanir á mönnum og málefnum og lá ekki á þeim. Hann var félagslyndur, fróðleiksfús, hafði yndi af ferðalögum og fylgdist vel með stækkandi fjölskyldunni.
Hann flíkaði ekki tilfinningum sínum og var yfirborðið ásamt orðfæri hrjúft. Hann sýndi hins vegar kærleika og umhyggju með gjörðum sínum, ekki orðum, og var fjölskyldan honum allt.
Ég hélt alltaf að mamma og Baddý væru helstu söngfuglarnir í fjölskyldunni. Síðar uppgötvaði ég að Addi bjó yfir mjög fallegri tenórrödd og söng hann í þremur kórum þegar mest var. Ók hann á síðustu kóræfinguna viku fyrir andlátið.
Það var aðdáunarvert hvað Addi hugsaði vel um Baddý eftir að hún veiktist af alzheimers-sjúkdómi. Maðurinn sem hafði aldrei sinnt heimilisverkum tók við heimilisstörfunum, þá orðinn áttræður. Það var honum þungbært þegar Baddý flutti á hjúkrunarheimili og sorgin mikil yfir því að geta ekki lengur sinnt henni heima. Ekki bætti úr skák að covid skall á stuttu síðar og heimsóknir voru takmarkaðar.
Addi þekkti mig út og inn. Hann sýndi mér og mínum ætíð kærleika og umhyggju. Ég kveð stóran mann með hjarta fullt af þakklæti.
Þórhildur Sigtryggsdóttir.
Arnar eða Addi var náinn fjölskylduvinur og um áratugaskeið var hann nær daglegur gestur á heimili okkar á Laugarásvegi 60. Hann var kraftmikill maður, sterkur persónuleiki sem gustaði af og hafði ríkt skopskyn. Það verður ekki ofsagt að hann hafi verið einstakur dugnaðarforkur sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Í fjölda ára sótti hann sjóinn á fiskiskipum en síðar fékkst hann við ólík verkefni s.s. múrverk og innflutning á innréttingum og margvíslegum vörum. Um langt skeið stóð hann að húsbyggingum og var fróðlegt og áhugavert að fylgjast með honum í þeim rekstri. Rétt fyrir aldamótin var hann með fjölda íbúða í byggingu og hefði margur opnað skrifstofu byggingafélags, ráðið ritara og annað starfsfólk í svo umfangsmiklu verkefni. En því var ekki að skipta þegar kom að Adda því að skrifstofan var ein lítil taska og farsími. Verkefnið gekk einstaklega vel þótt ekki væri til að dreifa glæsilegum aðalstöðvum fyrirtækisins.
Eiginkona Adda, Helena eða Baddý, var jafnframt tíður gestur á heimili okkar. Oft var líflegt í húsinu þar sem hláturinn ómaði undir sögum af kynlegum kvistum, skemmtilegum uppákomum eða brugðið var upp spaugilegum myndum af því sem var efst á baugi í samfélaginu. Kynslóðabilið var ekki til þannig að ef foreldrarnir voru ekki heima þegar Adda bar að garði þá settist hann oft niður með okkur krökkunum og ræddi um heima og geima. Adda var stjórnmálaumræða mjög hugleikin enda hafði hann sterkar skoðanir á því samfélagi sem við bjuggum í og hvernig haldið var um stjórnartaumana. Honum varð tíðrætt um yfirbyggingu ríkisgeirans, sóun verðmæta og var ekki spar á orðin þegar kom að spillingu þeirri sem viðgengst. Sterk tengsl sköpuðust á milli fjölskyldnanna og innileg vinátta myndaðist á milli Þórs og bræðranna Einars Arnar og Gunnars Steins sem voru jafnframt samtímis í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Er faðir okkar Gunnar veiktist alvarlega árið 1996 reyndist Addi honum einstaklega vel og var fallegt að sjá hve einlæg vinátta þeirra var. Eftir andlát föður okkar hélt hann góðum tengslum við fjölskylduna. Við erum þakklát fyrir þau mörgu ár sem við nutum vináttu hans og nærveru.
Elsku Guðrún, Þór, Arndís og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Einar Örn, Gunnar Steinn, Guðmundur og Oddný.
Í gær sá ég í Morgunblaðinu að góður vinur og gagnmerkur samtíðarmaður, Arnar Sigurðsson, hefði látist. Í Eyjum gekk hann alla tíð undir nafninu Addi Sandari. Addi setti alla tíð svip á bæinn í Eyjum. Eftir ekki svo langa dvöl í Eyjum náði hann í sætustu stelpuna í bænum. Við svona passlega gleði heimamanna. En samferð þeirra varð afar farsæl. Addi sýndi fljótt hvað í honum bjó, fyrst var hann til sjós og var á þeim árum rómaður fyrir dugnað. Síðar varð hann harðduglegur múrari og byggði fjölskyldu sinni einstaklega fallegt hús austan við Skálholt. Okkur Adda var alltaf vel til vina og sendi ég honum jafnan öðru hvoru vinarkveðjur, og samúðarkveðjur þegar hann missti sína kæru Baddý. Fyrir nokkrum árum vorum við saman á Heilsustofnun í Hveragerði og þá var elsku Baddý orðin veik. Alloft kom það til að hún kom til mín og spurði: Hefurðu séð hann Adda minn? Ég brást að jafnaði vel við eða fann Adda einhvers staðar í stofnuninni. Ég blessa sannarlega minningu þessara yndislegu hjóna sem settu svip sinn á bæjarlífið í Eyjum. Blessuð sé minning þessara heiðurshjóna.
Ég sendi afkomendum þeirra mínar kærustu samúðarkveðjur.
Óli Gränz.