30 ára Hildur fæddist á Ísafirði og ólst þar upp. Hún segir að það hafi verið mjög gaman að vera barn á Ísafirði og mikið frelsi. Hún var í fótbolta frá fimm ára aldri þar til hún varð 23 ára. Hún spilaði með BÍ/Bolungarvík og eftir að hún flutti suður sextán ára spilaði hún með Fram í Reykjavík.
Hildur fór í Verslunarskóla Íslands og eftir stúdentsprófið fór hún í grunnnámið í sálfræði í HÍ. Hún fór síðan í framhaldsnám í HR og útskrifaðist sem klínískur sálfræðingur í fyrra. Hún starfar sem sálfræðingur hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í Kópavogi og auk þess starfar hún sem sálfræðingur í Ljósinu, endurhæfingu fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein. Hún segir starfið krefjandi en á sama tíma mjög gefandi.
Helstu áhugamálin eru hlaup og hreyfing. „Svo finnst mér mjög gaman að prjóna og núna er ég komin með píanó og finnst mjög gaman að læra á það,“ segir Hildur og bætir við að samvera með vinum og fjölskyldu séu alltaf í efsta sæti.
Fjölskylda Kærasti Hildar er Ásgeir Orri Ásgeirsson, f. 1990, tónlistarmaður. Foreldrar Hildar eru Hálfdán Óskarsson, f. 1962, stofnandi og framkvæmdastjóri hjá Örnu mjólkurvinnslu í Bolungarvík og Sigríður Jörundsdóttir, f. 1963, sjúkraliði og stafar á Eyri á Ísafirði. Þau búa á Ísafirði.