Ég hef ferðast um land allt síðastliðnar vikur í aðdraganda landsfundar sjálfstæðismanna og lagt við hlustir hvað brennur mest á landsbyggðinni. Skórinn virðist alls staðar kreppa á sama stað – samgöngur milli landshluta eru í ólestri og víða er vegakerfið hrunið eða að hruni komið. Þetta á sérstaklega við á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem þungatakmarkanir hafa verið settar á flesta vegi og ástandið er orðið þannig að sums staðar er hætt að landa sjávarafla, þar sem ekki er hægt að koma honum á markað.
Vegagerðin hefur lýst yfir hættuástandi víða vegna bikblæðinga, bæjarstjórinn í Stykkishólmi talar um neyðarástand á Snæfellsnesi, atvinnurekendur verða stöðugt fyrir skaða og notendur kvarta undan eyðileggingu ökutækja með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði. Of litlu fjármagni er veitt í verkefnið og það sem þó fæst fer í að slökkva brennandi elda í stað fyrirbyggjandi viðhalds. Þannig hefur stundum þurft að hefla ónýtt slitlag af vegum og breyta þeim aftur í malarvegi til þess að halda þeim opnum og það er aftur til umræðu núna. Þetta heitir að pissa í skóinn sinn og er okkur ekki til sóma miðað við þá hagsæld sem við viljum búa við.
Lausnin á þessum samgönguvanda er ekki aukið eftirlit með þungaflutningum eins og ráðherra samgöngumála hefur lagt til, heldur þarf risaátak í að byggja upp vegi með alvöru burðarþoli og varanlegu slitlagi. Samkeppnishæfi landsins er í húfi. Að auki bíður fjöldi arðbærra verkefna í styttingu vega og gerð jarðganga. Þetta eru innviðaverkefni sem þola enga bið en eru ólíkleg til að vera fjármögnuð af ríkissjóði einum saman.
Þörfin fyrir öruggt og skilvirkt vegakerfi hefur aldrei verið meiri. Krafa samfélagsins er að þau gríðarlegu verðmæti sem landsbyggðin framleiðir komist hratt á markað, vöruflutningar gangi snurðulaust og almenningur allur geti ferðast óttalaus um landið allt árið um kring. Höfum líka í huga að það hafa aldrei verið fleiri erlendir ferðamenn á ferðinni um landið okkar heldur en nú.
Við höfum góða reynslu af samstarfsverkefnum opinberra aðila og einkaaðila þegar kemur að vegaframkvæmdum, svo sem Hvalfjarðargöngunum. Ef einhvern tíma var þörf er nú nauðsyn. Jarðgangafélag í Færeyjum er okkur góð fyrirmynd og ég er sannfærð um að lífeyrissjóðir landsins með sína 8.000 milljarða væru meira en reiðubúnir að fjármagna arðbær langtímaverkefni. Samgönguinnviðir eru langt í frá einu verkefnin þar sem beisla má afl utan opinberra sjóða, en þar hastar mest í augnablikinu.
Verkefnið er skýrt. Finnum strax leiðir til að byggja upp alvöru samgönguinnviði, björgum verðmætum og stöðvum sóun. Framtíðin er nefnilega núna.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. aslaugs@althingi.is